19.04.1950
Sameinað þing: 39. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 216 í D-deild Alþingistíðinda. (3748)

73. mál, tunnuverksmiðja á Akureyri

Frsm. meiri hl. (Pétur Ottesen,):

Herra forseti. Ekki varð samkomulag um afgreiðslu þessa máls í fjvn., en meiri hl. hennar leggur til, að málið verði afgr. með rökst. dagskrá, eins og þskj. 509 greinir. Fjvn. hefur athugað þetta mál, kynnt sér bréf, sem borizt hafa í sambandi við það, og auk þess kynnt sér þann kaupsamning, sem gerður var, þegar ríkið keypti tunnuverksmiðjuna af Akureyrarbæ. Enn fremur hefur n. talað við formann síldarútvegsnefndar, sem hefur umsjón með rekstri tunnuverksmiðja, og yfirleitt hefur nefndin gert allt til þess að kynna sér allar aðstæður sem bezt.

Þess skal getið, að í nefndaráliti meiri hl. er tekinn upp kafli úr bréfi frá síldarútvegsnefnd til fjvn. um þetta, og þar kemur greinilega fram, að óhagkvæmt er að reka tunnuverksmiðjuna á Akureyri með tilliti til verðs og gæða síldartunnanna, samanborið við þá aðstöðu, sem er á Siglufirði. Ástæðurnar fyrir því, að betra er að smíða tunnurnar á Siglufirði, eru þær, að þar er geymsluaðstaða í húsum síldarverksmiðja ríkisins og auk þess betri áhöld og æfðari menn, heldur en ef taka ætti upp tunnusmíði í gömlu verksmiðjunni á Akureyri. Enn fremur er nú verið að undirbúa á Siglufirði fullkomna byggingu á tunnuverksmiðju með nýtízku áhöldum og allt er miðað við, að hægt sé að inna þetta verk sem hagkvæmast af hendi.

Nú kvarta margir undan því, að þær tunnur, sem Tunnuverksmiðjur ríkisins hafa haft á boðstólum, væru dýrari en þær tunnur, sem útvegsmenn ættu kost á að fá frá útlöndum, og er þar talað um verðmun, sem skiptir miklu máli — eða 20–30 kr. á hverri tunnu. En þess er að vænta, að þetta standi til bóta í sambandi við væntanlegar fyrirætlanir á Siglufirði. En það getur ekki talizt rétta leiðin, að hv. Alþingi fari nú að gera ráðstafanir til að efla aftur tunnusmíði á Akureyri til að gera tunnurnar dýrari og líka lakari. Það tekur engum svörum, að Alþingi geri ráðstafanir, er hníga í þessa átt. Niðurstaða meiri hl. varð því sú, að málið verði afgr. með svohljóðandi rökst. dagskrá:

„Þar sem ganga verður að því vísu, að stjórn síldarútvegsnefndar, sem samkvæmt lögum nr. 41 1947, um breyting á lögum nr. 33 1946, um tunnusmíði, er falið að hafa á hendi stjórn tunnuverksmiðja ríkisins, hagi rekstrinum þannig, að tunnurnar verði sem beztar og ódýrastar, þá þykir Alþingi ekki hlýða að gera ráðstafanir, sem raskað gætu þessum grundvelli starfseminnar, og tekur því fyrir næsta mál á dagskrá.“

Ég skal bæta því við í sambandi við það, sem segir í greinargerð fyrir þessari þáltill. sjálfri, að samið hafi verið um það, þegar kaupsamningurinn á verksmiðjunni var gerður, að þá hafi átt að tryggja árlegan rekstur tunnuverksmiðjunnar sem nokkru næmi. Mun þetta byggt á kaupsamningnum. En við þá athugun, sem nefndin gerði á kaupsamningnum, gat hún ekki séð, að með honum væri ríkið að neinu leyti bundið við það að reka verksmiðjuna með þessum hætti. Mun þetta vera stutt við þau ákvæði samningsins. sem greina, að kaupandinn fái forgangsrétt að hafnarbryggju, þegar þörf krefur. En hér ber að athuga, að þegar engar tunnur eru smíðaðar, er ekki um neina hagnýtingu á forgangsrétti að ræða. Þá er það og vafasamt, hvort bærinn hafi rétt til að veita einum aðila forgangsrétt á hafnarmannvirkjum, sem hafa notið ríkisfjár. Allir munu eiga þar jafnan aðgang að, ef þeir uppfylla skyldur um hafnargjöld o. fl. — Nefndin leit svo á, að ekki væri hægt að heimfæra undir kaupsamninginn neinar kröfur um verulegan, árlegan rekstur á tunnuverksmiðjunni á Akureyri, og þeir, sem stjórna tunnuverksmiðjum ríkisins, hafi þar óbundnar hendur. En meiri hl. nefndarinnar tekur það höfuðsjónarmið, að tunnurnar verði smíðaðar þar sem þær verða ódýrastar og jafnframt gæði þeirra mest. Það hefur mikið að segja að geta: haft sem ódýrastar tunnur til hagnýtingar síldarsöltunar, og er illt til þess að vita, að við erum ekki samkeppnisfærir um smíði tunnanna, og gerir það okkur erfiðara fyrir á saltsíldarmarkaðinum. Því er það álit okkar að stjórn síldarútvegsnefndar eigi að sjá svo um, að tunnur eigi að smíða þar, sem bezt er og hagkvæmast, og ríkisvaldið hafi valið þessa menn til að framkvæma þetta, og þá er það algerlega gagnstætt þessu sjónarmiði, að hv. Alþingi færi að gera ráðstafanir, sem gangi e. t. v. í berhögg við þetta.