08.12.1949
Sameinað þing: 9. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 238 í D-deild Alþingistíðinda. (3785)

56. mál, tjón bænda vegna harðinda

Bernharð Stefáson:

Herra forseti. Síðan ég kvaddi mér hljóðs, hefur hv. þm. Str. (HermJ) gert að umtalsefni það atriði, sem ég ætlaði sérstaklega að vekja athygli á, svo að það er ekki ástæða fyrir mig að tala nema örstutt mál. Ég get að sjálfsögðu tekið undir það, sem hér hefur verið sagt um það, hve nauðsynlegt það er að bæta mönnum það tjón, sem þeir hafa orðið fyrir af hinu óvenjulega slæma tíðarfari í vor, og það má líka segja, að þeim mönnum, sem stunda síldveiðar, veitti ekki af stuðningi. Það er náttúrlega allt saman meira og minna rétt, sem sagt hefur verið í þessum efnum, þó að ég sjái varla, hvernig endirinn á að verða á því, að ríkissjóður styrki allar þjóðfélagsstéttir, en það virðist helzt vera stefnan nú. Mér er óskiljanlegt, hver á þá að leggja til peninga í ríkissjóðinn eða hvaða gagn má af því verða að greiða fyrst í ríkissjóð og fá svo framlög úr honum aftur. En ég ætla ekki að fara nánar út í þetta, þar sem talað hefur verið um þetta mál einangrað út af fyrir sig. Það hefur ekki verið ofsögum sagt af því, hvernig tíðarfarið var í vor, og það er áreiðanlegt, það sýna veðurathuganir, það sem þær ná, og minni elztu manna, að þetta tíðarfar er alveg dæmalaust svo langa sem sögur ná, þ. e. a. s., það eru dæmi til eins mikilla harðinda, en ég held naumlega nema með því móti, að hafís hafi verið inni á fjörðum, en annað eins tíðarfar án þess að hafís hafi verið upp við landið er víst fátítt, ef ekki dæmalaust. Það var þetta, sem ég ætlaði að víkja að. Harðviðrið var geysilega mikið, og það er vitað mál, að það er hin fyllsta þörf, ef hægt væri að bæta eitthvað úr fyrir þeim, sem biðu tjón af því. En hvernig hefði farið, ef hafís hefði þar að auki lokað landinu frá Horni til Langaness eða, eins og dæmi eru til, frá Látrabjargi til Langaness? Ég er ekki viss um, ef það hefði líka bætzt við, að flutningar skipa til Norður- og Vesturlands hefðu fallið niður, að það hefði verið hægt að bjarga fólki frá hungursneyð, og þetta getur komið fyrir hvenær sem er. Slíkt ástand hefur skeð í minni núlifandi manna, að hafís hefur lokað öllum leiðum, og það getur skeð enn. Þessi till. er ekki um það, en ég vildi vekja athygli á þessu, að það þarf að tryggja þessum landsvæðum, sem liggja að Norðuríshafinu, á haustnóttum eða fyrir áramót nægan forða bæði af manneldisvörum og fóðurbæti handa skepnum, annað er ekkert vit.

Það er nú svo, að vegna gjaldeyrisástæðna og vegna þess ástands, sem er, þá hefur verið mjög lítið um þetta. Ég er ekki viss um, að það væri svo ákaflega dýrt að tryggja þetta, og í rauninni væri það ekki nema nokkurt vaxtatap, og það eina, sem mér skilst að það opinbera þyrfti fram að leggja til þess að tryggja fólkið að þessu leyti, væri þá það að veita nokkurn stuðning til þess að þær verzlanir, sem vildu sjá um að hafa nógar vörur, fengju greitt það tjón, sem þær biðu af því að liggja svo lengi með vörurnar. Þetta gæti ekki orðið neitt stórfé, því að vörurnar mundu svo með tíð og tíma seljast. Það má segja, að þetta sem ég var að tala um komi ekki beinlínis við þessari till., sem aðeins er um það að bæta úr því tjóni, sem þegar er orðið. En mér finnst það þó það skylt, að sjálfsagt sé að vekja athygli á þeim voða, sem hér er áreiðanlega fyrir hendi, ef illa vill til. Fyrir 30 árum voru einmitt þessi mál á döfinni á Alþingi, að tryggja þjóðina að þessu leyti, og þá var ekki hugsað til þess að gera það með framlagi úr ríkissjóði, heldur með öðrum ráðstöfunum. Nú er eins og menn hafi gleymt þessari hættu, sem í rauninni alltaf vofir yfir, a. m. k. á Norðurlandi, ef til vill á Vesturlandi og hluta af Austurlandi, en þessari hættu má ekki gleyma. Ég veit ekki, hvort fjvn. telur það sitt verk að athuga þessa hlið málsins, þó að till. verði nú til hennar vísað. En ég vildi þó óska þess, að hún gæfi því aðeins gaum, og eins vil ég beina því til ríkisstj., ef henni verður falinn einhver sérstakur undirbúningur þessa máls samkvæmt þál. að þá hugleiði hún einnig þetta atriði.