16.05.1950
Sameinað þing: 50. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 192 í D-deild Alþingistíðinda. (3696)

151. mál, friðun Faxaflóa

Flm. (Pétur Ottesen):

Ég vil í tilefni af því, sem atvmrh. sagði, geta þess, að till. mín gerir ráð fyrir, að allar ráðstafanir í þessu efni verði byggðar á l. nr. 44 1948, en þar er tekið fram, að þær reglur, sem settar verði, skuli vera í samræmi við milliríkjasamninga á hverjum tíma. Þess vegna felst alls ekki í minni till. að rjúfa samninga á einum eða neinum. Hitt hafði ég haldið, að mögulegt væri að útiloka strax á þessu ári togveiðar annarra en Englendinga, en eins og kunnugt er, safnast hingað mikill fjöldi annarra togskipa, en frá Englandi.

Það verður að viðurkenna, að samþykkt till. styrkir aðstöðu ríkisstj., en þar sem hún á að framkvæma hana, er ekki óeðlilegt, þótt hún vilji breyta orðalagi, ef hún telur það betra. Alþingi gerir út um það, með hverjum hætti þessi till. verður samþykkt, hvort brtt. hæstv. atvmrh. verður felld eða ekki. En ef ég ætti að velja á milli, annars vegar að till. mín yrði svæfð, ef brtt. hæstv. atvmrh. yrði ekki samþ., þá mundi ég velja þann kostinn að samþykkja brtt., þótt ég telji hitt æskilegra. Ég tel, að þrátt fyrir brtt. hæstv. atvmrh. eigi stj. að vera styrkur í samþykkt slíkrar till. Með þessu móti stæðum við nær skjótum árangri heldur en ef ekkert væri að gert.