13.04.1950
Sameinað þing: 38. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 279 í D-deild Alþingistíðinda. (3838)

100. mál, lóðakaup í Reykjavík

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Það var nokkur þjóstur í hv. 3. landsk., en eftir þá háðulega útreið, sem till. hans hefur fengið, þá bætir hann ekki fyrir sér með því klámhöggi, sem hann reyndi að koma á mig um það, að ég hefði vanrækt að framkvæma alþingissamþykkt frá 1937. Ég varð ekki borgarstjóri fyrr en á árinu 1940, og má hver lá mér sem vill, þótt ég myndi ekki eftir samþykkt frá Alþingi, sem gerð var þremur árum áður. En hv. þm. hefði allra sízt átt að rifja þetta upp, ef hann hefði athugað, hver er meðflutningsmaður hans að till., og ef hann hefði vit á að athuga, hver var ráðherra þessara mála 1937, en það var einmitt Haraldur Guðmundsson, meðflm. hv. þm.till., og ef einhverjum á að kenna um það, að þál. var ekki framkvæmd, þá er það Haraldur Guðmundsson. Ég ber þó engar sakir á hann í þessu efni, en till., sem þá var flutt, var ekki til gamans, eins og þessi, og samin af lagnari mönnum, sem ekki urðu sér til athlægis, en það þýðir ekki að samþ. slíkar till., ef ekkert fé er til framkvæmdanna, og Haraldur Guðmundsson er ekki ámælisverður, þótt hann gæti ekki framkvæmt þál. frá 1937, en hv. þm. ætti ekki að ásaka mig fyrir að framkvæma ekki það, sem meðflm. hans átti að gera. Svona málflutningur er alveg óhæfur. Ég met þennan hv. þm. í mörgu, en hann á ekki að koma með svona fjarstæður. Ég ætlaði ekkert að særa, þótt ég benti á, að orðalagið á fyrri hluta till. væri ambögulegt. Hann sagðist hafa samið það sjálfur, enda er ólíklegt, að Haraldur Guðmundsson hefði gert það. En það kann að vera, að tveir höfundar væru að till., því að í byrjun segir svo (með leyfi hæstv. forseta): „Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að leita um það álits sérfróðra manna, hvort eigi megi telja líklegt eða fullvíst, að bæjarstæði Ingólfs Arnarsonar hafi verið í Grjótaþorpinu, eða um það bil, sem nú stendur húsið Grjótagata 4.“ Hv. þm. segir, að þetta sé rétt mál, og má það vera, en það er ósköp ambögulegt og verður hrein vitleysa, ef borið er saman við síðari hlutann, þar sem segir: „Sé það álit fræðimanna“. Hvað? Að eigi megi telja líklegt, að bæjarstæði Ingólfs hafi verið í Grjótaþorpinu.

Sem sagt, ef upplýst er, að þarna hafi bæjarstæðið ekki, verið, þá á að gera ráðstafanir til að kaupa lóðirnar. Þannig er þetta eftir íslenzku máli. Það má vera, að eitthvað annað hafi vakað fyrir hv. þm., en þetta sér hver maður með barnaskólamenntun, og er furðulegt, að hv. þm., maður með doktorspróf frá Þýzkalandi, skuli ekki finna þetta upp á eigin spýtur. Hann ætti ekki að vera að koma hér fram með rembing, og væri honum sæmra að láta minna yfir sér. En það hefur alltaf verið talið og er raunar sannað, að þarna voru bæjarhúsin, og það er ástæðulaust að fara nú að leita álits um það, sem er löngu sannað, m. a. með uppgreftinum vegna Steindórsprents, og allra sízt, þegar uppgröftur er ekki nefndur í till. Það er fyrst, þegar sýnt er, hvað barnaleg till. hv. þm. er, að hann dettur í sinni fallhlíf ofan á það, að þarna eigi að efna til uppgraftar, en í till. var ekki minnzt á að grafa, heldur átti að heimila ríkisstj. að lesa skrif fræðimanna um þessi efni. Annars ætlaði ég ekki að kappræða þetta mál hér eða særa hv. þm., en það er, eins og vant er, að sá, sem fer óvarlega, hittir oft eigin menn, og ég held, að svo miklar upplýsingar hafi nú fram komið í málinu, að Alþingi geti ekki samþ. till. eins og hún er. Mig langar ekkert til að vera á móti þessari till., en það er vægasta aðferðin, sem hún verður beitt, að henni verði vísað aftur til n. til betri athugunar.