16.05.1950
Sameinað þing: 50. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 194 í D-deild Alþingistíðinda. (3708)

168. mál, uppbætur á ellilífeyri o.fl.

Haraldur Guðmundsson:

Forseti hefur nú lesið brtt, mína við þáltill. hæstv. ríkisstj., og skal ég nú víkja að þessu nánar.

Ég leit svo á, að fyrr á þessu þingi hefði verið náð fullu samkomulagi um það, að heimild skyldi veitt til að greiða uppbæturnar þannig, að hækkun á þessum greiðslum fyrir 1949 yrði hin sama og opinberir starfsmenn hafa fengið frá 1. júlí 1949.

Nú sé ég, að ríkisstj. leggur til, að þessi heimild sé veitt til 1. júlí 1950, en frá þeim tíma á þessi uppbót að lækka niður í 15% og er þá lægri, en opinberir starfsmenn fá. Samkvæmt ætlun þeirra, sem um alþýðutryggingarnar hafa fjallað, var gert ráð fyrir, að önnur fríðindi kæmu einnig til uppbátar. Ég leyfi mér því að leggja til, að uppbæturnar verði hinar sömu, eða 10% , fyrir allt tímabilið, þannig að hækkunin verði 20% allt þetta tímabil. En til vara legg ég til, að uppbæturnar verði 7% frá 1. júlí, eða álíka og hjá opinberum starfsmönnum í lægsta launaflokki. Að miða uppbæturnar við eftirlaunamenn er í ósamræmi við laun opinberra starfsmanna, og er því enn ríkari ástæða til þessara uppbóta. Ég vænti þess, að hv. þm. skilji þetta. Ef till. mundi verða samþ. núna, mundi viðbótin nema 1,4 millj. kr. á árinu 1950, og hefði ég talið, að ekki væri óvarlegt, að Tryggingastofnunin gæti tekið á sig þessar greiðslur.