29.03.1950
Sameinað þing: 37. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 312 í D-deild Alþingistíðinda. (3878)

109. mál, Helicopterflugvél

Frsm. meiri hl. (Helgi Jónasson) :

Herra forseti. Það er nú orðið nokkuð langt síðan þetta mál var síðast rætt hér á Alþingi, svo að ég er nú búinn að gleyma sumu af því, sem hv. frsm. minni hl. sagði þá í sinni löngu ræðu. Hann reyndi þó að sanna það, að meiri hl. hefði farið með rangt mál. En svo var öllum málum snúið öfugt hjá hv. þm. Barð. (GJ), að málflutningur hans minnti mig mjög á þá gömlu reglu, sem var í hávegum höfð á miðöldunum, að tilgangurinn helgi meðalið. Hv. þm. reyndi með mörgum orðum að sýna fram á það, að við meirihlutamenn færum með rangt mál, og öll málfærsla hans var svo einstrengingsleg, að furðu sætir. En þessum hv. þm. datt ekki í hug að reyna að upplýsa málið á nokkurn hátt, heldur notaði hann sín sterkustu orð til að sverta álit meiri hl., en fegra sitt. Það var ekki verið að reyna að finna, hvað væri hið sannasta og réttasta í málinu. Hv. þm. las upp ýmisleg bréf og aðrar umsagnir sérfróðra manna, er áttu að styrkja skoðun hans. En það má einkennilegt heita og er þó skýrt dæmi um allan hans málflutning, hvernig hann las þessi bréf. Hv. þm. gleymdi sem sagt að lesa allt það, sem var sjálfum honum andstætt. Þannig er ást hans á sannleikanum.

Hv. frsm. minni hl. byrjaði á því að segja, að Slysavarnafélag Íslands hefði farið klóklega að, er það sá um, að helicopterflugvélin hafi ekki komið hingað til lands fyrr en sumar var komið. Mann rekur í rogastanz, er Slysavarnafélagi Íslands er borið annað eins og þetta á brýn. Veit ekki hv. þm., hvernig verzlunar- og viðskiptaháttum er hér fyrir komið, að það getur dregizt í marga mánuði að fá innflutningsleyfi? Nú fékk Slysavarnafélagið ekki vilyrði fyrir vélinni, fyrr en snemma á árinu 1949. Síðan dróst þetta svo á langinn, að vélin kom ekki hingað fyrr en í maí 1949. Þá þegar var byrjað að setja vélina saman. Síðan var hún reynd hér í 3 mánuði, að vísu yfir sumarmánuðina, og ég skal játa það fúslega, að æskilegra hefði verið, að vélin hefði verið reynd á öðrum tíma árs. En ég tel alls ekki, að Slysavarnafélagið eigi sök á þessu. Það gat ekki fengið vélina leigða nema í 3 mánuði.

Þá hélt hv. þm. því fram, að flugvélin hefði ekki þolað nema 2 vindstig. Sér er nú hver vitleysan og tilraun til blekkingar. Það er vitað mál, að það liggja fyrir skjöl, sem sanna, að vélin hafi flogið í 6 vindstigum. Og sá maður, sem stýrði henni þá, lætur mjög af því, hversu vel hún lét að stjórn. Þá hef ég og haft tal af manni, sem reyndi vélina í Hvalfirði í 8 vindstigum, og hafði hann gott eitt um vélina að segja. Mér leizt mætavel á þennan unga mann og dettur ekki í hug að bera brigður á frásögn hans. — Þá er og til skýrsla veðurstofunnar í Reykjavík, sem sannar, að það voru 6 vindstig, er vélin var hér á flugi. En þó sagði hv. þm., að allar skýrslur, sem fyrir hendi væru, sýndu það, að vélin væri óhæf. Þetta er ekki einungis rangt, heldur er þetta þveröfugt, því að Slysavarnafélagið og flugráð ríkisins hafa lýst því yfir, að þau telji árangurinn af reynsluflugi vélarinnar. sem var hér s. l. sumar, mjög góðan og vllja festa kaup á yélinni. Og þessar skýrslur sýna, að þær tilraunir, sem hér voru gerðar við björgun og landhelgisgæzlu, tókust mjög vel. — Ég vil nú leyfa mér að vitna hér í bréf, er taka þetta mál til umræðu. Í bréfi, undirrituðu af Pálma Loftssyni, forstjóra Skipaútgerðar ríkisins, segir, að góðan árangur megi telja af reynsluflugi vélarinnar, og mælir hann með því að festa kaup á henni. Þá er hér einnig bréf frá stjórn Slysavarnafélags Íslands, undirritað af Jóni Oddgeiri Jónssyni. Hann er einnig sama sinnis, að vélin hafi reynzt vel og ráðlegt sé að festa kaup á henni. Jón vann við björgunartilraunir vélarinnar, svo að hér talar maður, sem hefur góða aðstöðu til að segja álit sitt á málinu. Ég held, að óhætt sé að segja, að allir, sem um mál þetta hafa fjallað, vilja mjög gjarnan festa kaup á vélinni.

Hv. þm. Barð. hélt því fram, að vélin væri svo aum, að ekki væri hægt að fljúga á henni til Vestmannaeyja. En hið einkennilegasta við þetta er þó það, að í nál. hv. þm. er sagt frá flugferð, er vélin fór til Vestmannaeyja. Þá var að vísu gott veður, en svona málflutningur hélt ég væri vandfundinn hjá þingmanni.

Þá reyndi hv. þm, að bera fyrir sig bréf frá flugráði, sem hann hafði skrifað og fengið umsögn frá prívat. Aðalefni þessa bréfs er það, að þessi vél sé of lítil og þess vegna sé hún ekki heppileg. Flugþol hennar og benzíngeymir sé of lítið fyrir vegalengdir hér á landi. Nú veit maður, að vel er hægt að bjarga þessu við með því að setja benzíntunnur á vissa staði úti um land, svo að flugvélin geti tekið þar benzín, ef um lengra flug er að ræða. Þá ætti einnig að vera hægt að setja benzíngeymi á flotholt vélarinnar og auka þannig flugþol hennar. Með þessu móti eru þessar ástæður fallnar um sjálfar sig. Ég get ekki talið það neina frágangssök að setja benzíntanka á flotholtin og auka þannig flugþolið.

Hv. þm. Barð. vildi bregða á leik og fá hv. þm. til að hlæja með því að segja, að það væri hægt að nota hana til að úða skóg og annars þess háttar. Ég verð nú að segja það, að ég tel það ekki galla á flugvél, að hægt skuli vera að nota hana til margvíslegra starfa, heldur miklu fremur kost á vélinni. Í því liggur einmitt gildi vélarinnar, að hægt er að nota hana til margvíslegra hluta, og sé ég enga ástæðu til að hlæja að þessu, eins og hv. þm. Barð. var að reyna að fá hv. þm. til að gera. Ég held því, að þessi vél geti verið góð til annarra hluta fyrir því.

Ég held, að ég hafi nú drepið á það helzta, sem fram kemur í áliti minni hl. fjvn. Það kann að vera eitthvað fleira, sem fram hjá mér hefur farið eða ég hef ekki skrifað niður hjá mér. Meiri hl. n., sem mælir með kaupum þessarar vélar, er það vel ljóst, að hún er ekki það fullkomið tæki, að hún geti alltaf komið til hjálpar, en við erum þess fullvissir, að ef þessi vél væri alltaf reiðubúin til flugs, þá er hér um mikilsvert tæki að ræða til björgunar í ýmsum tilfellum, bæði á sjó og landi. Auk þess mun það vera vandkvæðum bundið að fá stærri vél keypta, og líklegt má það vera, að okkur reyndist erfitt af fjárhagslegum ástæðum að halda úti stærri vél, sem yrði mjög dýr í rekstri. Þær stærri vélar, sem hægt yrði að fá síðar meir, hafa ekki fengið hagnýta reynslu. Ég vona, að hv. þm. skilji, hvað vakir fyrir okkur, sem erum meðmæltir því, að þessi vél verði keypt. Þessi tegund hefur margra ára reynslu bæði í Bandaríkjunum og í Evrópu, og hefur hún hvarvetna gefizt vel. Við viljum því ekki taka þá ábyrgð á okkur að hafna alveg þessu tækifæri, að slík flugvél verði ætíð reiðubúin til starfa hér á landi. Verð hennar mun og vera viðráðanlegt, en þó að rekstrarkostnaður sé áætlaður nokkuð hár, þá er líklegt, að draga mætti úr honum með því að endurskoða kostnaðarliðina, þegar reynsla kemur á þessa starfsemi. Ég held, að varla sé hægt að lá það, þótt við mælum með kaupum á vélinni, því að ef þessari vél verður hafnað, verður þess langt að bíða, að önnur helicopterflugvél verði keypt til landsins. Ég vil fyrir mitt leyti ekki standa í vegi fyrir þessum kaupum, ef hún gæti bjargað einu eða tveimur mannslífum frá bráðum háska, t. d. ef maður lægi í afskekktu héraði með sprunginn botnlanga eða blæðandi magasár og þyrfti án tafar að komast á sjúkrahús. Eins og mönnum er kunnugt, getur þessi vél lent svo að segja hvar sem er, og ætti því hverjum manni að vera það auðskilið, hve mikils virði þetta flugtæki er. Við, sem höfum mælt með þessari vél, höfum aldrei haldið því fram, að þessi flugvél væri svo fullkomin, að hún gæti bjargað við allar aðstæður. Það er von, að menn spyrji, hvort þessi vél hefði ekki getað gert eitthvert gagn við Faxasker, þegar hið hörmulega slys skeði þar, en því miður hefði vélin ekkert getað athafnað sig í þeim veðraham, sem þá var. Þannig er það oft, en ekki er hægt með nokkurri sanngirni að búast við því, að alltaf verði björgun möguleg. Hins vegar er það staðreynd, að ef þessi vél verður nú keypt og hún höfð til taks, þá verður oft hægt að bjarga mönnum frá nauðum, bæði af sjó og landi, sem að öðrum kosti hefðu farið fyrir aldur fram.

Ég hygg, að það sé svo ekki fleira, sem ég þurfi að taka fram að þessu sinni, og læt máli mínu vera lokið.