07.02.1950
Sameinað þing: 23. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 201 í D-deild Alþingistíðinda. (3725)

70. mál, uppbætur á ellilífeyri o.fl.

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Ég mun greiða atkv. með dagskrártill. hv. meiri hl. fjvn., sem ég tel eðlilega og viðunandi. Hv. frsm. minni hl. taldi, að í dagskrártill. væri blandað saman tveim óskyldum atriðum. Annars vegar væri yfirlýsing um skilning Alþingis á 116. gr. tryggingal., hins vegar fjallað um uppbætur á elli- og örorkulaun. Þetta er nú ekki alveg rétt, en í sjálfu sér er ekki óeðlilegt, að þetta sé samtvinnað, því að í dagskrártill. er gert ráð fyrir því, að Tryggingastofnunin greiði uppbæturnar, en ekki ríkissjóður, en skilyrði þess, að Tryggingastofnunin geti annazt þessar greiðslur, er það, að hún haldi tekjuafgangi undanfarinna ára. En það er ljóst, að þáltill., þótt samþ. sé, er ekki skuldbindandi. Hins vegar er ekki vafi á því, að um leið og Tryggingastofnuninni heimilast að greiða þetta, þá verður það greitt. Það má að sjálfsögðu í það endalausa deila um það, hvað sanngjarnar lífeyrisuppbætur eigi að vera háar fyrir gamalt fólk, og það er rétt, að ef hlutur gamla fólksins er borinn saman við hlut hæst launuðu embættismannanna, þá er þar mikill munur á. En það er til annar samanburður. Dagsbrúnarverkamaður fær, að því er ég ætla, 74 kr. í daglaun, þ. e. a. s. 22 þús. kr. á ári, ef reiknað er með 300 vinnudögum. Setjum svo, að þessi maður hafi fimm manns í heimili. Þá koma að jafnaði 4.400 kr. á hvern fjölskyldumeðlim að lifa af yfir árið. Að auki þarf að greiða skatta og skyldur. Samkv. því, sem gert er ráð fyrir í dagskrártill., á lífeyrisþegi að fá samtals 4.332 kr. á ári, eða talsvert hærri upphæð, en verkamaðurinn hefur eftir, þegar hann er búinn að greiða skatta og skyldur. Þetta þarf þó ekki að vera réttur samanburður, því að í 5 manna fjölskyldu geta fleiri haft tekjur, en heimilisfaðirinn. Ég skal engan dóm á það leggja, hvort þessar upphæðir skv. till. n. eru réttar, en það er ekki hægt að ákveða þær nema með því að hafa hliðsjón af kjörum almennings í landinu. Ég skal ekki fara út í hártogun á því, hversu hækkunin á grunnlífeyri samkv. ábendingu meiri hl. fjvn. er mikil Hins vegar vil ég benda á þá staðreynd, að almannatryggingal. voru sett á sínum tíma með hliðsjón af launal., og samanburður á þeim nú sýnir, að launal. hafa staðið óbreytt að öðru leyti en því, að þau hafa verið greidd með vísítölu 300, en ellilífeyririnn hefur á sama tíma hækkað úr 3.600 kr. í 3.978 kr. Ef þessi 10% uppbót, sem hér er gert ráð fyrir, verður samþ., þá verður þessi lífeyrir 4.332 kr., eða hækkunin alls heldur meiri en 20% frá því að lögin voru sett. Af þessum ástæðum tel ég fært að sætta síg við till. fjvn. Hins vegar vil ég mega vænta þess, að þessu hlutfalli verði haldið, þannig að bætt verði upp, ef verðlagsraskanir verða og kaupgreiðsla breytist, svo að hlutur bótaþega rýrni ekki. — Ég vil svo endurtaka það, sem frsm. fjvn. sagði, að þessi breyt. er gerð í samræmi við vilja félmn. Ed.