08.12.1949
Sameinað þing: 9. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 232 í D-deild Alþingistíðinda. (3780)

56. mál, tjón bænda vegna harðinda

Flm. (Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. Það mun öllum hv. þm. og þjóðinni allri í fersku minni, að síðastl. vor og síðari hluta síðasta vetrar geisuðu hin mestu harðindi um nær allt land, og þessi harðindi stóðu með hríðum, frosti og fannfergi, að vísu misjafnlega lengi í hinum ýmsu héruðum, en þar, sem þau geisuðu lengst, allt fram í miðjan júní, og víða voru engir kúahagar fyrr en í júlí. Hv. þm. blandast náttúrlega ekki hugur um, hve geigvænleg áhrif þessi harðindi hafa haft á afkomu bænda og búaliðs, enda varð fóðurskortur í heilum byggðarlögum, en vegna rösklegrar forgöngu Búnaðarfélags Íslands og annarra aðila um miðlun á fóðurbæti og útvegun á heyi varð þó ekki svo mikið afurðatjón sem ella hefði orðið. Aukin tækni og bættar samgöngur hjálpuðu þar og til. En þótt bændur lentu ekki í því, sem betur fór, að þurfa að fella búpening sinn, þá höfðu þessi harðindi geigvænleg áhrif á afkomu þeirra. Flestir þeirra áttu við gífurlega erfiðleika að búa um sauðburðinn, og einstakir bændur misstu mikinn hluta lamba sinna, en þótt ekki kæmi til þess hjá öðrum, urðu þeir fyrir afar miklum aukakostnaði vegna kaupa á fóðurbæti og heyi. Af þessu tilefni, sem ég hef nú greint, hef ég ásamt 5 öðrum hv. þm. leyft mér að flytja þessa þáltill., sem fer fram á það, að rannsókn verði látin fram fara á tjóni bænda af harðindunum í vor, og verði sú rannsókn gerð í samráði við Búnaðarfélag Íslands. Ég get upplýst, að rannsókn er hafin á nokkrum stöðum fyrir forgöngu Búnaðarfélags Íslands, en ekkert heildaryfirlit er fengið, og er því nauðsynlegt að láta allsherjarrannsókn fram fara og að henni lokinni að gera till. um nokkra fjárveitingu til þeirra bænda, sem verst hafa orðið úti. Nauðsyn þessa er ótvíræð, og oft hefur fjárveitingavaldið hlaupið undir bagga við stéttir, hópa manna og jafnvel einstaklinga, ef misbrestur hefur orðið á atvinnu þeirra. Því vænti ég þess, að þessari till. verði vel tekið og að fjárveitingavaldið og Alþ. skilji þá nauðsyn, sem hér liggur á bak við og þá erfiðleika, sem ein fjölmennasta atvinnustétt þessa lands átti að mæta á síðastliðnu vori. Að svo mæltu leyfi ég mér að óska þess, að umr. verði frestað og till. vísað til n., ég geri það ekki að neinu atriði, hvort henni verður vísað til fjvn. eða allshn.