04.01.1950
Sameinað þing: 13. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 207 í D-deild Alþingistíðinda. (3740)

73. mál, tunnuverksmiðja á Akureyri

Flm. (Steingrímur Aðalsteinsson) :

Herra forseti. Fyrir rúmum þremur árum var það, að stjórn tunnuverksmiðja ríkisins, f. h. ríkisstj., keypti tunnuverksmiðjuna á Akureyri, sem þá var komin í eigu bæjarins þar og hafði nokkur undanfarin ár verið rekin af bæjarfélaginu og þá ekki hvað minnst með það fyrir augum að bæta að einhverju leyti úr því atvinnuleysi, sem á þeim árum var venjulega þar að vetrinum til. Það hafa að vísu verið ýmsir erfiðleikar á því fyrir bæjarfélagið að reka þessa tunnuverksmiðju, og þess vegna var það, að þegar stj. tunnuverksmiðja ríkisins leitaði eftir að fá hana keypta, þá taldi bæjarstj., að það mundi vera meiri trygging fyrir því, að hægt væri að hafa stöðugan rekstur á þessu fyrirtæki, ef það kæmist í eigu ríkisins, sem hefði þá sterkari aðstöðu en bæjarstj. til þess að útvega bæði efni og fjármagn, sem til þess þyrfti að reka þetta fyrirtæki. Vegna þessa var bæjarstj. fús til þess að selja ríkinu tunnuverksmiðjuna og vann það til að veita ýmsar mjög mikilsvarðandi ívilnanir í hönd ríkisins, gegn loforði um, að tunnuverksmiðjan yrði rekin að staðaldri, svo að um „verulegan árlegan rekstur skyldi vera að ræða“, eins og þetta er orðað í samningnum. Þessar ívilnanir fólust í því, að í fyrsta lagi lofaði bæjarstj. því að undanþiggja verksmiðjuna útsvarsgreiðslu til bæjarsjóðs um 10 ára skeið. Enn fremur að á sama tíma skyldi fyrirtækið ekki þurfa að greiða venjulegt vörugjald til hafnarinnar, bæði af efni, sem flutt væri að til verksmiðjunnar og sömuleiðis af tunnum, sem fluttar væru frá verksmiðjunni. Enn fremur var veittur afsláttur á raforku til verksmiðjunnar og veittar stórar lóðir, sem fyrirtækið þurfti til starfsemi sinnar, með mjög vægri leigu. Allar þessar ívilnanir voru að sjálfsögðu veittar með það fyrir augum að gera fyrirtækinu auðveldara að starfa og til að tryggja, að ríkið ætti tiltölulega auðvelt með að standa við það loforð, sem gefið hafði verið um að halda þessum rekstri gangandi nokkurn veginn reglulega.

Nú hefur þetta því miður farið svo, að það hefur orðið miklu minna úr þessum rekstri á þessum þremur árum, sem síðan eru liðin, en vonir stóðu til og loforð var gefið um. Það munu hafa verið smíðaðar í verksmiðjunni þetta tímabil um 60 þús. tunnur, og verulegur meiri hluti af þessu magni var smíðaður fyrsta árið og það ekki að vetrinum, þegar helzt er þörf á aukinni atvinnu á Akureyri, vegna þess að útivinna er þá minni, heldur var það sumarið 1947, sem meginhlutinn af þessum tunnum var smíðaður. Það tókst ekki að ná í tunnuefnið haustið 1946, svo að það dróst fram á sumar 1947, að hægt væri að byrja á þessu smíði. Var þá byrjað með miklum krafti, unnið í vöktum og smíðað fram á sumar, þar til séð var, að síldarvertíðin brást og því ekki þörf að smíða meira af tunnum vegna þeirrar vertíðar. Sem sagt, á þessum tíma, þegar annars var nóg vinna við annað, þá var meginhlutinn af þessum tunnum smíðaður og síðasta vetur lítið eitt, en það var þó ekki annað en það, að nokkrir menn unnu að smíði úr afgöngum, sem voru frá fyrri starfsemi verksmiðjunnar, sem sagt efni, sem var gallað og hafði verið fleygt til hliðar við smíðið, og það var talsvert. Nú í vetur hefur heldur ekkert verið unnið að tunnusmíði, og mér er ekki kunnugt um, að gerðar hafi verið ráðstafanir til að smíða neitt á þeim vetri, sem nú stendur yfir.

Eins og sést á þessu, hafa orðið verulegar vanefndir af hálfu ríkisins hvað rekstur þessa fyrirtækis snertir. Eins og gefur að skilja, kemur það sér bagalega, jafnt fyrir þá verkamenn á Akureyri, sem annars mundu hafa nokkra vetraratvinnu af þessari starfsemi, og þá líka fyrir bæjarfélagið í heild, sem seldi ríkinu þetta fyrirtæki beinlínis með það fyrir augum að tryggja starfrækslu þess betur en áður hafði verið. Niðurstaðan hefur orðið sú, að þann tíma, sem síðan er liðinn, hefur starfrækslan ekki orðið tryggari, heldur þvert á móti minni. Nú er það að sjálfsögðu skylda ríkisins ekki síður en annarra aðila að standa við gefin loforð og gerða samninga um þetta sem annað. Ég tel þess vegna víst, að þegar vakin er hér athygli á þessu, þá muni ríkisstj. vera fús til að gera nauðsynlegar ráðstafanir til þess, að úr þessu verði bætt svo sem kostur er á. Sú till., sem hér liggur fyrir, fer ekki fram á annað en að úr þessu verði bætt og staðið við gefin loforð eða gerða samninga við bæjarstjórn Akureyrar í þessu efni.

Ég sé ekki ástæðu til að leiða fleiri rök að þeirri till., sem hér er um að ræða. En þar sem ég sé, að ákveðnar hafa verið tvær umr. um till., þá geri ég ráð fyrir, að það þyki réttara, að till. sé vísað til n. milli umr., og legg ég til, að till. verði að þessari umr. lokinni vísað til allshn.