01.02.1950
Sameinað þing: 22. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 267 í D-deild Alþingistíðinda. (3826)

100. mál, lóðakaup í Reykjavík

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það er í raun og veru ekki undarlegt, þótt Alþingi láti til sín taka, hvernig byggt er hér í miðbænum. Ekki aðeins vegna þess, að Reykjavík er bær Ingólfs Arnarsonar, heldur og vegna þess, að hún er jafnframt höfuðborg landsins og geymir margar helztu minningar úr sögu þjóðarinnar. Það væri því vel til fundið að athuga þessi mál rækilega og það á breiðara grundvelli en þessi till. gerir ráð fyrir, því að nú er verið að eyðileggja mikið af gömlum minjum, hvað hús snertir, frá gamla tímanum. Okkur finnst raunalegt, hve lítið er til af gömlum minjum, en samt er alltaf verið að eyðileggja það litla, sem til er. Ég held því, að við ættum að athuga alvarlega allt skipulag miðbæjarins og hafa um það samráð við bæjarstjórn Reykjavíkur. Það er rétt að flýta sér ekki of mikið í því efni, en fá fram sem beztar hugmyndir um skipulagið. Það hefur verið stefnan að rífa öll gömlu húsin í miðbænum og byggja stórar, flottar byggingar í staðinn, en ekki hirt um, þó að með því sé verið að þurrka út merki 19. aldarinnar. Eftir tvo til þrjá mannsaldra verður litið á þetta sem vandalisma. Sú kynslóð, sem þá lifir, verður vonandi fær um að reisa stórar byggingar, en hið gamla verður gleymt og aldrei skapað aftur. Þetta þurfum við að athuga, því að nú eru möguleikar til að varðveita minningar og merki, sem geta orðið komandi kynslóðum dýrmætur fjársjóður. Við eigum gamlar byggingar, sem eru nátengdar merkustu atburðunum úr okkar sögu, og þessar byggingar eiga að halda áfram að vera til, annaðhvort á þeim stað sem þær eru eða þá annars staðar, ef það er heppilegra. Aðalatriðið er, að við athugum, hvað við gerum í þessum efnum, á meðan það er ekki of seint. Það vill svo vel til, að ekki hafa verið reistar nema tiltölulega fáar stórbyggingar í miðbænum enn, og þess vegna er mjög auðveldlega hægt að taka þessi sjónarmið til greina. Ég álít, hvað miðbæinn snertir, mjög vafasamt. hvort reisa eigi þar stórhýsi, þó að um ráðhús væri að ræða, því að slík bygging eða aðrar slíkar mundu skyggja á gömlu húsin og jafnvel gera alþingishúsið og dómkirkjuna að smákofum. Það er nóg rúm fyrir stórbyggingar annars staðar. Ef til vil1 koma fram þær mótbárur, að það verði svo dýrt að kaupa þessar lóðir, en er þá ekki hægt að vinna það upp með því að útvega eigendunum lóðir á öðrum stað, sem yrði verzlunarmiðstöð og gæti með því orðið verðmætur? Hvað snertir bæjarstæði Ingólfs Arnarsonar, þá væri kannske best, að þar væri haft autt svæði, þar sem væri verulega fallegur garður, eða jafnvel byggja þar torfbæ eins og þeir geta verið fallegastir. Sem sé að láta gömlu minnismerkin drottna í þessum bæjarhluta. Ég tel, að hér sé um að ræða svo stór sjónarmið, að þau verði ekki metin frá sjónarhóli peninga og þess vegna megi peningahlið málsins ekki ráða. Ég tel gott, að þessi till. er fram komin. Hún getur orðið vakning og auk þess vísir til þess að lóðir þær, sem þarna er um að ræða, komist í vörzlu Reykjavíkurbæjar eða ríkisins, en það er auðvitað fyrsta skrefið. Ég vakti máls á þessu í sambandi við menntaskólalóðina, sem mikið hefur verið deilt um. Ég lagði þá áherzlu á, að það hús yrði tengt við Alþingi og forseta til minningar um þjóðfundinn og annað merkilegt, sem þar hefur gerzt, og fengi að vera kyrrt á sinum stað og í sínum gamla, góða stíl. Ég vildi nú leyfa mér að beina því til nefndarinnar, sem fær þetta mál til athugunar, að hún hafi samráð við háskólann og Reykjavíkurbæ, þ. e. a. s. ráðamenn þessara stofnana, og viti um, hvort ekki er hægt að gera stórt átak í þessu merka máli. Ég veit, að það eru margir, sem vilja ljá því lið, en með aðstoð þeirra og sameiginlegu átaki ríkis og bæjar ætti að vera auðvelt að vernda þessa merku sögustaði Reykjavíkur og hindra, að hjarta bæjarins verði kaffært í verzlunarhúsum og bílastæðum. Þetta vildi ég láta koma fram til athugunar fyrir þá nefnd, sem kemur til með að fjalla um þá till., er hér liggur fyrir.