13.04.1950
Sameinað þing: 38. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 280 í D-deild Alþingistíðinda. (3839)

100. mál, lóðakaup í Reykjavík

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Ég ætlaði mér ekki að taka til máls um þessa till., en hv. þm. Barð. hélt því fram, að með samþykkt till. væri verið að gera kröfur á ríkissjóð og binda honum þungar byrðar, og hv. 1. þm. N-M. tók undir þetta, og eru það út af fyrir sig tíðindi, að þessir hv. þm. skuli vera sammála, en það er því einkennilegra, að báðir skuli þeir vera sammála um þetta, að fyrir því eru engin rök. Þótt till.samþ., þá leggur það engar skuldbindingar á ríkissjóð, og þurfa menn ekki annað en lesa till. til þess að sannfæra sig um það. Þar segir:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að leita um það álits sérfróðra manna, hvort eigi megi telja líklegt eða fullvíst, að bæjarstæði Ingólfs Arnarsonar hafi verið í Grjótaþorpinu eða um það bil þar, sem nú stendur húsið Grjótagata 4. Sé það álit fræðimanna og komi í ljós, að Reykjavíkurbær hafi ekki í hyggju að gera ráðstafanir til þess að eignast þessa lóð og næstu lóðir, t. d. til þess að reisa þar ráðhús eða annað opinbert stórhýsi, ályktar Alþingi að fela ríkisstjórninni að leitast við að fá keyptar þessar lóðir og hús þau, er á þeim standa, svo að síðar verði hægt að reisa þar opinbera byggingu eða hagnýta þær á annan hátt, er hæfi helgi staðarins.“

Henni er ekki ætlað að kaupa lóðirnar, heldur athuga möguleikana á því að fá þær keyptar, og þótt ríkisstj. gæti komizt að aðgengilegum samningum, þá yrði hún aftur að leita til Alþingis um heimild til að kaupa lóðirnar. Það verður sem sagt að leita heimildarinnar hjá Alþingi, og ef ekki er fé fyrir hendi í ríkissjóði, þá verður að leita lánsheimildar hjá Alþingi. Þetta hygg ég, að allir muni skilja, og allshn. eða a. m. k. meiri hluti hennar telur alveg áhættulaust að samþ. till., því að ríkisstj. verður að koma aftur til Alþingis til að leita kaupheimildarinnar, og hæstv. utanrrh. var einmitt á þessari skoðun, því að hann sagði, að í till. fælist engin heimild til að kaupa þessar lóðir, og stangast þetta við það, sem hv. þm. Barð. og hv. 1. þm. N-M. sögðu í sinni fullyrðingu, að till. hefði í för með sér tugmilljóna útgjöld. Hvað á allt þetta skraf að þýða og allur sá orðaleikur, sem hér hefur verið? Þegar málið var til athugunar í nefnd, þá gerði ég till. um það, að í stað þess að fela ríkisstj. þessar framkvæmdir, þá eigi ríkisstj. að fá heimild til þessa, og eftir það þarf ekki annað en bera dálítið traust til hæstv. ríkisstj. til þess að hættulaust sé að samþ. þetta. Flokkur, sem ekki er stuðningsflokkur hæstv. ríkisstj., mælir fastast með þessu, að veita ríkisstj. þessa heimild, en ekki stuðningsmenn hennar. Þetta er dálítið einkennilegt. Hv. þm. Borgf. taldi þó till. skaðlausa eftir þessa breytingu, að hafa „heimila“ í staðinn fyrir fela, og hæstv. utanrrh. hefur viðurkennt efni till. Ég skal ekki fullyrða, að till. verði til þess að bera árangur frekar en þál. frá 1937, en hún er alveg hættulaus og meinlaus og ég fordæmi fullyrðingar hv. þm. Barð. og ég fordæmi fullyrðingar hv. 1. þm. N-M. um það, að það beri vott um gáleysi í fjármálum að samþ. þessa till. Ég fordæmi slíkar fullyrðingar án raka, og það er rétt að fordæma einnig þann orðaleik, sem hér hefur orðið í hv. Alþingi um þetta mál. Í sambandi við það, að stungið hafi verið undir stól álitsgerð frá bæjarstjórn Reykjavíkur, þá er það ekki rétt, því að hún liggur ekki fyrir, en þá má spyrja, hvers vegna n. hafi ekki beðið eftir álitsgerðinni. Málið var sent til umsagnar í þrjá staði fyrir löngu, og svör frá tveimur aðilum komu fljótt, en ekki frá þeim þriðja, og þá áleit n., að ekki væri ástæða til að bíða lengur, sérstaklega af því, að n. áleit till. á engan hátt geta skaðað stjórn Reykjavíkurbæjar.

Ég álít að samþykkt till. sé ekki hættuleg fyrir Reykjavík eða bæjarstjórnina. Ég rökstyð það með því, að bæjarstjórnin áleit ekki vera þörf á því að svara n. Ef bæjarstjórnin hefði talið málið hættulegt, hefði hún flýtt sér að svara og rökstutt rækilega, af hverju hún væri því mótfallin. Ég er Reykjavíkurbæ mjög hlynntur, en ég álít, að það sé engin hætta fyrir bæinn, þó að þessi till.samþ. Þess vegna lagði ég til, að málið væri afgr. frá allshn., þótt ekki hefði borizt svar frá bæjarstjórninni. — Það hefur verið talað um það, að eðlilegt væri, að till. yrði aftur vísað til allshn. Ég tel það ekki eðlilegt og álít, að Alþ. eigi að taka ákvörðun um till., enda þótt málhreinsunarmenn hafi um það deilt, hvort málið á till. sé forsvaranlegt. Ég get fallizt á það með hæstv. dómsmrh., þó að ég hafi bara barnaskólamenntun í íslenzku, að till. hefði getað verið betur orðuð. En ég held, að ef till. er borin saman við ýmislegt annað. sem hér hefur verið samþ., þá þurfi Alþ. ekki að skammast sín fyrir að samþ. hana (HV: Jafnvel ekki, þó hún væri borin saman við það, sem ráðh. skrifar.), án þess þó að ég vilji draga í land fyrir hæstv. dómsmrh. Ég tel ástæðulaust, að n. taki till. aftur til athugunar, og hún mun ekki gera það.