08.02.1950
Sameinað þing: 24. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 295 í D-deild Alþingistíðinda. (3859)

108. mál, almannatryggingar

Forsrh. (Ólafur Thors):

Ég vildi aðeins í tilefni af ummælum hv. 1. flm. þessarar till. vekja athygli á því, að sá ágreiningur, sem kann að vera um skilning á 116. gr. l. um almannatryggingar, hann stafar ekki af neinum persónulegum skilningi, hvorki fyrrverandi fjmrh. né núverandi á þessum l. né tilhneigingu þeirra til að hafa fé af Tryggingastofnuninni, heldur vegna hins, að þeir embættismenn ríkisins, sem eðli málsins samkvæmt eiga um þetta að fjalla, hafa vakið athygli þessara ráðh. á því, að réttur skilningur l. mundi vera sá, að þetta ágreiningsfé ætti að falla til ríkisins, en ekki Tryggingastofnunarinnar, og fjmrh. hefur auðvitað sína skyldu á hverjum tíma að taka til athugunar slíkar bendingar, þar til málið er fullkomlega rannsakað frá lögformlegum aðila, sem að hálfu ríkisins á um þetta að fjalla. Ég held því, að allur sá þytur, sem orðið hefur um þetta mál, sé ástæðulaus, ef niðurstaða málsins verður — svo sem hlýtur að verða — sú, sem þessi till. fjallar um, og sú, sem einnig er af annarra hendi gerð tilraun til að slá fastri sem skilningi Alþ. í sambandi við afgreiðslu annars máls. Ég skal segja það sem mína persónulegu skoðun, og ég hef haft aðstæður til að kynna mér þetta dálítið, vegna þess að ég hef þessar síðustu vikur verið félmrh., að þetta mál er mjög harðsótt af hendi forstöðumanns Tryggingastofnunarinnar, sem einnig á sæti hér á Alþ. nú. Fyrir hans atbeina hef ég haft sérstaka ástæðu til að kynna mér þetta mál. Hann hefur, frá því málið bar á góma, einskis látið ófreistað til að skýra frá, ekki aðeins hinni lögformlegu hlið, heldur og eðli málsins. Vegna þeirra kynna, sem ég hef haft af þessu máli, skal ég játa, að ég hef tilhneigingu til að álíta, að a. m. k. orki tvímælis um skilning á 116. gr. frá lagalegu sjónarmiði. En aftur á móti er hitt alveg jafnbert, í sambandi við skilning á þessu ákvæði, að það er engin skynsamleg leið til fyrir löggjafann önnur en sú að halda fast við að tryggja, að framkvæmdin verði samkvæmt því, sem Tryggingastofnunin í öndverðu hafði óskað eftir, og ég held, að ég þori að fullyrða, að menn geti að því leyti verið áhyggjulausir um afdrif málsins, að bæði núverandi stj. og þeir aðrir, sem um þetta mál fjalla, séu ekki að ljúka málinu á annan hátt heldur en þann. Ég get þess vegna ekkert haft á móti till., — ég tel rétt, að hún fari til n., um leið og ég endurtek, að málinu er borgið í hendi Alþ. í sambandi við afgreiðslu annars máls, og um leið og ég læt í ljós þá persónulegu skoðun, að ég hygg, að án afskipta Alþ. mundi niðurstaðan verða sú sama, af því að það er eðli málsins, af því að það eru einu búhyggindin af hendi fjmrh. á hverjum tíma að framkvæma þetta eins og þessi gr. fjallar um, og ber margt til, t. d. að ef tekinn er varasjóður af Tryggingastofnuninni, þá er að sama skapi þyngd ábyrgð ríkissjóðs samkvæmt 116. gr., auk þess sem það er rétt, að ef þetta mál fer fyrir Alþ. sem deilumál, þá verður aldrei sá háttur hafður, að þessu yrði skipt þannig, að ríkissjóður hefði allt, en Tryggingastofnunin ekkert. Því að grundvöllurinn undir þessari lagasetningu var viss hlutfallaskipting, að skipta byrðunum í vissum hlutföllum milli þeirra aðila, sem l. fjalla um, og ef skilningur sá, sem endurskoðun ríkisins hefur bent á, ætti að verða ráðandi sjónarmið í málinu, þá leiðir af því, að grundvöllurinn undir skiptingu byrðanna raskast algerlega, þannig að þessar upphæðir kæmu ekki, þó að menn sviptu Tryggingastofnunina þessum tekjum, ríkissjóði til tekna nema að nokkru leyti; aðrir aðilar fá sinn hlut. Það er ógerlegt af ríkissjóði að gera þetta; þvert á móti er sjálfsagt að gleðjast yfir því, að stjórn Tryggingastofnunarinnar hefur farið svo vel úr hendi, að hún hefur getað safnað sjóðum, sem er forði frá velsældarárunum til hallærisáranna, sem áreiðanlega er þörf fyrir af tvennum ástæðum: Í fyrsta lagi vegna þess, að í öndverðu gera menn ekki þær kröfur til slíkra stofnana, sem þeir lögum samkvæmt hafa ýtrasta rétt til, og í öðru lagi vegna þess, að í góðæri gera menn síður kröfur til slíkrar stofnunar, heldur en þegar fer að harðna á. Ég segi þess vegna: frá hvaða sjónarmiði sem er finnst mér sjálfsögð skylda Tryggingastofnunarinnar og ríkisins og einnig búhyggindi fyrir Alþ., ríkissjóð og ríkisvaldið að hafa til fyrirmyndar ráðandi sjónarmið. Ég held, að þetta sé meira formleg deila heldur en raunveruleg.