12.01.1950
Efri deild: 28. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 177 í B-deild Alþingistíðinda. (385)

81. mál, ríkisábyrgð á útflutningsvörum bátaútvegsins o.fl.

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Virðulegi forseti. Ég get ekki séð, að samþykkt þessarar till. stafi frekar af mér en öðrum, sem greiddu atkvæði með henni. Ég gerði grein fyrir því við 2. umr., að öll afstaða mín til málsins markaðist mjög af því, að ég teldi hér um bráðabirgðaráðstöfun að ræða, og mætti ekki vera hér um annað að tala. Ég veit nú ekki, hvort þessi breyting orsakar eins há gjöld úr ríkissjóði og hv. þm. Barð. vill vera láta, ef það getur staðizt, sem ráðgert er, að endurskoða þessa löggjöf áður en næsti mánuður er úti. Hef ég áður gert grein fyrir því, að ég tel skyldu að samþykkja þá einnig heildartekjur handa ríkissjóði til þess að standa straum af útgjöldum. Og ef þetta á að vera svo mikil synd, þá eru margir orðnir syndugir, — því að jafnvel með þál., hvað þá lögum, er stundum bætt við hærri upphæðum en hér er um að ræða.

Ég ætla ekki frekar að orðlengja þetta, en vil þó bæta því við, að mér skilst, að hvað sem er um ríkissjóð, þá hljóti það að kosta þjóðina eitthvað svipað, hvort sem féð er tekið inn í ríkissjóð með sköttum eða hækkuðu vöruverði. Þá skilst mér illa, að það þurfi að hafa sérstakan embættismann við hvern bát, ef lifrin er óflokkuð, og mundi ég hafa hugsað mig um, ef svo þyrfti að vera. En ég hef ekki trú á því. Og það kynni þá að þurfa eitthvert eftirlit, þótt brtt. hv. þm. Barð. yrði samþ.