11.01.1950
Efri deild: 27. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 167 í B-deild Alþingistíðinda. (372)

81. mál, ríkisábyrgð á útflutningsvörum bátaútvegsins o.fl.

Vilhjálmur Hjálmarsson:

Herra forseti. Ég mun enn halda mig aðeins við brtt., en ekki ræða málið í heild. Það gætir nokkurs misskilnings hjá hæstv. ráðh. út af þeim ummælum mínum, að ég sæi ekki ástæðu til að fjölyrða um till. Mér skildist hann taka ummæli mín þannig, að ég teldi ekki ástæðu til að fjölyrða um till. vegna þess, að ég áliti, að þegar væri það ákveðið, að þessi ríkisábyrgð á lifrinni yrði tekin. En það, sem fyrir mér vakti, var það, að ekki væri ástæða til langra ræðuhalda vegna þess, að þm. hefðu þegar gert sér grein fyrir viðhorfinu í einstökum atriðum þessa máls. Það hefur verið talað dálítið um mismunandi gæði lifrarinnar, bæði af hæstv. ráðh. og hv. þm. Barð. Þegar bent er á mismunandi gæði lifrarinnar á vetrarvertíð og öðrum árstímum, þá vil ég taka fram, að ég álít ekki koma til mála, að þetta fyrirkomulag gildi nema yfir vetrarvertíðina, og þá kemur ekki heldur til álita um þennan mismun. Hv. þm. Barð. benti hins vegar á það, að gæði lifrarinnar væru yfirleitt mjög misjöfn. Þetta er að vissu leyti rétt, svo langt sem það nær. Ég hygg þó, að viða sé lifrin á vertíðinni gerð upp í einum gæðaflokki. Mig brestur að vísu kunnugleika til að fullyrða það, en ég hygg, að þetta sé svona víða. Ég hef ekkert sérstakt við það að athuga, þó að þessu atriði sé skotið til n. til athugunar, en hygg þó, að eins og málið liggur fyrir, sem algerð bráðabirgðalausn miðað við hluta af þeirri vetrarvertíð, sem nú fer í hönd, þá sé þetta atriði, um mismunandi gæði lifrarinnar, ekki stórvægilegt. Hæstv. atvmrh. lét í ljós undrun yfir því, að þeir menn, sem tala miður vingjarnlega um frv. og ábyrgðina, skuli samt flytja till. á borð við þá, sem hér um ræðir. En að slíkar till. koma fram frá þessum mönnum, er vegna þess, að af tvennu illu, ábyrgð á lifrarverði eða lýsisgjaldeyri á frílista, þá telja þeir ábyrgðina þó skárri. Um nánari rökstuðning fyrir því vil ég leyfa mér að vísa til ræðu hv. þm. Str. Enn fremur vil ég undirstrika það, sem ég sagði í minni fyrri ræðu, að ég tel, að með ábyrgðinni verði betur tryggðir hagsmunir sjómanna og útgerðarmanna almennt, þannig að hagnaður af ráðstöfunum þeim, sem gerðar verða, komi jafnast niður með því móti.