08.02.1950
Sameinað þing: 24. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 299 í D-deild Alþingistíðinda. (3865)

109. mál, Helicopterflugvél

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég get nú ekki gefið þær upplýsingar, sem hv. þm. Ísaf. (FJ) bað um, sérstaklega af þeirri ástæðu, að ég hygg, að engin reynsla sé fengin um það, hvort stærri vélar mundu koma að meira gagni. En um þetta atriði veit ég að eru uppi tvennar skoðanir hér á landi. Ég legg því til, að við spörum okkur umr. um þetta nú. Hins vegar veit ég, að ágreiningur var um þetta atriði í fjvn. í fyrra og tveir hv. nm. gerðust talsmenn stærri véla, sem aðrir álitu óhæfilega dýrar og ekki heppilegar. Ég get ekki greint á milli þessara skoðana að svo komnu máli, en hygg hins vegar, að mestur gróði sé í því fyrir bæði mig og hv. þm. Ísaf. að heyra þá sérfræðinga, sem í fjvn. eru, leiða saman hesta sína, og gera síðan endanlega út um þetta, því að ég þykist vita, að þeir hafi viðað að sér upplýsingum í sambandi við þetta. Ég vonast svo til, að hv. þm. Ísaf. lái mér ekki, þótt ég vilji heldur heyra fyrst í þeim, frekar en ég fari hér að vera eins konar skuggi af þeirra athugasemdum.