18.01.1950
Sameinað þing: 19. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 256 í D-deild Alþingistíðinda. (3817)

79. mál, Hjúkrunarkvennaskóli Íslands

Flm. (Steingrímur Aðalsteinsson) :

Herra forseti. Ef marka má þær umr., sem hafa farið fram undanfarið, einkum í dagblöðum höfuðstaðarins, virðist ríkja nokkuð mikill áhugi fyrir, að gert verði mikið átak til þess að bæta úr þeim skorti, sem hefur verið og er á sjúkrahúsrúmi í landinu, þó ekki hvað sízt í höfuðstaðnum. Það virðist sem sagt mikill áhugi fyrir þessu. Það er einnig talað um það nú að undirbúa í Reykjavík byggingu mikillar heilsuverndarstöðvar, og enn fremur mun mega vænta þess, að á næstunni verði byggt í Reykjavík bæjarsjúkrahús með eitthvað 300 rúmum, og auk þess, eins og kunnugt er, eru í byggingu úti á landi á ýmsum stöðum sjúkrahús, minni eða stærri. Það virðist sem sagt mega búast við því, að á næstu árum verði starfandi hér á landi allmiklu fleiri sjúkrahús, a. m. k. sjúkrahús, sem veita viðtöku miklu fleiri sjúklingum heldur en tök eru á eins og þeim málum er háttað nú í dag.

Það er út af fyrir sig mikið gleðiefni, að þessi áhugi skuli vera svo mikill, að það skuli mega vænta slíkra umbóta á heilbrigðismálum okkar. En þá er líka um leið ástæða til að vekja athygli á öðrum þætti þessara mála, sem að vísu er nokkuð annars eðlis, en þó þannig vaxinn, að sjúkrahús, hvorki þau, sem nú eru til eða í ráði er að reisa, verða starfrækt, svo að í nokkru lagi sé, nema þeim þætti sé einnig gefinn nægilegur gaumur, en það er að sjá fyrir nægilega mörgum hjúkrunarkonum, sem verða að vera til taks til að taka við störfum við þau sjúkrahús, sem nú starfa, og enn fremur við þessa væntanlegu aukningu, sem virðist vera fyrir hendi í mjög stórum stíl. En ástandið í þessum efnum er samt sem áður þannig nú, að það er þegar mikill skortur á lærðum hjúkrunarkonum til að starfa við þau sjúkrahús, sem nú eru fyrir hendi í landinu. Ég skal t. d. nefna það, að samkvæmt upplýsingum frá forstöðukonu Landsspítalans hér hefur ekki reynzt mögulegt að fá þangað fleiri hjúkrunarkonur en það, að spítalinn er nú rekinn með aðeins helmingi þeirra hjúkrunarkvenna, sem þyrftu í raun og veru að vera þar til þess að fullnægja þeim kröfum, sem gerðar eru til slíks sjúkrahúss, Þegar við þetta bætist það, sem ég hef áður á drepið, að líkur eru til, að sjúkrarúmum fjölgi mikið á næstunni, þá liggur í augum uppi, að þessi skortur á hjúkrunarkonum verður enn tilfinnanlegri, ef ekki verða gerðar nauðsynlegar ráðstafanir í tíma. Gæti það leitt til þess, að ekki yrði hægt að starfrækja hina væntanlegu og nauðsynlegu viðbót við sjúkrahúsin vegna skorts á hjúkrunarkonum. Við þetta bætist líka það, að þegar 3. kafli almannatryggingalaganna, um heilsuvernd, kemur til framkvæmda, gerir sú starfsemi sömuleiðis kröfu til mjög margra hjúkrunarkvenna. Ber því allt að sama brunni um það, að áreiðanlega er mjög nauðsynlegt, að nú þegar séu gerðar ráðstafanir til þess, að menntaðar séu miklu fleiri hjúkrunarkonur, en nú hefur verið kostur á að gera. En eftir því, sem mér er tjáð, þá er það, sem fyrst og fremst hefur staðið á, að við fáum fleiri hjúkrunarkonur eða fleiri stúlkur til hjúkrunarnáms, að hjúkrunarkvennaskólinn, sem starfar hér samkvæmt l., — ég held frá 1944, — hefur ekki haft nema svo afar þröngt húsnæði, að það hefur ekki verið nokkur leið að veita viðtöku þeirri tölu nemenda, sem nauðsynleg er til að halda við nægilega fjölmennri hjúkrunarkvennastétt. Mér hefur verið tjáð, að það húsnæði, sem hjúkrunarkvennaskólinn hefur, þ. e. a. s. þriðja hæð Landsspítalans, gefi enga möguleika til þess að taka á móti fleiri en 50 nemendum. og það þó aðeins með því móti, að þessir nemendur búi miklu þrengra en æskilegt er, en þetta sé sú hámarkstala, sem skólinn geti veitt viðtöku, hins vegar sé það lágmark til þess að fullnægja þörf þeirra sjúkrahúsa, sem nú þegar eru starfandi, að geta tekið 80 nemendur. En þegar sjúkrarúmum síðan fjölgar í stórum stíl, eins og væntanlegt er, mundi þessi tala hjúkrunarnema að sjálfsögðu þurfa að vaxa mikið umfram það. Þessi tala er aðeins miðuð við þá tölu hjúkrunarkvenna, sem þarf á þau sjúkrahús og heilbrigðisstöðvar, sem nú eru starfandi.

Ég held, að það sé þess vegna nauðsynlegt, þegar verið er að ræða um stórvægilegar úrbætur á okkar heilbrigðismálum, að ekki sé litið fram hjá þessum þætti, heldur gerðar þær ráðstafanir, sem nauðsynlegar eru til þess að bæta úr þeim annmörkum, sem sérstaklega standa í vegi fyrir, að hægt sé að mennta þær hjúkrunarkonur, sem mjög svo brýn þörf er á nú þegar og verður, eins og ég hef þegar sagt, miklu meiri væntanlega innan skamms. Ég hef þess vegna leyft mér ásamt hv. 2. þm. Reykv. að flytja þáltill. um þetta efni, sem liggur fyrir á þskj. 163 og miðar að því að skora á viðkomandi yfirvöld, ríkisstj., — það mundi að sjálfsögðu koma undir heilbrigðisstjórnina, — að beita sér fyrir því, að Hjúkrunarkvennaskóla Íslands verði þegar í stað séð fyrir auknu húsrými, fyrst til bráðabirgða, þannig að nú þegar verði hægt að veita viðtöku þeirri lágmarkstölu, sem hér er miðað við, þ. e. a. s. 80 nemendur, svo að hægt sé að fullnægja þeirri þörf, sem nú er fyrir hendi, og í öðru lagi, að þegar í stað verði hafizt handa að byggja framtíðarhúsnæði fyrir þennan hjúkrunarkvennaskóla, svo að áður en allt of langur tími líður, geti hann fullnægt ekki aðeins þeirri bráðabirgðaþörf, sem nú er fyrir hendi, heldur einnig þeirri framtíðarþörf, sem verður, þegar hin nýju væntanlegu sjúkrahús taka til starfa.

Ég skal í þessu sambandi nefna t. d. fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri, sem nú er í byggingu og komið er það langt áleiðis, að sjálf byggingin verður tilbúin innan skamms, þó að enn þá vanti að vísu margt til að hefja starfrækslu við það sjúkrahús, sem ég vil þó vona, að verði fyrir hendi, þannig að sjúkrahúsið geti tekið til starfa, áður en langur tími liður, helzt, á næsta ári. En ég þykist sjá fram á það, að það muni verða mikil vandræði fyrir þetta sjúkrahús, þegar það á að taka til starfa, að fá þær hjúkrunarkonur, sem nauðsynlegt er að hafa, til þess að sjúkrahúsið geti haldið uppi starfsemi sinni. Þetta verður sjúkrahús með 130 sjúkrarúmum, og það gefur að skilja, að það þarf mikinn fjölda hjúkrunarkvenna til að starfa við það. Samkvæmt þeirri reynslu, sem er fyrir hendi á Landsspítalanum, liggur í augum uppi, að það getur orðið örðugt fyrir þetta nýja fjórðungssjúkrahús á Akureyri og önnur ný sjúkrahús, sem eru að taka til starfa á næstunni úti um land, að fá hjúkrunarkonur eins og þau þurfa. Sama verður um bæjarsjúkrahús það, sem nú er verið að tala um að reisa í Reykjavík, og aðrar heilbrigðisstofnanir, sem er verið að bollaleggja að koma upp í bænum.

Hér ber sem sagt allt að sama brunni, að ég held, að það leiði til stórkostlegra vandræða fyrir starfsemi sjúkrahúsa í landinu á næstu árum, ef ekki verða nú þegar gerðar ráðstafanir til að mennta miklu fleiri hjúkrunarkonur en nú er hægt. Ég held því, að þetta sé mjög þýðingarmikið mál og Alþingi verði að taka tillit til þess ástands, sem í þessum efnum ríkir nú, og gera þær ráðstafanir, sem nauðsynlegar eru til að bæta úr því. Þær ráðstafanir, sem þingið getur gert í augnablikinu, eru þær, — ég hef ekki komið auga á, að það geti gert aðrar ráðstafanir nú en að skora á heilbrigðisyfirvöldin að útvega bráðabirgðahúsnæði. Það ætti að vera hægt hér í bænum, ef vandlega er eftir því leitað. En svo liggur fyrir Alþingi, og ég geri ráð fyrir, að það komi til umr. meira eða minna í sambandi við afgreiðslu fjárl., að veita fé til byggingar hjúkrunarkvennaskóla. Það tekur lengri tíma að koma þeirri skipan á, og það er ekki hægt að bíða eftir því, heldur verður að gera bráðabirgðaráðstafanir, eins og lagt er til í till. En það hlýtur að vera framtíðarúrræðið í þessu efni að skapa skilyrði, sem í raun og veru eru nauðsynleg til þess í fyrsta lagi, að stúlkur fáist í hjúkrunarnám í nægilega stórum stíl, og í öðru lagi, að hægt sé að veita skilyrði, sem sæmileg séu, við slíkt nám.

Það má í þessu sambandi líka benda á það, að auk þess sem þetta húsnæði í Landsspítalanum er algerlega ófullnægjandi, þá stendur það annarri starfsemi Landsspítalans mjög fyrir þrifum, meðan húsnæði spítalans er bundið á þennan hátt. Það mundi því líka bæta a. m. k. að einhverju leyti úr þeim húsnæðisvandræðum, sem Landsspítalinn sjálfur er í. Þetta styður líka að því, að gerðar séu nú þegar ráðstafanir í þessu efni.

Ég vil vænta þess, að Alþingi taki vel í þetta mál. Ég held, að það liggi svo skýr rök fyrir þeirri till., sem hér er flutt, að þegar hún hefur verið rædd og athuguð af n., þá hljóti hv. þm. að komast að sömu niðurstöðu og við flm., að við svo búið megi ekki standa í þessu efni.