13.04.1950
Sameinað þing: 38. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 271 í D-deild Alþingistíðinda. (3834)

100. mál, lóðakaup í Reykjavík

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Mér finnst út af fyrir sig þakkarvert að vilja sýna fornhelgum minjum sóma. Ég get þó ekki varizt þess, að mér finnst till. sú til þál., sem hér liggur fyrir, nokkuð einkennileg, og vil ég, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp fyrri hluta hennar, sem er svona: „Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að leita um það álits sérfróðra manna, hvort eigi megi telja líklegt eða fullvíst, að bæjarstæði Ingólfs Arnarsonar hafi verið í Grjótaþorpinu, eða um það bil þar, sem nú stendur húsið Grjótagata 4.“ — Það er ákaflega einkennilegt orðalag að segja þarna, hvort „eigi“ megi telja fullvíst o. s. frv. Venjulegir menn mundu hafa sleppt þessari neitun þarna úr og haft till. jákvæða að formi. Mér finnst, satt að segja, að málið á till. sé svo andkannalegt, að Alþ. hæstv. eigi helzt ekki að vera þekkt fyrir að samþ. slíka till. óbreytta. Það mætti, skilst mér, ráða bót á þessu með því að fella niður þetta eina orð, „eigi“. — Nú er vitað, að margir sérfróðir menn, ef svo má segja, hafa látið uppi um þetta álit, hvar bær Ingólfs, okkar fyrsta landnámsmanns, hafi staðið. Og eins og þjóðminjavörður gerir grein fyrir í sinni álitsgerð, þá er ákaflega fljótlegt að átta sig á því — ekki nema hálftíma verk — hvað sérfróðir menn hafa um þetta sagt. Og ég efast ekki um, að hv. tillögumenn hafi kynnt sér það, áður en þeir fluttu till. Og það getur að líkindum varla verið ætlun hv. flm. till. að fela ríkisstjórninni — og allra sízt hv. n. að heimila ríkisstjórninni — að lesa þessar bækur. Sem betur fer, þá hafa menn heimild til þess að lesa enn þá, án þess að um það sé samþykkt gerð sérstaklega af Alþ. Það gat verið vit í því að skylda ríkisstjórnina til þess, að hún ætti að lesa þetta. (Hlegið lágt á pöllunum). En þegar þetta er heimild, þá finnst mér Alþ. skipta sér nokkuð mikið af störfum ríkisstj., þegar á að taka til í þál., hvað menn eigi að hafa heimild til að lesa af því, sem ritað hefur verið. (Hlegið hálf-upphátt á pöllunum.) — En svo að í fullri alvöru sé talað, finnst mér, að það gæti verið vit í því, að Alþ. samþ. að láta fara fram uppgröft og rannsóknir á þessu svæði. Ef það er það, sem fyrir mönnum vakir, þá á líka að segja það berum orðum og taka það fram í till. og miða ákvarðanir við það. Og það er vissulega mikið verkefni. Við vissum, að þegar Steindórsprent var reist, þá var framinn uppgröftur, sem ég hygg, að hafi reynzt ákaflega merkilegur. Sá uppgröftur staðfesti það, sem fræðimenn höfðu haldið fram áður, að gamli Reykjavíkurbærinn var þarna í nágrenni. Því að þar lentu menn á öskuhaug gömlum, sem gat ekki verið langt frá hinu gamla bæjarstæði Ingólfs landnámsmanns. Og ég veit ekki, hvort það þarf að kosta svo ákaflega mikið að rannsaka þetta. Mikið af því landsvæði, sem þarna er um að ræða. hygg ég að sé óbyggt. Sumt af því kann að vera undir einhverjum húsum. Sumir hafa ekki tilgreint það hús, sem þarna er nefnt í till., heldur Uppsali, þar sem líklegt megi telja, að bær Ingólfs hafi staðið. En hvað sem um það er, þá er þarna óbyggt horn, sem má grafa niður í án þess að rífa stórar byggingar, og athuga, hvort þar hafi verið um stórar byggingar að ræða til forna. En ef ætlunin er að láta slíka rannsókn fara fram umfram það, sem Eiríkur Briem og Klemens Jónsson upplýsa okkur um þetta mál — sem við getum gert án þess að gera um það þingsamþykkt sérstaklega — en ef við viljum gera um það samþykkt á þingi, þá finnst mér, að það eigi að segja það berum orðum, að það eigi að stofna til uppgraftar á þessum slóðum, til þess að kanna þetta enn betur en þegar er gert, þar sem getgátur hafa ýmsar verið hingað til bornar fram í þessum efnum. — Og eins finnst mér óþarfi að vera að samþ. það að fela ríkisstj. að kynna sér það, hvort Reykjavíkurbær vilji kaupa þessar lóðir og reisa þarna stórhýsi. Sumar af þessum lóðum, sem þarna koma til greina, eins og upp með Túngötu, sem eru alveg á næstu grösum, þær á Reykjavíkurbær nú þegar. En hitt er vitað, og það er engin nýjung, að á þessum slóðum hefur byggð Ingólfs Arnarsonar landnámsmanns verið. Eiríkur Briem sannaði það svo glögglega sem bezt verður á kosið fyrir hálfri öld, og stjórnendur Reykjavíkurbæjar hafa allt frá þeim tíma vitað það eða nokkurn veginn síðan. Og þeir hafa ekki séð ástæðu til þess fram að þessu að ákveða í því skyni að reisa sérstakar byggingar þarna. Það hefur einmitt oft verið talað um það af þessum sökum að ákveða, að ráðhús Reykjavíkurbæjar stæði á þessum slóðum. En vegna þess að það hefur verið litið svo á, að ráðhús færi ekki vel þarna, hefur bæjarstjórnin aldrei viljað taka ákvörðun um að ætla því þarna stað. Og þetta er vitað mál öllum, sem eitthvað eru kunnugir gangi bæjarmála hér. Og það er hægt að upplýsa þetta, með því að skrifa bæjarráði eða bæjarstjórninni og fá það upplýst á tveim til þrem dögum — ekki að vísu með því að stinga svari bæjarráðs undir stól, eins og gert er með því, sem sannað er, að álitsgerð þess ráðs hefur legið fyrir, en hún ekki verið birt. En ef menn vilja fá álitsgerð frá bæjarráði og láta hana koma fram, þá er þetta hægt að gera án þess að fela það ríkisstjórninni, og þá getur Alþ. gert það. Og síðan getur hæstv. Alþ. tekið ákvörðun um það, hvort það vill verja fé til þess að kaupa þarna lóðir og hús vegna þessara rannsókna, og þá mundi það liggja nokkurn veginn fyrir líka, hvað þær lóðir mundu kosta. Ríkisvaldið hefur þetta í hendi sinni, ef það vill, með því að ákveða eignarnám á lóðunum. Og þar er einungis um fjárhagsatriði að ræða. Það er hér um bil hægt að gera sér grein fyrir, hvað þessar lóðir verði metnar til fjár, ef til kæmi að taka þær eignarnámi. Og þá er um það að ræða, hvort menn vilja verja því fé úr ríkissjóði til að kaupa þær.

Hitt er annað mál, að ríkisstjórnin keypti fyrir 20 árum lóðir fyrir ofan Lækjargötu, og þar var ætlazt til, að ýmiss konar byggingar yrðu reistar. Í það hefur enn þá ekki verið ráðizt. Frá skipulagslegu sjónarmiði færu stórbyggingar þar miklu betur í bænum heldur en fyrir vestan Aðalstræti, jafnvel eftir að það væri breikkað. Og það væri betra fyrir ríkið að byrja með því að nota þessar dýrmætu lóðir fyrir ofan Lækjargötu, áður en ráðizt er í að kaupa fleiri lóðir hér í Miðbænum. En þetta er atriði, sem ekki er hægt að láta ríkisstjórnina ákveða eftir meir eða minna óljósum, ólánlegum og að því er mér virðist óframbærilegum till., eins og mér virðist þessi þáltill. vera, — þetta allt saman. Ef það væri meining Alþ. að láta gera eitthvað í þessu, þá verður Alþ. að taka ákvörðun um það. — En aumingja ríkisstjórnin, sem eftir þessari till. á að leitast við að fá keyptar þessar lóðir og hús þau, er á þeim standa, eins og þetta er orðað í till. — ef ríkisstjórnin nú vill semja um þessi kaup, þá hefur hún ekkert fé eða heimild til þess að kaupa þær. Ef ætlazt er til, að ríkisstjórnin kaupi lóðir þessar, þá verður að ætla henni fé til þess og fá ríkisstjórninni heimild til þess að hefja samninga um það. Auk þess má segja, að samningaumleitanir um þetta eru óþarfar, vegna þess að ef ríkið vill eignast þetta, verður bezt að beita eignarnámi þegar í stað, því að að öðrum kosti verður aldrei skaplegt verð á þessum lóðum. Ég veit, að vegna kunnugleika á bæjarmálum hér þá veit hv. 1. flm. till., að það er þýðingarlaust að reyna að fá skaplega samninga þarna fyrir stjórnarvöldin, nema því aðeins, að eignarnámsheimild liggi fyrir.

Mér finnst, að frumefni till. geti staðizt, að gengið verði úr skugga um þetta, eftir því sem hægt er, með nýjum rannsóknum, þar með uppgrefti, hvort líklegt sé, að þarna hafi verið bæjarstæði Ingólfs Arnarsonar. Og þá tel ég, að það beri að taka fram berum orðum, að það sé sú framkvæmd, sem ætlazt sé til, að ráðizt sé í. Og ef menn eru ásáttir um, að svo sé gert, þá tel ég, að einnig sé rétt að taka það fram berum orðum, að lóðirnar skuli keyptar, ef það er ætlun manna, og þá e. t. v. að setja um þetta löggjöf, til þess að fá eignarnámsheimildina. En eins og till. er nú, finnst mér hún vera einkennilega hugsuð og óframbærileg að orðfæri, þannig að ég treysti mér ekki til að greiða henni atkv. En ég vildi, að hv. n. tæki till. aftur til athugunar í sambandi við þær aths., sem hér hafa komið fram.