08.12.1949
Sameinað þing: 9. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 240 í D-deild Alþingistíðinda. (3786)

56. mál, tjón bænda vegna harðinda

Gísli Guðmundsson:

Ég vil taka undir það, sem hv. 1. þm. Eyf. (BSt) mælti hér áðan, að það, sem hlýtur að skipta mestu í þessu máli, er að koma í veg fyrir það framvegis, að hætta sé á þeim miklu áföllum af völdum harðinda, sem stundum hafa orðið hér á landi og þar á meðal s. l. vor, það er það, sem mestu varðar. Í því sambandi get ég trúað, að það kunni að vera á valdi Alþ. að gera einhverjar ráðstafanir, sem þar mættu að gagni koma. Það er mikils vert að tryggja fóðurbæti til hafna norðanlands, þegar skipaleiðir lokast af hafís. En það, sem e. t. v. er vænlegast til árangurs, er það, að stuðlað sé að því á allan hátt, að bændur eigi hægt með að afla sér nægilegs fóðurs, og er þá mikilsvert, að séð sé um það eftir megni, að bændur eigi þess kost á hverjum tíma að fá keyptan nægilegan áburð, til þess að þeir geti haldið túnum sínum í sæmilegri rækt og fengið af þeim það fóður, sem þau eiga að geta gefið af sér, ef áburð skortir ekki. Það held ég, að sé eitt af því, sem manni mætti koma fyrst í hug, þegar slíkir atburðir gerast, sem hér urðu á s. l. vori. Ég vil mega vænta þess, að hv. fjvn., sem fær þetta mál til meðferðar, geri það, sem í hennar valdi stendur, til þess að rannsókn sú, sem farið er fram á í till., fari fram. Þetta er að sjálfsögðu allmikið vandaverk, en ég geri ráð fyrir, að það, sem fyrst og fremst liggur fyrir að rannsaka í þessu sambandi, séu þau beinu vanhöld, sem bændur hafa orðið fyrir vegna harðindanna. Skýrslur um það ætti að vera nokkurn veginn auðvelt að útvega, t. d. skýrslur um þann lambafjölda, sem bændur hafa átt í haust, og svo hins vegar þann lambafjölda, sem þeir að eðlilegum hætti hefðu átt að hafa. Hitt kemur svo að sjálfsögðu í annarri röð, að íhuga þann aukakostnað, sem bændur hafa haft af þessum ástæðum, vegna fóðurbætiskaupa o. s. frv.

Það er svo sem auðsætt mál, að hefði önnur eins harðindi og voru hér á s. l. vori borið að höndum fyrir nokkru síðan, þá hefði tjónið af þeim orðið miklu meira en það varð nú, því að á ýmsan hátt voru bændur betur undir það búnir að mæta harðindum en áður. En það hygg ég, að sé alveg rétt, enda hef ég heyrt marga taka svo til orða, að þessi vorharðindi séu þau mestu, sem hér hafa komið á þessari öld. Tjón hefði ekki orðið svo mikið sem raun varð á, ef um miðjan maí eða í maílok hefði batnað og tekið upp snjó, en nokkuð víða á landinu héldust harðindin langt fram í júní, og í sumum sveitum á Norðausturlandi gerði stórhríð aðfaranótt hins 13. júní og frost á eftir, og það varð til þess, að margt fórst af lömbum, sem búið var að sleppa út á hnjótana og ekki þoldu þessa veðurhörku.

Ég vil svo aðeins segja það, og það var m. a. ástæðan til þess, að ég kvaddi mér hljóðs, að mér finnst engin ástæða til, þegar verið er að ræða um þetta mál, að blanda inn í það umr. um aðrar stéttir og þau áföll, sem þær hafa orðið fyrir. Það er alveg rétt, sem hér var tekið fram af hv. þm., að aflabrestur hefur orðið á síldveiðum hvað eftir annað, og hefur það komið þungt niður bæði á útgerðinni og sjómönnum og þeirra fólki. Ég ætla, að erfiðleikum þeirra, sem þar eiga hlut að máli, hafi verið sýndur fullur skilningur, svo sem vera ber, hér á Alþ., eins og ýmsar aðgerðir Alþ. bera vott um. Ég sé því ekki ástæðu til að blanda umr. um það inn í þetta mál, og þaðan af síður sé ég ástæðu til þess, að farið verði að bera fram brtt. við þessa þáltill. viðvíkjandi málefnum annarra stétta, og ég vænti þess, að úr því verði ekki. Það væri naumast til annars en að tefja þetta mál, en mundi ekki verða öðrum til neins gagns. Ég held, að það hljóti allir að viðurkenna, sem eitthvað fylgdust með harðindunum í vor, að ef nokkurn tíma hafi verið ástæða til að veita einhverri stétt aðstoð á þennan hátt, þá séu þær forsendur fyrir hendi í þessu sambandi. Ástæður og afkomumöguleikar þeirra manna, sem í fyrsta lagi hafa eytt alveg óvenjulega miklu í kaup á fóðurbæti og heyi úr fjarlægum héruðum og hafa lagt á sig alveg óvenjulega mikla vinnu og fyrirhöfn við fjárgæzlu í vor og þar á ofan hafa sumir hverjir misst meiri eða minni hluta af arði af búum sínum og hafa því haft sáralítið innlegg til þess að geta borgað þennan aukakostnað ofan á venjulegar ársþarfir, eru á þann veg, að það leikur ekki á tveim tungum, að sé nokkurn tíma ástæða til að hlaupa undir bagga vegna áfalla af völdum náttúrunnar, þá eru þær ástæður fyrir hendi. nú og geta ekki ríkari verið. Hitt er sjálfsagt, að gæta allrar varúðar við þær rannsóknir og ráðstafanir, sem gerðar verða í þessu sambandi. Ég geri heldur ekki ráð fyrir, að bændur, sem hér eiga hlut að máli, yfirleitt kæri sig um annað en að þar sé alls hófs gætt. Það er mikið undir því komið, að rannsóknin sé vandlega og samvizkusamlega af hendi leyst. Ég fyrir mitt leyti legg meira upp úr því, að svo verði, heldur en hraða málsins, þótt hann kunni að vera nauðsynlegur. Það má ekki alltaf fara eftir því, hverjir telja sig verða harðast úti, því að stundum er það svo, að menn láta lítið á slíku bera, en hafa þó eigi síður þörf fyrir aðstoð en aðrir, sem segja fyrr til.

Ég vil svo enda þessi orð mín með því að þakka þeim opinberu aðilum, sem hlut áttu að því að koma heyi til þeirra staða, sem aðþrengdastir voru af harðindunum á s. l. vori. Ég vil þakka hæstv. ríkisstj., Búnaðarfélagi Íslands og Skipaútgerð ríkisins, sem unnu þarna mikið og gott verk, sem í góðar þarfir kom. Ég veit, að ég mæli þar fyrir munn ýmissa manna, sem þess nutu.