13.04.1950
Sameinað þing: 38. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 270 í D-deild Alþingistíðinda. (3832)

100. mál, lóðakaup í Reykjavík

Pétur Ottesen:

Eins og hér hefur verið tekið fram, er búið að breyta þessari till. í það form, að nú er það á valdi ríkisstj., hvort nokkuð verður gert í þessu efni eða hvað langt verður gengið af hennar hálfu í því efni, sem í till. felst, og er till. því að því leyti til aðgengilegri nú en hún var í því skipunarformi, sem hún var frá hendi flm. En mér skilst, eftir þeim upplýsingum, sem fram koma í áliti skipulagsstjórans, að till. sé eiginlega óþörf, því að það virðist vera aðaltilgangurinn með þessari till. að tryggja það, að reist verði á þessari lóð vegleg og myndarleg bygging, hvort sem það er nú Reykjavíkurbær, sem stendur fyrir þeirri byggingu, eða ríkið. Nú segir svo í áliti skipulagsstjórans, með leyfi hæstv. for-seta: „Á skipulagsuppdrætti Grjótaþorpsins og Aðalstrætis er gert ráð fyrir því, að sérstaklega verði vandað til þeirra bygginga, er risa eiga vestan Aðalstrætis, en gatan sjálf verður nánast opið torg, eða rúmlega 40 metra breið, og tengist Tjarnargötu til suðurs.“ Enn fremur segir um þetta: „Mun fylgzt vel með því, að þar rísi ekki nema fögur og vönduð heild bygginga.“ Svoleiðis að mér skilst, að með þeirri ákvörðun, sem skipulagsstjóri hefur tekið um byggingu húsa á þessum stað og aðra skipan í því efni, þá sé búið að ganga svo frá um þessa tilhögun, þegar breyt. verður á þessum stað, að það, sem ætlazt er til með till. sé fullkomlega ráðið, og þess vegna sé frá því sjónarmiði ástæðulaust fyrir Alþ. að vera að blanda sér inn í þetta mál. Hitt gæti orðið, að mér skilst, dýrt og kostnaðarsamt fyrir ríkissjóðinn, ef hann ætti að fara að blanda sér inn í þetta á þann hátt sem kemur fram í þessu áliti, að ganga úr skugga um það, hvar hinn forni Ingólfsbær hafi verið, og ef hann ætti í því augnamiði að fara að kaupa upp lóðir og hús á þessu svæði til þess að láta fara fram gröft og aðrar rannsóknir á því, hvort Ingólfsbærinn muni hafa staðið þarna frekar en annars staðar. En það er skýrt tekið fram í þessu áliti skipulagsstjóra, að það verði ekki gengið úr skugga um þetta með öðrum hætti en þeim að grafa þarna allmikið í jörð og leita með þeim hætti eftir því, hversu háttað hafi verið um byggingar þarna að fornu. Þá gæti farið svo, ef það yrði skylda ríkisstj. að fara að kaupa upp lóðir og hús í því augnamiði að ganga úr skugga um þetta, að sú yrði niðurstaðan, að þarna hefði alls ekki verið um neinn Ingólfsbæ að ræða, og þess vegna var ekki ástæða til að fela því opinbera að gera neinar sérstakar ráðstafanir í sambandi við þetta. En með því að þessari till. hefur verið breytt í heimildarform, verður að gera ráð fyrir því, að hér ríki ávallt svo gætin ríkisstj., að hún flani ekki út í að ófyrirsynju þann geipikostnað, sem sjálfsagt mundi leiða af því að kaupa upp hús og lóðir, og þess vegna sé eins og nú er komið áhættulítið að samþ. slíka till. sem þessa. En aðalatriðið er það, að mér skilst ástæðulaust að vera að blanda sér inn í þetta mál af hálfu Alþ., þar sem það er yfirlýst, að þarna á eingöngu í framtíðinni að reisa myndarlegar og fallegar byggingar, sem sæma vel í miðbiki kaupstaðarins, og þá líka með tilliti til þess, að þarna muni hafa verið, eða í nánd, hinn forni Ingólfsbær. Svoleiðis að Reykjavíkurbær og þau stjórnarvöld, sem fara með skipulagsmál bæjarins, eru búin að ákveða um þetta og gera nauðsynlegar ráðstafanir í þessu efni í framtíðinni. Ég vildi aðeins láta þetta koma hér fram, að ég tel þessa till., að fengnum þessum upplýsingum, ákaflega þýðingarlitla, ef ekki þýðingarlausa og ástæðulausa, eins og málin standa.