16.05.1950
Sameinað þing: 50. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 190 í D-deild Alþingistíðinda. (3693)

151. mál, friðun Faxaflóa

Flm. (Pétur Ottesen) :

Á árinu 1948 voru samþ. á Alþingi lög um vísindalega verndun fiskimiðanna í landgrunninu umhverfis landið. Í þessum l. var sjútvmrn. falið að gefa út reglugerð um sérstök verndarsvæði, eftir því sem kleift þætti. Á grundvelli þessara laga hefur ríkisstj. sýnt lofsverða röggsemi með því að gefa út reglugerð um friðun landgrunnsins fyrir Norðurlandi, og má fullyrða, að útgáfa þessarar reglugerðar verði merkur þáttur í sjálfstæðisbaráttu okkar. Eins og öllum landsmönnum er kunnugt, veltur afkoma okkar að miklu leyti á fiskimiðunum umhverfis landið. Þess vegna er okkur lífsnauðsyn, að þau verði ekki ónýtt með óhóflegri rányrkju. Í þeim málum eru horfurnar ekki góðar hér sunnan- og vestanlands, þar sem botnvörpuveiðar aukast stöðugt og svo langt gengur, að þeir toga upp undir landssteinum, og má í því sambandi minna á þau spjöll, sem þeir ollu á línum báta hér úr verstöðvum við Faxaflóa á síðustu vertíð. Það má því segja, að nú sígi stöðugt á ógæfuhliðina fyrir okkur, eftir því sem botnvörpungunum fjölgar hér við land, en þeim hefur stöðugt fjölgað nú síðustu ár, en hafa þó aldrei verið fleiri en á síðustu vertíð. Og svo nærgöngull var þessi togarafloti við bátana, að þeir eyðilögðu línu þeirra og afla. Kvað svo rammt að þessu nú í lok vertíðar, að sumir bátar urðu að hætta veiðum, vegna þess að botnvörpungar höfðu eyðilagt veiðarfæri þeirra, en önnur veiðarfæri voru ófáanleg, miklu fyrr en þeir hefðu ella gert.

Nú hefur lengi verið háð sú barátta hér á Alþingi að fá Faxaflóa friðaðan. Þetta hefur meðal annars ekki verið hægt vegna samnings, sem í gildi hefur verið, við Englendinga frá 1901. Nú hefur þessum samningi verið sagt upp, þó að hann sé að vísu ekki fallinn úr gildi enn. Með hliðsjón af þeim lýsingum, sem ég gaf hér á undan á yfirgangi togbáta hér á Faxaflóa, og þeirri hættu, sem af honum stafar fyrir bátaflotann og sömuleiðis fiskimiðin, þá hef ég leyft mér að bera fram þá till., að á grundvelli þeirra laga, sem áður greinir, verði haldið áfram á sömu braut og hin nýútgefna reglugerð markar, með því að gefa út nú þegar eða eins fljótt og mögulegt er aðra reglugerð um bann við dragnótaveiði og togveiði í Faxaflóa. Þessi till. mín er flutt eftir áskorun frá fjöldamörgum aðilum, sem hlut eiga að máli, og get ég þar nefnt t. d. hreppsnefnd Garðahrepps, bæjarstjórn Keflavíkur og sjómenn á Akranesi ásamt fleirum. Sumum þykir till. mín ekki ganga nægilega langt og vilja láta bannið ná yfir allan flóann frá Geirfuglaskeri að Öndverðarnesi, og er það að sjálfsögðu æskilegt og ber að stefna að því. Hins vegar tel ég þó, að aðaltillaga mín sé allmikið til bóta og geti forðað þeirri hættu, sem yfir vofir, ef ekkert verður að gert. En eins og ég sagði, er friðun flóans frá Geirfuglaskeri að Öndverðarnesi æskileg, og sé vilji fyrir slíkri friðun og ríkisstj. telji hana mögulega, þá liggur fyrir brtt. á þskj. 762 þess efnis. Ég viðurkenni fúslega, að verði þessar ráðstafanir gerðar á grundvelli þeirra laga, sem ég gat um, stöndum við nokkuð höllum fæti gagnvart Englendingum vegna þess samnings, sem ég áðan gat um, þar sem samningurinn frá 1901 er ekki enn fallinn úr gildi, enda þótt honum hafi verið sagt upp, og má gera ráð fyrir, að ekki verði hægt að gera þessar ráðstafanir gagnvart Bretum fyrr en samningurinn er fallinn úr gildi, en það mun vera eftir rúmt ár. Það veldur að sjálfsögðu nokkrum erfiðleikum í framkvæmd, en ætti þó ekki að útiloka, að tilraun verði gerð, þegar svo mikið er í húfi sem raun ber vitni. Ég vil svo fela hæstv. ríkisstj. frekari ákvarðanir í þessu máli, því að ég ber mikið traust til hennar, og ekki síður fyrir þann lofsverða vilja, sem hún hefur sýnt með þeirri reglugerð, sem hún þegar hefur gefið út um friðun landgrunnsins fyrir Norðurlandi. Sú ráðstöfun ætti að geta komið að góðu haldi mjög fljótlega, ef vel tekst til, því að líklegt er, að hin gegndarlausa veiði erlendra skipa eigi sinn þátt í því afhroði, sem við höfum goldið á síldveiðunum undanfarið. Ég vil því vænta, að hæstv. ríkisstj. taki þessa till. til athugunar og leysi þetta mál eftir því sem hún telur efni standa til. Og það ætti að vera styrkur fyrir hæstv. ríkisstj. í þessu máli, ef Alþingi sýnir með samþykkt þessarar till. einbeittan vilja til sóknar í því máli, sem þegar er hafin með uppsögn samningsins frá 1901 og reglugerðinni um friðun fyrir Norðurlandi.