12.01.1950
Efri deild: 28. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 176 í B-deild Alþingistíðinda. (383)

81. mál, ríkisábyrgð á útflutningsvörum bátaútvegsins o.fl.

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Það fór svo hér við 2. umr., að samþ. var till., sem skapar í útgjöld 2–3 millj. kr., án þess að gerð hafi verið af viðkomandi aðilum tilraun til að afla tekna á móti. Það var á valdi hv. frsm. að forða þessu slysi og undarlegt, að það skyldi henda hann, eftir þá framsöguræðu, sem hann hélt. Hann mun ekki hafa gert sér ljóst, hve erfitt verður að framkvæma þetta. Ég vil benda á, að ég sé ekki annað, en þetta kosti það fyrir ríkisstj., að hafa launaða eftirlitsmenn við hvern bát. Og undir öllum kringumstæðum er samþykkt þessarar till. óhappaspor, og mig undrar, að hv. 1. þm. Eyf. skyldi standa þar að. Ég vil nú gefa hv. þm. tækifæri til að bæta úr þessu slysi og leyfa mér að bæta við skriflegri brtt., sem hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta: „Við 1. gr. Aftan við síðari mgr. bætist: miðað við 60% lýsismagn af 1. flokks lýsi. Lifur, sem inniheldur minna lýsismagn, skal tryggja með hlutfallslega lægra verði, miðað við lýsismagnið.“ (Dómsmrh.: Er samt ekki alveg óhjákvæmilegt að setja þessa eftirlitsmenn?) Nei, þá verður hægt að kontrolera þetta með lýsinu sjálfu. Því hefur verið haldið fram hér, að þetta hefði ekkert að segja, en ég vil benda á, að lýsisgæðin eru mjög mismunandi; ufsalýsi t.d. er miklu verðmætara en þorskalýsi. Og ég verð að segja, að mér finnst alveg undravert, að menn skuli leyfa sér að verða þess valdandi, að sett séu á ríkissjóðinn 21/2 millj. kr. útgjöld í sambandi við þessa afgreiðslu. — Ég vil því leyfa mér að vænta þess, að till. mín verði samþ., því að hún bætir úr þessu, auk þess sem annars væri ekkert kontrol á þessum málum.