07.02.1950
Sameinað þing: 23. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 199 í D-deild Alþingistíðinda. (3722)

70. mál, uppbætur á ellilífeyri o.fl.

Frsm. minni hl. (Ásmundur Sigurðsson) :

Herra forseti. Eins og hv. frsm. meiri hl. n. hefur lýst, og eins og fyrir liggur á þskj., sem útbýtt hefur verið, þá klofnaði fjvn. um málið, og vill minni hl. afgreiða till. eins og hún er, en meiri hl. vísa henni frá með rökst. dagskrá. Rökin, sem meiri hl. hefur borið fram, eru aðallega ferns konar. Það er ekki reynt að draga úr því, að ástæða sé til þess að greiða þessu fólki lífeyrisuppbót, eins og t. d. opinberum starfsmönnum, enda mun erfitt að halda því fram, að ekki sé um þörf að ræða hjá þessu fólki, sem aðeins hefur í elli- og örorkulífeyri á ári 3.780 kr. Það sjá allir, hve lítil upphæð þetta er, enda ekki reynt af meiri hl. n. að draga úr því, að hér væri brýn þörf á að bæta úr, en rök þeirra gegn till. okkar eru, eins og ég sagði áðan, aðallega ferns konar. Í fyrsta lagi benda þeir á, að í bréfi frá tryggingaráði sé upplýst, að greidd hafi verið dýrtíðaruppbót skv. vísitölu 315 á laun þessa fólks á yfirstandandi bótatímabili, og vill meiri hl. telja, að þetta samsvari 5% launauppbót. Gegn þessu vil ég benda á það, að þegar l. um dýrtíðarráðstafanir voru sett í desember 1947 og vísitalan bundin við 300 stig, þá var þetta atriði tekið út úr og ákveðið, að lífeyrisgreiðslur til gamalmenna og öryrkja skyldu hlíta öðrum reglum, og vafalaust hefur það verið gert á þeim grundvelli, að talið hefur verið, að fjárþörf þessa fólks væri svo mikil, að ekki væri fært að greiða jafnlága vísitölu á laun þeirra og annarra. Með því nú, að síðan dýrtíðarlögin voru sett, hafa flestar launastéttir aðrar fengið kjarabætur, þá tel ég, að ályktun meiri hl. út frá því, að þetta fólk hafi fengið lífeyrisgreiðslu með vísitölu 315 stig, sé engin rök fyrir því, að þetta geti talizt launahækkun hjá þessu fólki og beri því ekki að taka tillit til þessa atriðis. Í öðru lagi segir hv. meiri hl., að þetta fólk hafi fengið greidd önnur 5%, vegna þess að Tryggingastofnunin hafi greitt fyrir það sjúkrasamlagsiðgjöld, því að samkv. 9. bráðabirgðaákvæði hinna almennu tryggingalaga er tekið fram, að á meðan ákvæði III. kafla koma ekki til framkvæmda, sé ríkisstj. heimilt, að fengnum till. tryggingaráðs, að lækka iðgjöld skv. 107. gr. um allt að 30% etc. Nú hefur III. kafli ekki verið framkvæmdur, og á að nota það til rökstuðnings fyrir því, að öryrkjar og gamalmenni fá minni viðbótargreiðslur, en annað fólk. Ég get ekki fallizt á þetta. Þegar því þess vegna er haldið fram, að þetta fólk hafi fengið 10% launahækkun, þá tel ég það ekki á fullum rökum reist. Þótt samþ.till. á þskj. 253, þá mundu heildarlaun þessa fólks ekki fara fram úr 4.536 kr. fyrir einstakling, en það er aðeins hálf uppbótin, sem samþ. var núna fyrir jólin til hæstlaunuðu opinberu starfsmannanna, ofan á 45 þús. kr. árslaun. Í þriðja lagi hefur verið bent á, að réttara væri að taka viðbótargreiðslurnar upp í launal., sem liggja fyrir til endurskoðunar, en ég vil benda á, að fyrir jólin var hér samþ. að greiða viðbótarupphæð til starfsmanna ríkisins frá 30. júní þangað til fjárlög væru samþ. Hér er ekki farið fram á annað, en að þetta fólk njóti sömu réttinda. Í fjórða lagi vill hv. meiri hl. binda Alþ. við vissan skilning á 116. gr. tryggingal. vegna ágreinings um tekjur Tryggingastofnunarinnar og þar með svipta þetta fólk þeim rétti, sem það hefur. Meiri hl. álítur sem sagt, að skilningur tryggingaráðs sé réttur, en það er furðulegt úrræðaleysi, ef ekki er hægt að lýsa yfir því á neinn annan hátt en þann að binda þetta við það að svipta þetta fólk 10% uppbót, sem ég tel það eiga rétt á. Þess vegna höfum við hv. 4. landsk. (StgrA), hv. 2. þm. Reykv. (EOl) og ég flutt till., þar sem lýst er yfir því, að Alþingi telji skilning tryggingaráðs réttan, og legg ég því ákveðið til, að þessi till. verði samþ. óbreytt.