19.04.1950
Sameinað þing: 39. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 222 í D-deild Alþingistíðinda. (3752)

73. mál, tunnuverksmiðja á Akureyri

Steingrímur Aðalsteinsson:

Herra forseti. Hv. frsm. meiri hl. fjvn. fannst ræðu minni alveg ofaukið í þessu máli. Það er kannske ekki nema eðlilegt, því að honum finnst skoðunum mínum ofaukið og telur, að þær hafi ekki við rök að styðjast. Hann segir, að fyrir meiri hl. fjvn. hafi ekki vakað annað,en að fá tunnurnar smíðaðar þar, sem þær fást ódýrastar og beztar. Við það sé hin rökstudda dagskrá miðuð. En hún gerir bara meira, því að hún slær því föstu, að það geti ekki verið á Akureyri. Það var þetta, sem ég var að reyna að rökstyðja í minni ræðu, að væri rangt. Og ég er sannfærður um, að það er hægt að smíða tunnur á Akureyri, sem eru sambærilegar bæði hvað verð og gæði snertir við það, sem er á Siglufirði, auk þess sem ég leiddi rök að því, að það er ekki svo miklu dýrara að smíða tunnurnar á Íslandi, að þjóðhagslega séð sé það ekki miklu réttara og ódýrara. Hv. frsm. reyndi ekki að hrekja tölur þær, sem ég nefndi hér áðan um verðmuninn á tunnunum smíðuðum á Akureyri og Siglufirði, svo og verðmuninn á erlendum og innlendum tunnum, á meðan hv. meiri hl. gerir það ekki, hef ég raunar ekki fleiri rök fram að færa. Ég held mér fast við þá skoðun mína, þar til hún er tölulega hrakin, að hægt sé að smíða tunnur með sambærilegu verði á Akureyri og Siglufirði. Því hefur verið haldið fram af hv. frsm. meiri hl., að síldarútvegsn. teldi ekki forsvaranlegt að smíða tunnur annars staðar en á Siglufirði. En þrátt fyrir þetta hefur, eins og borið hefur á góma hér, síldarútvegsn. ákveðið að láta smíða 10.000 tunnur á Akureyri, — þrátt fyrir það að stjórn síldarútvegsn. telji ekki rétt að láta smíða þær annars staðar, en á Siglufirði. Ég verð að biðja afsökunar á þessu orðalagi mínu, að segja stjórn síldarútvegsn., því að auðvitað er þar ekki um að ræða neina sérstaka stjórn, heldur síldarútvegsn. sem heild, en þetta stendur svona í nál. (FJ: Þetta orðalag þar er bara tóm vitleysa). Ég held nú, að þessi ráðstöfun sé ekki gerð af undanlátssemi við Akureyri, heldur af því að síldarútvegsn. er eins vel kunnugt um það og mér, að ekkert er dýrara að smíða tunnurnar á Akureyri en á Siglufirði, ef stjórninni á fyrirtækinu sjálfu og vinnubrögðunum þar væri skynsamlega hagað, en ekki haft líkt og 1947.

Þá lagði hv. frsm. meiri hl. áherzlu á hinn mikla aðstöðumun og nefndi í því sambandi aðallega geymsluplássvandræðin á Akureyri. Þetta er alveg rétt og er það, sem bagar tunnuframleiðsluna á Akureyri langmest. En hvernig stendur þá á því, þar sem búið er að afsala öðru þeirra geymsluhúsa, sem til boða stóðu, að þetta eina, sem kaupa á, er ekki reist á Akureyri, þar sem svo gott geymsluhús er til staðar á Siglufirði og hv. frsm. er alltaf að tala um? Hvers vegna er það ekki reist á Akureyri, til þess að bæta úr hinum miklu geymsluhúsavandræðum, sem þar eru? Jú, það er vegna þess, að form. síldarútvegsn. er persónulega á móti því að láta framleiða tunnur á Akureyri.

Þá var hv. frsm. að tala um, að við mundum styrkja aðstöðu okkar á erlendum mörkuðum með því að hafa tunnurnar sem ódýrastar. Þetta getur vel verið, en við styrkjum ekki aðstöðu okkar með því að kaupa tunnurnar af þeim, sem við seljum síldina, enda hafa síldarkaupendur, sérstaklega sænskir, notað sér þá aðstöðu, sem alkunna er. Það er því alveg augljóst, að mér finnst, að við tryggjum aðstöðu okkar bezt á erlendum mörkuðum með því að framleiða okkar tunnur sjálfir.

Þá minntist hann enn á verðmuninn, án þess þó að hafa nokkrar tölulegar upplýsingar. Hins vegar nefndi hann í því sambandi einhvern ákveðinn útvegsmann, sem ég býst við, að sé Haraldur Böðvarsson á Akranesi, sem hafi fengið tunnur 20 kr. ódýrari en ísl. tunnurnar. Ég veit nú ekki um sambönd Haralds Böðvarssonar til kaupa á ódýrum tunnum, en ef hann getur fengið svona ódýrar tunnur, hvers vegna getur þá ekki síldarútvegsn. fengið þær líka? Auðvitað getur nú verið, að síldarútvegsn. geti fengið svona ódýrar tunnur, en við höfum bara ekki fengið neinar tölulegar upplýsingar um slíkt. Ég hef komið með tölur í sambandi við þetta, og ef þær eru ekki réttar, þá er það skylda meiri hl. fjvn. að birta aðrar, sem hrekja þær. Ég vil að lokum lýsa því yfir, að mér finnst ekkert hafa komið fram í málflutningi meiri hl., sem hnekki þeirri skoðun, að hagkvæmara sé að smíða tunnur okkar hér innanlands og að gera það jöfnum höndum á Akureyri og Siglufirði, ekki sízt ef síldarútvegsn. gerði eitthvað til þess að bæta skilyrðin fyrir tunnuframleiðsluna á Akureyri, eins og hún hefur gert á Siglufirði.