08.12.1949
Sameinað þing: 9. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 243 í D-deild Alþingistíðinda. (3788)

56. mál, tjón bænda vegna harðinda

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Ég veit, að það er fullkomlega rétt mál, að harðindin s. l. vor hafi verið ein með þeim mestu, sem sögur fara af. Hitt hygg ég, að megi einnig fullyrða, sem betur fer, að aldrei hafi orðið jafnlítið tjón af jafntilfinnanlegum harðindum hér á landi og varð á s. l. vori. Vissulega er gott þess að minnast. Ég vil ekki mæla gegn því á nokkurn veg, að sú rannsókn fari fram, sem hér er gert ráð fyrir. Ég hefði vænzt þess, eftir því sem hér er mælt í dag og eftir því, sem hefur verið um málið skrifað, að fullkomin rannsókn af hendi Búnaðarfélags Íslands lægi fyrir nú þegar. En ég vildi mega leyfa mér að beina því til þeirrar hv. n., sem fær þetta mál til athugunar. hvort nægilegt sé eða eðlilegt að binda rannsóknina eingöngu við það, sem fyrir er mælt í þessari till. Þar mælir svo fyrir, að fram skuli látin fara rannsókn á tjóni bænda af völdum harðinda. Það orkar ekki tvímælis, að æskilegt sé að fá glöggt yfirlit yfir þetta. En af því að í till. er talað um bætur fyrir tjón, virðist til þess ætlazt, að þær séu greiddar eingöngu með tilliti til þess tjóns, sem hlutaðeigandi bændur hafa orðið fyrir. Ég álit það ákaflega hæpið — að ég ekki segi óeðlilegt —, að miða við það eitt. Það er vissulega enginn vafi á því, að margir þeir menn eru til — ég vil segja, sem betur fer —, sem hafa orðið fyrir nokkru tjóni og jafnvel allstóru tjóni, sem eru þannig settir efnalega, eftir mörg undanfarin góðæri, að þeim er tiltölulega auðvelt að mæta því tjóni. Er því ástæða til að leggja það fyrir n. að miða ekki bæturnar við tjónið eitt. Ég tel, að einnig eigi að leggja það fyrir n. að rannsaka efnahag þeirra manna, sem fyrir tjóninu urðu. Ég skil sjónarmið hv. 1. þm. N-M. (PZ) vel. Hann talar um einyrkjabónda með 5 börn, sem hefur í haust aðeins lagt inn 19 lömb í staðinn fyrir 80–90 venjulega áður. Það er rétt og eðlilegt að gera ráð fyrir því, að honum sé hjálpað, eftir því sem nú er háttað tryggingamálum okkar. En setjum svo, að annar maður, efnaður, hefði orðið fyrir slíku tjóni. Er þá sjálfsagt, að hann skuli fá það bætt. Ég vil mjög beina því til hv. n., að hún athugi þetta. Sem betur fer eru það allmargir bændur, sem þola slíkt tjón, án þess að það valdi röskun á þeirra efnahag. Ég vil beina því til n., að hún bindi sig ekki eingöngu við að meta tjónið, heldur líka efnahag og afkomu þeirra manna, sem fyrir tjóninu hafa orðið. Í þessu sambandi vil ég segja það, að mig furðar á því langlundargeði, sem kemur æ ofan í æ fram frá fulltrúum bænda hér á þingi í því, sem ég tel þýðingarmesta málið fyrir bændur í þessu sambandi. Það er að koma búfjár- og fóðurflutningum bænda í sæmilegt horf. Í hvert skipti, sem pest kemur í fé eða áfall, eins og í vor kemur fyrir, þá er leitað til ríkissjóðs um styrk. Mig furðar á, að bændur skuli sætta sig við slíkt. Því ekki að koma þessu þannig fyrir, að bændur sjálfir tryggi sig gegn þessum áföllum, ef til vill með stuðningi þess opinbera, ef ástæða þykir til? Það er margfalt stærra mál en þetta einstaka tilfelli, sem hér um ræðir, að koma búfjár- og fóðurtryggingarmálum bænda á sæmilega öruggan grundvöll.

Ég þarf ekki mikið við það að bæta, sem hv. 8. landsk. þm. (StJSt) tók hér fram áðan. Ég geri ráð fyrir því, að verði það framkvæmt, sem gert er ráð fyrir í þessari till., þá verði með öllu óhjákvæmilegt að láta svipað gilda um sjómennina, sem síldveiðar hafa stundað. Þess er sízt minni þörf, eins og afkoman hefur verið undanfarið hjá síldveiðisjómönnum. Hitt er alveg rétt, sem hv. 1. þm. N-M. segir, að það er ekki hægt að gera ráð fyrir því, að menn geti lifað á tveggja mánaða tekjum af síldveiðum yfir allt árið, enda mundi þá verða lítið fyrir margan að leggja, ef menn ættu að lifa af tveggja mánaða tryggingu í tólf mánuði, sem mundi nema frá 1.700 kr. og upp í 2.200 kr.