11.01.1950
Efri deild: 27. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 168 í B-deild Alþingistíðinda. (374)

81. mál, ríkisábyrgð á útflutningsvörum bátaútvegsins o.fl.

Steingrímur Aðalsteinsson:

Herra forseti. Hæstv. atvmrh. sýndi nokkurn lit á því að svara í ræðu sinni áðan þeim fyrirspurnum, sem ég beindi sérstaklega til hans, bæði í sambandi við verkanir fiskábyrgðarinnar og í sambandi við þær vörur, sem hugsað væri að taka á þennan svo kallaða frílista, og er ég honum þakklátur fyrir þau svör, svo langt sem þau náðu. Hins vegar finnst mér, að þau svör séu engan veginn fullnægjandi í sambandi við hagsmuni þeirra aðila, sem ég sérstaklega ræddi um í minni fyrri ræðu. Hæstv. ráðh. drap fyrst á það, að það væri ætlun ríkisstjórnarinnar, að ábyrgðin, ef hún á annað borð yrði framlengd, næði jafnt til allra landsmanna. Hann útskýrði þetta því miður ekki frekar, en vísaði til þess, að hv. 1. þm. Eyf. (BSt) hefði fært fyrir þessu skýr og óyggjandi rök í ræðu hér á fundinum. Því miður heyrði ég ekki þessa ræðu hv. 1. þm. Eyf., því að það vildi svo til, að meðan hann talaði, var ég í boði hans sem forseta d. að drekka kaffi niðri í Kringlu. En ef hann hefur fært rök fyrir því, að ákvæðin í þessu frv. um ábyrgð á fiskverðinu séu fullnægjandi fyrir t.d. útgerðarmenn norðanlands, þá harma ég mjög að hafa ekki heyrt þau rök. En að svo komnu get ég ekki séð, með hverjum hætti það á að vera. Frv. gerir ekki ráð fyrir öðru en því, að þessi ábyrgð á fiskverðinu standi í fyrsta lagi aðeins til 1. marz. (BSt: Ég lét þá trú í ljós, að önnur ákvæði yrðu komin fyrir þann tíma.) Þá hef ég misskilið hæstv. ráðh., og þó rekur að því sama, sem ég talaði um í minni fyrri ræðu, að ákvæði frv. í þessum efnum eru ófullnægjandi og ná alls ekki til þessara manna eða annarra þeirra útgerðarmanna, sem stunda vertíð á öðrum tímum en vetrarvertíðinni suðvestanlands og suðaustanlands. Ákvæðin um ábyrgðina gilda til 1. marz. Ef þá er ekki búið að gera þessar ráðstafanir, sem ríkisstj. er alltaf að tala um, að hún hafi á prjónunum, þá skal ábyrgðin að vísu framlengd, eins og hæstv. ráðh. talaði um, en ekki nema í lengsta lagi til 15. maí. Hvað getur svo leitt af þessu? Ekkert annað en það, að ef ekki næst samkomulag í þinginu um aðgerðir, — sem engin vissa er fyrir að náist og útgerðarmenn suðvestanlands þora ekki að treysta á, að verði, og þess vegna er þessi varnagli settur í frv. vegna þeirra, — þá er engin fiskábyrgð til eftir 15. maí og þeir, sem þá eiga eftir að stunda sína vertíð, fá enga fiskábyrgð. Það er einmitt þetta ákvæði, sem ég tel ófullnægjandi og óverjandi af Alþ. að afgreiða þannig, að slíkt geti komið til mála. Þess vegna verður að hafa þann varnagla að framlengja þetta þannig, að það nái til alls ársins. Hins vegar liggur í augum uppi, eins og ég sagði áðan, að ef samkomulag næst í þinginu um aðrar aðgerðir, þá kemur ekki til þess, að ábyrgðin gildi seinna á árinu fyrir aðra landsmenn heldur, þannig að í því að framlengja þetta til ársins er engin áhætta fyrir ríkissjóð fram yfir það, sem óhjákvæmilegt er að gera, ef tryggja á rekstur bátaflotans ekki aðeins á Suðurlandi heldur á landinu öllu, og það hlýtur að vera höfuðtilgangur þessa frv., og fram hjá þeim höfuðtilgangi má ekki ganga í afgreiðslu málsins. Þetta atriði liggur þess vegna fyrir mér algerlega óbreytt, þrátt fyrir svör hæstv. ráðh. um þetta atriði.

Þá vék hann að hinu atriðinu, sem ég talaði um, að þessi svo kallaði frílisti, sem er alls ekki minna atriði í sambandi við þetta mál en sjálf fiskábyrgðin, þó að það atriði sé ekki sett inn í frv., — hæstv. ráðh. vék að því, að það væri ekki heldur rétt, að hann væri sérstaklega sniðinn með sérhagsmuni Sunnlendinga fyrir augum. Og hæstv. ráðh. leitaðist við að benda á viss atriði þessari fullyrðingu sinni til stuðnings. Hann hélt því fram, að á þessum frílista væru vörur, sem aðrir landsmenn heldur en þeir, sem hér eru í verstöðvum á Suðvesturlandi, hefðu aðstöðu til að framleiða og njóta þá þeirra hlunninda, sem í þessu felast. Hann nefndi í því sambandi reyktan fisk. Það kann að vera, að möguleikar séu fyrir menn í öllum landshlutum að framleiða reyktan fisk. En sú framleiðsla hefur verið í ákaflega smáum stíl, og ég held, að sá liður hafi ekki verið neitt afgerandi atriði í sambandi við þennan frílista og hafi ekki úrslit um afkomu bátaútvegsins, hvorki hér sunnanlands né annars staðar. — En svo nefndi hann annað atriði, sem hefur verið og er töluvert atriði í þessu sambandi, sem eru hrognin. Þau eru ein af þeim vörum, sem hafa orkað talsvert miklu um þetta mál, að gjaldeyrir var gefinn frjáls fyrir þau. En ég held bara, að hæstv. ráðh. hafi sézt yfir nokkuð þýðingarmikið atriði í þessu sambandi, þegar hann talaði um, að Norðlendingar og menn í öðrum landshlutum gætu notað sér þessa hrognapeninga á sama hátt og verstöðvar hér við Faxaflóa, og þetta atriði er það, að það vill svo undarlega til, að þorskurinn hrygnir hér við Suðvesturland og gengur ekki norður fyrir land á veiðisvæði þar, fyrr en eftir hrygninguna. Þannig að Norðlendingar og aðrir landshlutar hafa ekki sömu aðstöðu og Sunnlendingar til þess að framleiða vöru úr hrognum til þess að fá gjaldeyri fyrir til frjálsra afnota. — Önnur atriði voru það ekki, sem hæstv. ráðh. nefndi í þessu sambandi. Það stendur því óhrakið, að þær vörur, sem á frílista eru teknar, eru alveg miðaðar við framleiðslu á Suðvesturlandi og til hagsbóta útgerðinni hér við Suðvesturland, umfram aðra landshluta.

Þá minntist hæstv. ráðh. á Faxasíldina á síðasta hausti og undirstrikaði sérstaklega það, sem ég tók fram í minni ræðu síðast, hversu mikla þýðingu það hefði fyrir framleiðslu á henni og gjaldeyrisöflun með henni, að gjaldeyrir fyrir hana hefði verið gefinn frjáls. Hann tók meira að segja svo djúpt í árinni, að þær 40 þús. tunnur Faxasíldar, sem veiddar og saltaðar voru hér á síðasta hausti, mundu alls ekki hafa verið veiddar og saltaðar, ef ekki hefði verið gefinn frjáls gjaldeyrir fyrir þessa síld. Og ég býst við, að þetta sé nokkuð rétt. En mundi það ekki gilda alveg eins um Norðurlandssíldina, eins og ég líka minntist á áðan? Hvað heldur hæstv. ráðh., að hefði verið saltað mörgum tugum þús. tunna meira af Norðurlandssíld í sumar, ef þeir, sem hana veiddu, hefðu notið sömu hlunninda í þessu efni og þeir, sem veiddu Faxasíld? Það er ekki hægt að nefna þetta í tölum, en ég held, að það hefði numið tugum þúsunda tunna, sem þá hefði verið saltað meira af þeirri síld, en það hefði þýtt það, að gjaldeyrisöflunin hefði orðið miklu meiri en hún var, og afkoma þeirra, sem síldveiði stunduðu á síðasta sumri, hefði þá orðið miklu betri en hún var og þá minni þörf þeirra aðgerða, sem nú er verið að bollaleggja til handa þeim mönnum, sem síldveiði stunduðu, á síðasta sumri. Hæstv. ráðh. viðurkenndi þetta líka að nokkru leyti í sinni ræðu og lét í ljós, að hann persónulega væri að verulegu leyti þeirrar skoðunar, að krafa útgerðarmanna um það t.d. að fá alla netasíld á frílista væri eðlileg og að hann hefði tilhneigingu til að styðja hana. En svo spurði hann bara í sambandi við það, hvert við mundum komast, ef við héldum áfram á þessari braut, sem við þó höfum komizt inn á, og virðist hræddur við að ganga mjög miklu lengra inn á þessa braut, en gert hefur verið. Ég vil ekki draga dul á það, að ýmsir agnúar og hættur eru í sambandi við þessa leið. Hitt er þó meginatriðið í þessu sambandi, að með þessu ýtum við fyrst og fremst undir mjög aukna framleiðslu á gjaldeyrisvörum. Og það er nokkurs virði, að gert sé, ekki sízt í sambandi við vandamál útvegsins, að ýtt sé undir það, að framleiðslan sé aukin og að meira fé sé veitt inn í þessa framleiðslu, sem skapar gjaldeyri, heldur en aðra óarðbærari atvinnuvegi. Ég veit, að á þessari leið eru ýmsir agnúar og að sennilega er hægt að finna fleiri leiðir til þess að ýta undir þessa framleiðsluaukningu. En ég býst við, að eins og sakir standa nú, þá sé þetta helzta leiðin til þess að ýta undir og gera mönnum kleift og vekja áhuga manna á því að afla gjaldeyris inn í landið. Og ég hygg, að með þessu móti væri hægt að koma í veg fyrir, að kröftum þjóðarinnar væri beitt meira til þess að eyða gjaldeyrinum en til að afla hans.

Ég drap á það líka áðan, að ég teldi, að þeir, sem stunda síldveiði fyrir norðan á sumrin, væru beittir misrétti, í samanburði við þá, sem stunda síldveiði við Faxaflóa á haustin, með því að gera ráðstafanir til þess, að sú síld, sem veidd er við Faxaflóa og er lakari en Norðurlandssíldin, verði greidd miklu hærra verði en Norðurlandssíldin. Og ég hygg, að ekki verði því mótmælt með rökum, að þarna er mjög mikið misræmi og mjög óeðlilega gert upp á milli aðstöðu manna, sem stunda þennan veiðiskap, annars vegar hér syðra og hins vegar fyrir norðan. Og hæstv. ráðh. drap á rök, sem styðja mjög mína skoðun í þessu efni, þegar hann ræddi um þorskalifur og hélt því fram, að mjög væri óeðlilegt að borga 3. flokks lifur á sama verði og 1. flokks lifur. Þetta væri hliðstætt því að borga jafnháu verði 1. flokks og 3. flokks ull. Og hvers vegna á þá að borga Faxasíld jafnháu verði og Norðurlandssíld, þó að Faxasíldin sé 3. flokks síld á móts við Norðurlandssíld? Hvers vegna eiga þeir að fá lægra verð fyrir sína síld fyrir norðan, sem veiða 1. flokks síld, heldur en þeir, sem framleiða lakari vöru með síldarframleiðslu sinni?

Nei, ég held, að allt bendi til þess, að rétt sé, sem ég hélt fram í sambandi við þetta, að ríkisstj. megi ekki á þann veg halda áfram, að gerður sé slíkur greinarmunur í sambandi við frílistann eftir landshlutum og árstíðum eins og hér er gert, heldur verði hæstv. ríkisstj. að líta alvarlegum augum á hagsmuni þeirra manna, sem þennan þýðingarmikla atvinnuveg stunda, alveg eins hvar sem er á landinu, en binda þetta engan veginn á þann hátt, sem gert hefur verið og enn virðist eiga að gera, sem sé alveg sérstaklega við hagsmuni þeirra manna, sem útgerðina stunda hér á Suðvesturlandi.

Þá svaraði hæstv. ráðh. einnig fyrirspurn minni um það í fyrsta lagi, hvaða kröfur útvegsmenn hér hefðu gert um fleiri vörutegundir á frílista, og nefndi þar, að þeir hefðu óskað eftir að fá þorskalýsi og ísvarinn bátafisk á þennan frílista. En um afstöðu hæstv. ríkisstj. til þessara krafna útvegsmanna, þá skildist mér, að hún væri sú, að ríkisstj., eða a.m.k. hæstv. atvmrh. persónulega, vildi taka þorskalýsið til viðbótar á þennan lista, en ekki hinar aðrar vörur, sem útvegsmenn hefðu farið fram á. (Atvmrh.: Ég sagði ekkert afgerandi í þessu efni.) Hæstv. atvmrh. sagðist vilja taka þorskalýsið til greina í þessu efni. (Atvmrh.: Það er satt.) Hins vegar ekki ísvarða fiskinn. Og ég verð að álíta, að þegar hæstv. ráðh. tekur þannig til orða, þá sé það í raun og veru ætlun ríkisstj. að haga þessu á þá leið. Nú væri það að vísu til bóta fyrir útvegsmenn að fá þorskalýsið inn á þennan frílista. En ég tel þó, að hitt væri betra og útvegsmönnum til miklu meiri hagsbóta í þessu sambandi, að þorskalifrinni sé bætt inn í ábyrgðarvörurnar, eins og till. er hér komin fram um, og þess vegna mun ég heldur greiða atkv. með þeirri till. en að eiga þetta eins og annað undir aðgerðum ríkisstj. í þessu efni.

Ég held, að það sé ekki fleira, sem ástæða er fyrir mig að taka fram í þessu efni. Ég vil aðeins undirstrika það, sem ég sagði í minni fyrri ræðu, að ég tel, að ákvæði frv. um fiskábyrgðina séu ófullnægjandi, eins og þau eru, en það verði að vera sá varnagli um ábyrgðina, að hún nái til alls ársins og allra landshluta, ef ekki verður búið að gera aðrar ráðstafanir. Og ég hygg, að þær upplýsingar, sem fram hafa komið, bendi til þess, að þær þýðingarmiklu ívilnanir, sem útgerðinni er ætlað að njóta með þessum svo kallaða frílista, séu allt of mikið takmarkaðar við þennan eina landshluta, Suðvesturland, og þessa einu vertíð, vetrarvertíðina á Suðvesturlandi. Og ég vil vonast til þess, að þegar hæstv. ríkisstj. tekur endanlega ákvörðun sína um það, þá verði betur gætt, en verið hefur undanfarið, hagsmuna útvegsmanna annars staðar á landinu einnig. Með öðru móti, en þessu tvennu held ég, að ekki verði tryggt á neinn viðunandi hátt, að bátaútvegurinn verði starfræktur svo sem nauðsynlegt er allt árið og á landinu öllu, eftir því sem skilyrði eru fyrir hendi á hverjum stað.