13.04.1950
Sameinað þing: 38. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 276 í D-deild Alþingistíðinda. (3836)

100. mál, lóðakaup í Reykjavík

Frsm. (Finnur Jónsson):

Herra forseti. Ég vildi, út af ítrekuðum ummælum, fyrst frá hv. 5. þm. Reykv., um að bæjarráð Reykjavíkur hefði samþykkt um þetta mál einhverja umsögn, og síðar fullyrðingum frá hæstv. dómsmrh. um, að allshn. hefði stungið þessari umsögn undir stól, og ítrekuðum ásökunum um það frá hv. þm. Barð., lýsa því yfir, að þegar allshn. hafði þetta mál til afgreiðslu, hafði enn engin umsögn borizt frá bæjarráði Reykjavíkur. Ég vil þess vegna fyrir hönd n. lýsa það alger ósannindi, hver sem fer með það, að allshn. hafi stungið slíkri umsögn undir stól. Ég hef undir ræðu hæstv. dómsmrh. brugðið mér hér fram á skrifstofu Alþ. og spurt eftir þessu, hvort þessi umsögn hafi komið, eftir að n. hafði málið til athugunar, og fengið það svar, að slík umsögn lægi ekki fyrir.

Annars hygg ég, að bæði hv. flm. og allshn. megi vel við una undirtektir þær, sem þessi till. hefur fengið. Því að bæði hefur hv. þm. Borgf., sem hægt er að taka mjög alvarlega í þessu máli, og hæstv. dómsmrh. lýst sig samþykka efni till. Hv. þm. Borgf. vildi að vísu telja till. heldur þýðingarlitla, vegna þess að það væri ákveðið af hálfu skipulagsstjóra, að á þessum stað ættu að rísa myndarlegar byggingar. Ég er honum ekki alveg sammála í þessu. Ég hygg, að það sé ekki sama, til hverra nota þær væntanlegu, myndarlegu byggingar eru hafðar. Komi það í ljós við nánari rannsókn á þessu, sem væntanlega verður framkvæmd — ekki sízt eftir undirtektir hæstv. dómsmrh. undir þetta mál —, að þarna sé bæjarstæði Ingólfs Arnarsonar, þá hygg ég, að það skipti nokkuð miklu máli, hvers konar byggingar þar yrðu reistar, hvort það eru byggingar, sem hafa menningarþýðingu fyrir þjóðina, eða einhverjar byggingar fyrir einhverjar skrifstofur eða verzlun eða til annarra dægurafnota. Ef farið er út í að reisa byggingar á þessum stað, eftir að sannazt hefði, að þar hafi verið fyrsti landnámsbær á Íslandi, bær Ingólfs Arnarsonar landnámsmanns, þá trúi ég því ekki, að það væru margir þm. hér á hæstv. Alþ., sem ekki hefðu vilja fyrir því að láta gera þarna eitthvað til minningar um helgi staðarins, eins og gert er ráð fyrir í þessari till.

Það má vel vera, að hæstv. dómsmrh. hafi fundið eitthvað til þess, að hann sem verndari Reykjavíkurbæjar og borgarstjóri í þessum bæ hafi ekki sýnt þessu máli nógu mikinn sóma, og þess vegna gerzt svo gamansamur eins og hann gerðist. Þó var ekki að finna annað en að hann væri till. samþykkur, þar sem hann komst svo að orði, að frumefni till. gæti vel staðizt. Ég hygg, að þessi till. sé ekki verr orðuð en till. eru hér yfirleitt á Alþ., og það getur ekki verið neinn vandi fyrir Alþ. samþ. hana eins og hún liggur fyrir, og það því fremur sem búið er að breyta fyrirskipununum, sem í till. voru, í heimildir, þannig að engin ríkisstjórn þarf að ganga lengra í þessu máli, hvorki um það að lesa bækur eða rit né heldur í fjárútlátum, heldur en hún treystir sér til hverju sinni.