08.12.1949
Sameinað þing: 9. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 233 í D-deild Alþingistíðinda. (3781)

56. mál, tjón bænda vegna harðinda

Steingrímur Steinþórsson:

Herra forseti. Ég vildi leyfa mér að segja hér nokkur orð um þessa till. um rannsókn á tjóni bænda vegna harðindanna síðast liðið vor. Það er fullvíst, eins og hv. 1. flm. tók fram, að þessi harðindi eru alveg einstök í sögu landsins. Það hafa að vísu oft áður komið jafnharðir vetur, og í sumum héruðum var síðasti vetur ekki svo mjög harður, og vorið fram um miðjan maí var að vísu erfitt, en þó ekki verra en íslenzkir bændur hafa orðið að þola fyrr og síðar, en síðari hluta maí og fyrri hluta júní voru þau harðindi, sem algerlega eru einstök í sögunni, að því er ég held. Bylurinn, sem geisaði síðast í maí, einmitt þegar sauðburður stóð sem hæst, var svo stórkostlegur, að fyrir fáum tugum ára hefði orðið kollfellir á sauðfé víða um land, og eins og hv. 1. flm. tók fram, greiddist ekki úr, fyrr en síðari hluta júnímánaðar. Rættist þá nokkuð skár úr en á horfðist fyrir fram, því að fénaðarhöld urðu víðast hvar góð, á nokkrum stöðum allhæpin og misfellissöm og á einstöku stöðum mjög slæm, en þó eingöngu miðað við lömb, því að ekki veit ég til þess, að fullorðið fé hafi fallið. Það er því ekki að undra, þó að slík till. sem þessi komi fram um að athuga tjón bænda og bæta þeim, sem harðast hafi orðið úti. En það, sem ég vildi hér helzt gera að umtalsefni, er afstaða Búnaðarfélags Íslands til þessara mála. Félagið reyndi í vor af fremsta mætti að miðla fóðurbæti og keypti hey og lét flytja norður og vestur, þegar ótíðin var sem mest, til þess að greiða fyrir þeim, sem verst voru staddir. Það var þó næsta erfitt verk að fá hey keypt á þeim tíma, og varð að skrapa saman síðustu fyrningum bænda hér suðvestanlands og í Borgarfirði, og var það hey reyndar ekki allt sem bezt, en allt um það hjálpuðu aðgerðir Búnaðarfélags Íslands mjög til þess að komast yfir erfiðasta hjallann. En það, sem sérstaklega kom fram í harðindunum í vor og rétt er að undirstrika og vekja athygli á, er það, að það voru ýmis þorp og kauptún, sem verst voru stödd, hvað fóður snerti, og kom það greinilega í ljós, að í ásetningsmálunum þarf að gæta meiri varhygðar, þannig að búfjáreigendur í þorpum og kauptúnum setji ekki á þá von að geta keypt hey í nærsveitunum eftir hendinni, en í trausti þess hafa menn í kauptúnum sett á undanfarin ár mun fleiri skepnur en þeir áttu hey til að fóðra. Þetta atriði vildi ég benda á og er það raunar verkefni Búnaðarfélags Íslands að laga þetta ástand, enda hefur félagið skrifað mönnum úti um land í þeim tilgangi, að þetta endurtaki sig ekki, að raunverulega sé sett á sama heyið búfé úr fleiri en einum hreppi, og er þetta ekki lítið atriði í sambandi við að tryggja góða fóðrun almennt í landinu. Aðgerðir Búnaðarfélags Íslands urðu til þess, að óvíða varð stórfelldur lambadauði eða vanhöld á skepnum, þótt nokkur yrði sums staðar, en það, sem mjög var til athugunar hjá stjórn félagsins, var það, hvort félagið ætti að gangast fyrir almennri skýrslusöfnun um tjónið, og varð niðurstaðan sú, að það var ákveðið að gera það ekki, fyrst og fremst af því, að ástandið var víðast hvar það gott, að ekki þótti ástæða til. Hins vegar var og erfitt að segja um, að í þessari sveit væri ástæða til að safna skýrslum, en í hinni ekki. Benti því Búnaðarfélag Íslands forustumönnum hreppa þeirra, sem harðindin léku verst, á það, að þeir skyldu sjálfir gangast fyrir skýrslusöfnun um tjónið ef mönnum heima fyrir þætti ástæða til. Á þessum grundvelli hefur Búnaðarfélag Íslands unnið að málinu. Þá hef ég átt tal við stjórn Bjargráðasjóðs um aðstoð til handa bændum þeim, sem verst hafa orðið úti, en sjóður þessi er að nokkru séreign ýmissa sýslufélaga, en að nokkru sameiginlegur sjóður. Fjáreign hans er ekki mikil, sýslurnar eiga nokkra tugi þúsunda, og sameiginlegi sjóðurinn er ekki yfir hálfa milljón króna. Þó má þaðan vænta nokkurrar aðstoðar, og hefur Búnaðarfélag Íslands bent mönnum úti um land á, hvernig umsóknir um aðstoð úr sjóðnum ættu að vera úr garði gerðar.

Ég taldi rétt að gefa nú þessar skýringar á afstöðu Búnaðarfélags Íslands til málsins. Vitanlega hafa allir bændur síðast liðið vor orðið fyrir geysilegum aukakostnaði vegna óvenjulegra fóðurbætiskaupa, en það bjargaði miklu, hve mikið af fóðurbæti var komið til landsins það snemma, að hægt var að dreifa honum út um land áður en versti harðindakaflinn kom.

Þessi till. fer væntanlega til hv. fjvn., og vil ég geta þess, að n. standa til boða allar upplýsingar, sem til eru hjá Búnaðarfélagi Íslands, og vil ég að sjálfsögðu mæla hið bezta með till., og vil ég leggja áherzlu á, að afgreiðslu hennar verði hraðað sem mest, því að ef hefja á almenna skýrslusöfnun, þá tekur hún nokkurn tíma, en ef aðstoða á nokkurn hluta bænda, þá liggur á að gera það sem fyrst, því að nú um áramótin þurfa þeir að gera upp reikninga sína, og þá þyrftu þeir að vita nokkurn veginn, hve mikil aðstoðin yrði.