18.01.1950
Sameinað þing: 19. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 259 í D-deild Alþingistíðinda. (3818)

79. mál, Hjúkrunarkvennaskóli Íslands

Rannveig Þorsteinsdóttir:

Herra forseti. Þessi till., sem hér liggur fyrir, fyrri liðurinn, er um það að skora á ríkisstj. að sjá Hjúkrunarkvennaskóla Íslands nú þegar fyrir bráðabirgðahúsnæði, sem nægi fyrir ákveðinn hóp nemenda. Síðari liðurinn er um, að hafizt verði handa um að sjá fyrir framtíðarhúsnæði fyrir skólann.

Hjúkrunarkvennaskólinn hefur búið við mikið húsnæðisleysi og mikla erfiðleika í sambandi við hina nýju skipun um hjúkrunarkvennanám. Honum hefur verið fengið húsnæði á efstu hæð Landsspítalans, að vísu hvergi nærri fullnægjandi og ekki hægt að hafa þann fjölda nemenda, sem nauðsynlegt er, eins og hv. flm. benti á. Skólinn hefur þó komið sér þarna fyrir til bráðabirgða, og þó að hann sé í mjög þröngu húsnæði, þá hygg ég, að forstöðukona skólans muni ekki hafa áhuga fyrir því, að flutt yrði í eitthvert annað bráðabirgðahúsnæði. Ég vil bara beina því til fjvn. og þeirra annarra, sem með þessi mál hafa að gera, að lausn málsins liggur fyrst og fremst í því að skapa Hjúkrunarkvennaskóla Íslands það framtíðarheimili, sem hann þarf að fá í framtíðinni, eins fljótt og mögulegt er, og um það á fremur að hugsa, en fara að eyða fé í eitthvert bráðabirgðahúsnæði. Ég álít það réttari stefnu að leggja allt kapp á framtíðarhúsnæðið, og ég hygg, að það sé frekar í samræmi við það, sem forstöðumenn skólans vilja.