04.01.1950
Sameinað þing: 13. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 255 í D-deild Alþingistíðinda. (3813)

72. mál, innlausn lífeyristrygginga

Finnur Jónsson:

Herra forseti. Ég hygg, að á sínum tíma hafi verið gerð lagabreyt. á l. um íslenzka endurtryggingu, sem sérstaklega miðaði í þá átt að lagfæra þetta, sem hér um ræðir, hvernig sem á því stendur, að það hefur ekki verið framkvæmt. Í sambandi við þetta mál tel ég rétt að minnast á það, að auk þeirra, sem drukknuðu á stríðsárunum og tryggðir voru hjá Tryggingastofnun ríkisins, fórst nokkuð af fólki, sem, eftir því sem ég bezt veit, var hvergi tryggt, en talið var, að það hefði farizt af völdum Þjóðverja. Nú lét ég, þegar ég var dómsmrh., fara fram nokkra athugun á því tjóni, sem talið var, að Íslendingar hefðu orðið fyrir í stríðinu af völdum Þjóðverja, og munu þessar skýrslur hafa verið til í dómsmrn. eða utanrrn. Nú hef ég séð það í blöðum nýlega, að fallizt hafi verið á að afhenda íslenzku ríkisstj. innstæður Þjóðverja hér á landi og þar með bankainnstæður, sem nema um 2½ millj. kr., húseign Þjóðverja við Túngötu og eignir ýmissa þýzkra ríkisborgara. Nú leikur það ekki á tveim tungum, að sá skaði, sem Þjóðverjar ollu Íslendingum, hefur að minnstu leyti komið niður á íslenzka ríkinu, heldur hafa það verið einstök félög og einstaklingar, sem hafa orðið fyrir tjóninu, og ég vil í því sambandi beina þeirri fyrirspurn til hæstv. forsrh. eða hæstv. fjmrh., eftir því hvor hefur með þessi mál að gera í ríkisstj., hvort þeir gætu gefið upplýsingar um, hvað þessar skaðabætur, sem Þjóðverjar greiða til íslenzka ríkisins, nema miklu, og þá líka, hvernig ríkisstj. hefur hugsað sér að verja þeim. Mér hefði fundizt ekki ósanngjarnt, að aðstandendur þeirra, sem ekki voru tryggðir sérstakri skyldutryggingu, eins og flestir þeirra sjómanna, sem fórust, voru tryggðir, fengju a. m. k. skaðabætur, sem þessu nemur, af því fé, sem ég hef nú rætt um. Ef til vil] er hæstv. ríkisstj. ekki undir það búin á þessu augnabliki að svara þessum fyrirspurnum, en ég mundi þá beina þeim til hennar aftur í fyrirspurnatíma og væntanlega koma þá með þáltill. um þetta efni, þegar svörin liggja fyrir um þetta. Mér þykir nokkuð mikils virði að fá þetta upplýst, ef unnt væri, í sambandi við þetta mál, því að mér er kunnugt um a. m. k. nokkur dæmi þess, að menn, sem voru fyrirvinna fátækra fjölskyldna, fórust af völdum Þjóðverja, án þess að þeir væru stríðstryggðir.