18.01.1950
Sameinað þing: 19. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 260 í D-deild Alþingistíðinda. (3821)

80. mál, síldveiðar og síldarleit

Flm. (Finnur Jónsson):

Herra forseti. Ég hefði mjög óskað eftir, að hæstv. atvmrh. hefði haft möguleika á að vera viðstaddur þessa umr., en ef svo er, að hann er ekki hér í húsinu og getur ekki verið hér viðstaddur, mundi ég samt freista að koma till. til síðari umr., því að ég tel, að hún sé þess eðlis, að hún megi ekki þola neina bið og hafi beðið helzt til lengi, þó að ég geti ekki ásakað hæstv. forseta fyrir það. Ég tel, að þetta mál sé svo mikils um vert fyrir Alþingi og fyrir landið yfir höfuð, að það hafi dregizt of lengi úr hömlu að afgreiða það, svo að viðunandi væri.

Við höfum orðið þess varir nokkur undanfarin ár og höfum í rauninni vitað það alllengi, að talsverð síldarganga hefur verið hér við suður- og vesturströnd landsins langan tíma ársins, en ekki hægt að ganga úr skugga um það fyrr, en nú nýlega, hversu miklar þessar síldargöngur eru, en ég hygg, að þær mælingar, sem gerðar hafa verið á síldargöngu á síðasta ári bæði umhverfis ströndina og eins inni í Hvalfirði og Kollafirði á sínum tíma, sýni, að hér sé um óhemju auðæfi að ræða. Nú er alveg augljóst, að við höfum ekki tæki til að veiða þessa síld, nema hún gangi inn á fjörðu. Sjórinn er vanalega svo órólegur við ströndina þann tíma árs, sem síldargangan er mest, að hún verður ekki tekin á þeim slóðum með þeim veiðarfærum, sem nú hafa verið notuð hér við land. Segja má líka, að við vitum næsta lítið um þessa síldargöngu. Það var að vísu svo, að nokkur tilraun var gerð til þess í fyrra að fylgjast með síldargöngunni, en sú tilraun var hvergi nærri eins nákvæm og átt hefði að vera og þurft hefði að vera. Á þessu ári hafa líka verið gerðar einhverjar tilraunir til að fylgjast með síldargöngunni, en þó hygg ég, að þær hafi verið næsta stopular og alveg ákaflega stopular, þegar þess er gætt, að hér er um að ræða stórfellda atvinnumöguleika, sem við höfum vitað af, að væru í grennd við landið. Eftir því sem ég veit bezt, var haldið uppi nokkurri síldarleit með mótorskipinu Fanney nokkuð fram í desember, en einkum voru það reknetjabátar, sem stunduðu síldveiðar, sem einkum má segja, að hafi gefið fréttir um síldargönguna. Ég hygg, að síðustu fréttir reknetjabátanna um síldargönguna muni hafa verið þær, að nokkru fyrir jól hafi verið ótrúlega stórar og þéttar síldartorfur nokkuð út af Garðsskaga. Þegar kom að jólum, hættu reknetjabátarnir síldveiðum. En þá brá svo við, að Fanney hætti líka. Hefur því enginn reynt að fylgjast með síldargöngunni, sem var þarna fyrir utan Garðsskaga fyrir jól, fram á þennan dag. Ég hef að vísu séð, að atvmrh. hafi skipað 10 manna n. til þess að standa fyrir rannsóknum á síldargöngum og standa fyrir tilraunum með síldveiðar. Þessi nefndarskipun mun hafa verið ákveðin um mjög líkt leyti og ég lagði fram þessa till. á Alþingi, og er ekki nema gott, að tveimur detti það sama í hug. Hitt er það, að ég held, að þessi n. sé nokkuð fjölmenn til að standa fyrir nokkrum framkvæmdum, því að það er ákaflega erfitt að fá 10 manna n. saman, það þekkjum við hér í höfuðstaðnum. Enn hygg ég, að þessa n. muni vanta mjög starfsfé, ef hún á að gera einhverjar framkvæmdir, því að það er alveg auðséð á öllu, að ef einhver árangur á að verða bæði af því að fylgjast með síldargöngum og eins árangur af því að útvega einhver veiðarfæri, sem við getum notað til að veiða úti á rúmsjó, þá duga engin vettlingatök. Það verður að hafa um það talsvert mikla framkvæmd og mikla útsjón, og það er ómögulegt annað en hvort tveggja kosti talsvert mikla peninga. En ég hygg, að það sé ekki hægt að ásaka neinn um nokkurt bruðl, þó að verulegt fé væri látið í þessa till., bæði til að fylgjast með síldargöngum og eins til að reyna að finna veiðarfæri til að veiða síldina á hafi úti.

Ég hef séð í grg. frá hæstv. atvmrh., sem fylgdi þessari 10 manna nefndarskipun, að hann ætlast til, að fiskimálasjóður bæri kostnað við þær tilraunir, sem gerðar væru í þessu skyni. Það má vel vera, að eitthvað hafi safnazt í fiskimálasjóð 1949, en í árslok 1948 átti hann enga peninga til. Ég hef hér fyrir framan mig reikninga fiskimálasjóðs frá 1948. Þá átti sjóðurinn í útlánum um 5 millj. kr. og hafði lofað lánsfé fram í tímann, 2 millj. kr. Þegar þess er gætt, að tekjur fiskimálasjóðs árið 1948, en þá var útflutningur okkar 400 millj., námu um 1,5 millj. kr., en kostnaður við rekstur n., þar á meðal styrkir og annað slíkt, nam um ½ millj. kr., en sjóðurinn lánar um eina millj. kr. á ári, þá lítur út fyrir, að fiskimálasjóður þurfi tekjur áranna 1949–50 til þess að efna þau loforð, sem hann hafði þá gefið, án þess að nokkur ný lán komi til greina. Það má segja, að þetta sé nokkuð ágizkun, af því að ég hef ekki reikningana fyrir árið 1949, en þó hygg ég, að tekjur fiskimálasjóðs hafi orðið talsvert lægri 1949 en 1948, vegna þess að útflutningurinn var þá allmiklu minni, en þá hafði sjóðurinn, eins og ég gat um, óefnd loforð um 2 millj. kr., sem, ef þau komast í framkvæmd á árunum 1949–50, mundu éta upp tekjur sjóðsins þessi tvö ár. Mér skilst þess vegna ekki, að fiskimálasjóður, nema verði veruleg breyting á lögum hans og útvegun tekna til þessara framkvæmda, hafi neitt fé til umráða til að stunda þessar merkilegu fiskirannsóknir og tilraunir með veiðarfæri til þess að ná síld á hafi úti. Hvort tveggja getur orðið kostnaðarsamt, sérstaklega vegna þess, að það er gersamlega tilgangslaust að reka rannsóknina með þeim vettlingatökum, sem gert hefur verið, að fylgjast með síldinni í góðu veðri, þegar mikið er af henni og fullt af reknetjabátum, en leita inn á fjörðu um leið og reknetjabátarnir hætta. Enn fremur er augljóst, að þær litlu tilraunir, sem enn hafa verið gerðar til að ná síldinni, hafa engan árangur borið. Það má vel vera, að ekki séu til hjá öðrum þjóðum veiðarfæri til að ná síldinni á þennan hátt, en þó hygg ég, að veiðarfæri, sem notuð eru í Norðursjó, mætti nota hér, með nauðsynlegum breytingum vegna dýpis og sjávarlags. En það er enginn vafi, að til þess þarf að kosta meiru fé og fyrirhöfn en enn hefur verið gert.

Mér er ljóst, að þessi þáttur, sem hér er stungið upp á, er ekki nema lítill hluti af þeim fiskirannsóknum, sem við þurfum að reka hér við land. En hins vegar er það alveg augljóst líka, þegar við verðum fyrir eins miklum töpum og orðið hefur, vegna þess að Norðurlandssíldin hefur brugðizt ár eftir ár, þá er óskiljanlegt, að ekki skuli hafa verið gert meira en hefur verið gert til þess að reyna að nota sér síldina við suðurströndina. Það er búið að reisa hér ágætar síldarverksmiðjur, sem geta tekið við miklu magni af síld, og reynsla undanfarinna ára sýnir, að við getum ekki beðið eftir, að síldin komi inn í sundin, Kollafjörð og Hvalfjörð. Það verður að sækja hana út, en til þess að það verði gert þarf eflaust að leggja fram nokkuð mikið fé og nokkuð mikla fyrirhöfn, sem ekki er fyrir fram hægt að fullyrða, að komi aftur, og ekki heldur hægt að fullyrða, að þessi fyrirhöfn beri árangur. En við megum vita það, að ef við hvorki leggjum í þetta fé né fyrirhöfn, fáum við engan árangur af þessu. Það vitum við. Við höfum hér tillögumenn lagt til, að ríkisstj. verði heimilað að verja fé úr ríkissjóði, að svo miklu leyti sem það væri ekki fyrir hendi í fiskimálasjóði, og eftir þeim upplýsingum, sem ég hef um þann sjóð, er það mjög lítið, um það bil 2 millj. kr. Ég legg enga áherzlu á það, hvernig framkvæmdum í þessu yrði hagað, en sjálfsagt yrðu kallaðir til hinir beztu menn, sem völ væri á. Ég legg enga áherzlu á, hvernig n. verður skipuð, en legg áherzlu á, að sú stofnun, sem tekur þetta að sér, verði starfhæf stofnun. Ég hygg, að við höfum á tímanum fyrir jól og til þessa dags misst dýrmætan tíma, sem hefði getað borgað sig að nota betur, en gert hefur verið. Ég er ekki að álasa atvmrh. fyrir þetta, en vildi láta þá skoðun mína og okkar flm. í ljós, að við teljum, að í þessu hér dugi ekki nein vettlingatök. Má vel vera, að fjmrh. telji, að úr þessu verði bætt með hans nefndarskipun, en það gerir engin n. þær tilraunir, sem þarf að gera í þessum efnum, nema hún hafi talsvert fé undir höndum. Og þar sem lítur út fyrir, að hér sé um svo mikil auðæfi að ræða, kannske ríkustu fiskimiðin, sem við höfum fengið, á litlum bletti, treysti ég því, að till. okkar flm. fái fljóta og góða afgreiðslu frá fjvn. og verði ekki látin bíða eftir fjárl., svo að ekki þurfi að álasa okkur fyrir það, að við höfum sparað tíma og fyrirhöfn til þess að nota þau fiskimið, sem við vitum af á litlum bletti hér við suðurströndina.

Ég skal svo ekki fjölyrða um þetta. Ég vil, að till. verði vísað til fjvn. til athugunar og væntanlegrar afgreiðslu, og óska eftir því sérstaklega við formann n., sem ég veit, að hefur mikinn áhuga fyrir þessu máli, að hann reyni að flýta afgreiðslu till. eftir mætti, því að engum er ljósara en honum, hve mikils vert er að reyna að fá einhvern árangur í þessum efnum.