08.02.1950
Sameinað þing: 24. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 297 í D-deild Alþingistíðinda. (3860)

108. mál, almannatryggingar

Flm. (Steingrímur Aðalsteinsson):

Herra forseti. Ég held, að það sé misskilningur hjá hæstv. forsrh., að ég hafi í framsöguræðu minni áðan fyrir þessari till. verið með nokkrar persónulegar árásir á fjmrh. Ég gat þess aðeins, að till. væri borin fram að gefnu því tilefni, sem hæstv. forsrh. viðurkenndi að hefði átt sér stað, að fjmrh. hefur gert kröfu um endurgreiðslu þessa fjár frá Tryggingastofnuninni, — önnur orð hafði ég ekki um fjmrh. í þessu sambandi, og ég tel það ekki neina persónulega árás á hann, þó að frá þessu sé skýrt, sem er grundvallaratriði í þessu máli. Hafi verið um einhverja árás að ræða á fjmrh., þá fannst mér það helzt koma fram í ræðu hæstv. forsrh. nú, þar sem hann talaði um, að það væru áreiðanlega lítil búhyggindi hjá fjmrh. að gera slíkar kröfur sem þessa, og um það held ég að við séum sammála. Annars er ekki ástæða til að fjölyrða um þetta mál; það liggur ljóst fyrir og ég geri ráð fyrir, að hv. alþm. séu flestir þegar búnir að skapa sér um það ákveðna skoðun, og þar sem nú m. a. kom fram í ræðu hæstv. forsrh., að hann er alveg á sömu skoðun og flm. málsins, þá vænti ég þess, að ekki verði nein fyrirstaða hjá Alþ. á að afgr. þessa till. á þann hátt, sem við flm. óskum eftir.