08.02.1950
Sameinað þing: 24. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 298 í D-deild Alþingistíðinda. (3863)

109. mál, Helicopterflugvél

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Aðdragandi máls þessa er langur. Hefur það verið til athugunar undanfarin ár að flytja hingað til lands helicopterflugvél. Slysavarnafélag Íslands hefur hvað mest beitt sér fyrir þessu og hefur m. a. safnað fé í sjóð til kaupa á slíkri flugvél. Með stuðningi ríkisvaldsins varð það úr á síðastl. ári, að ein slík vél var fengin hingað til lands til reynslu, án þess þó að neinar skuldbindingar væru fyrir hendi um að kaupa vélina. Um 150 þús. kr. voru veittar úr ríkissjóði vegna þessarar tilraunastarfsemi, sem ákveðin var með vél þessa, og með vélinni var fenginn erlendur flugmaður. Meðal annars var athugað, hvort hægt væri að nota vélina til landhelgisgæzlu, sem og annarra verka, sem að gagni mundu verða, því að Slysavarnafélag Íslands hefur bent á, hve hentug þessi vél væri til aðstoðar við björgun og leit að mönnum o. fl. Þó er þess að gæta, að vél sem þessi, sem hingað kom, getur ekki flogið, ef mjög er hvasst, og hefur mér skilizt það vera hámarks vindhraði 7–8 vindstig, ef hún geti athafnað sig. Hins vegar er það greinilegt, — en það vildi nú svo til, að ég flaug með vélinni smáspöl síðastl. sumar, og get því talað um það af eigin raun —, að vélin getur tekið sig upp af einni þúfu og setzt þar svo aftur, svo að greinilegt er, að flugvélin getur orðið að notum þar, sem venjuleg flugvél kemur ekki að haldi. Sumir hafa talið vélina veigalitla og bent á, að hún sé lítil sjálf, og m. a. gæti hún ekki haft fullkomna áhöfn, sem annaðist mælingar landhelgisgæzlunnar, og yrði því flugmaðurinn að bera vitni um það, að staðarákvörðun væri rétt mæld. Eins er og það, að vélin komi ekki að gagni í sjúkraflutningum. Hins vegar er það álit mitt, að hún geti þar orðið að verulegu liði. Allmargar óskir hafa verið um það, að keypt yrði veigameiri vél. Vitaskuld yrði hún mun dýrari í innkaupi og í rekstri. Auk þessa er vafasamt, hvort slík vél kæmi að meira gagni en þessi vél. Það er skoðun þeirra manna, sem kynnt hafa sér þær tilraunir, sem fram hafa farið með helicoptervél þessa, að rétt sé að vinna að því, að vélin verði keypt. Slysavarnafélag Íslands hefur lagt áherzlu á, að vélin verði keypt, og vill verja til kaupanna því fé, sem safnazt hefur í helicoptersjóð félagsins. Vegna gengisbreytingar þeirrar, sem varð á íslenzkri krónu gagnvart bandarískum dollar á liðnu hausti, mun þó nokkuð vanta á, að helicoptersjóðurinn hrökkvi fyrir verði vélarinnar. Hefur Slysavarnafélagið því farið fram á það, að ríkið bæti við rannsóknarfé það, sem veitt var, um 50 þús. kr. Hins vegar mun þetta þó ekki vera skilyrði fyrir því, að kaupin verði gerð, heldur ber að líta á þetta sem málaleitun. Hins vegar hefur svo stjórn Slysavarnafélagsins lýst því yfir, að félagið treysti sér ekki til þess að annast rekstur vélarinnar. Hefur félagsstjórnin því snúið sér til ríkisstj. og beiðzt þess, að ríkið kostaði úthald vélarinnar, en sá kostnaður er áætlaður um 240 þús. kr. á ári. Þetta var athugað nokkuð í fyrrv. ríkisstj., en hún taldi ekki hægt að samþykkja slíka fjárveitingu án samþykkis fjvn. og Alþingis. Fyrrv. menntmrh., sem þá fór með flugmál, bar málið undir fjvn., og mælti hann með því, að ríkið kostaði rekstur vélarinnar, þó að kostnaður yrði þetta mikill árlega. Málið var því lagt fyrir fjvn. í haust, og hefur það legið þar síðan til rannsóknar. Árangurinn af rannsókn n. á málinu er sá, að n. hefur tví- eða þríklofnað í afgreiðslu þess. Fjórir nm. hafa mælt með málinu, tveir nm. hafa lýst sig andvíga því, að þessi vél yrði keypt, einn. nm. sat hjá, og tveir nm. vilja taka málið upp í sambandi við Slysavarnafélag Íslands, þannig að félagið taki rekstrarkostnað vélarinnar á sig að hálfu á móti ríkinu. Svo sem sjá má af þessu, fóru till. n. svo mjög á dreif, að þó að líklegt mætti telja, að meiri hl. þm. mundi samþ. till., þá var það ekki öruggt. Hér er um að ræða það verulega fjárhagslega skuldbindingu fyrir ríkissjóð, að ég hef talið óverjandi að binda slíkan bagga án þess, að Alþingi taki sjálft ákvarðanir um þetta. Vegna þessa hef ég hlutazt til um, að þessi till. til þál. yrði flutt.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fara um þetta fleiri orðum. Það er aðkallandi, að ákvörðun verði tekin um mál þetta. Helicoptervélin er búin að vera hér lengi, og eigendur vélarinnar hafa kallað eftir henni, svo fremi að ríkið kaupi hana ekki þegar í stað. Þess vegna vil ég mælast til þess, að málinu verði hraðað, en geri það að till. minni, að málinu verði vísað til fjvn., að þessari umr. lokinni. Þar sem fjvn. er þegar búin að hafa þetta mál áður til meðferðar og umsagnar og hefur þegar skýrt dómsmrn. frá niðurstöðum sínum, þá ætti n. að geta afgreitt málið mjög fljótlega. Það er þinglegri meðferð á málinu, og getur þá hv. fjvn. gefið út nál. og meiri hl. og minni hl. n. komið fram með skoðanir sínar á þessu máli, sem getur um í bréfinu til dómsmálaráðuneytisins.