13.04.1950
Sameinað þing: 38. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 281 í D-deild Alþingistíðinda. (3840)

100. mál, lóðakaup í Reykjavík

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að svara ræðu hv. 2. þm. Rang., en ég vildi biðja hann að athuga fasteignamat lóða í Grjótaþorpinu og söluverð lóða í miðbænum, og athuga síðan niðurstöðurnar af því. Annars var það ekki af þessari ástæðu að ég kvaddi mér hljóðs. Ástæðan til þess var sú, að ég er á móti till. eins og hún er nú og tel, að hún verði að vera í öðru formi, ef á að samþ. hana. Ég er með því, að rannsakað sé, hvort bæjarstæði Ingólfs Arnarsonar hafi verið þar, sem nú er Grjótagata 4, og með þeirri rannsókn sé gengið úr skugga um það. En ég er á móti því, að þarna sé reist stórhýsi, ég vil að þar verði reistur bær í sama formi og fornmenn byggðu. Ef ég kæmi hér sem útlendingur og mér væri sagt, að þarna væri fyrsti bær á Íslandi, værí um þjóðlegar minjar að ræða, sem mér mundi leika forvitni á að skoða, en mér mundi þykja minna til þess koma að skoða þarna stórhýsi. Sama mundi mörgum Íslendingum finnast. Ég styð því ekki till. um, að ríkið kaupi þessar lóðir til þess að byggja þar stórhýsi, hvort sem um er að ræða ráðhús eða eitthvað annað. Ég vil láta byggja þarna bæ með líku sníði og Ingólfur Arnarson byggði, eftir því er við bezt vitum. Ég mundi geta stutt till. þannig breytta. Fyrst er að athuga, hvort bærinn hefur staðið þarna, og ef svo er, þá á að byggja bæ í líku sniði sem sýnishorn þess, hvernig fyrst var byggt í Reykjavík.