08.02.1950
Sameinað þing: 24. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 294 í D-deild Alþingistíðinda. (3858)

108. mál, almannatryggingar

Flm. (Steingrímur Aðalsteinsson):

Herra forseti. Ég get verið mjög fáorður um þáltill., sem hér liggur fyrir á þskj. 293 og ég flyt ásamt hv. 2. þm. Reykv. og hv. 5. landsk. þm. Eins og þáltill. sjálf ber með sér, er hún borin fram að gefnu tilefni, þ. e. a. s. því tilefni, að hæstv. fjmrh. hefur lýst fyrir Tryggingastofnun ríkisins þeim skilningi sínum á ákvæði 116. gr. l. um almannatryggingar, að ef tekjuafgangur verður hjá Tryggingastofnuninni, þá beri henni að endurgreiða hann til ríkissjóðs, vegna þess að ákvæði 116. gr. l. sé þannig, að fjárframlagið, sem eftir henni er ákveðið, sé aðeins áætlunarupphæð. Eins og greinargerð till. ber með sér, þá telja flm., að þetta sé rangur skilningur á viðkomandi lagagrein og að það hafi áreiðanlega ekki verið ætlun Alþ., þegar l. um almannatryggingar voru sett, að sú gr. yrði skilin eins og hæstv. fjmrh. virðist gera, enda mundi það torvelda Tryggingastofnuninni mjög alla starfsemi sína, því að ef þannig yrði farið að, mætti hún aldrei hafa neinn tekjuafgang og gæti aldrei safnað neinum sjóðum til starfsemi sinnar. Það hefur komið fram, ekki aðeins frá tryggingaráði, heldur einnig borið mjög á góma hjá Alþ. í sambandi við afgreiðslu annarra mála, að þessi skilningur ráðh. muni vera rangur, og ég geri þess vegna ráð fyrir, að engin þörf sé á því að halda hér langa ræðu til að sannfæra hv. alþm. í því efni, heldur mun það nú, eins og þegar tryggingal. voru sett, vera tilætlun þingsins, að framlag ríkisins, sem ákveðið er í þessari lagagr., sé á hverjum tíma eign Tryggingastofnunarinnar og henni frjálst til ráðstöfunar, hvort sem tekjuafgangur verður eitt ár eða ekki. Ég vil sérstaklega benda á það, að tekjur Tryggingastofnunarinnar koma víðar að, en frá ríkissjóði, og ef ætti að fara inn á þá braut, að Tryggingastofnunin fengi ekki tekjuafganginn, heldur endurgreiddi hann til þeirra, sem hún fær féð frá, þá ættu að vísu fleiri aðilar en ríkissjóður að fá þetta fé, það ætti líka að fara til bæjarfélaga, sem leggja fram verulegt fé til trygginganna, og til einstaklinga, sem borga sín iðgjöld, og til atvinnurekenda, sem borga sérstök gjöld til trygginganna vegna slysatrygginganna. — Ég tel ekki ástæðu til að fara frekar út í einstök atriði þessa máls, vegna þess að ég tel víst, að hv. alþm. séu okkur flm. sammála um það, að Tryggingastofnunin eigi að hafa þetta fé. En þar sem slíkur ágreiningur hefur komið fram um þetta, og að því er ég bezt veit till. frá fjmrh. um að fá þetta fé endurgreitt, höfum við talið rétt, að Alþ. tæki enn á ný ákveðna afstöðu til málsins á formlegan hátt, þar sem skýlaust væri úr því skorið, hvernig skilja bæri þessa lagagrein. Ég vil því vænta þess, að þessi þáltill. fái greiðan gang í gegnum þingið, þannig að það verði á ótvíræðan hátt úr því skorið, hvernig um þetta skuli fara. — Ég vil leyfa mér að leggja til, að þáltill. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og fjvn.