08.03.1950
Sameinað þing: 31. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 324 í D-deild Alþingistíðinda. (3887)

118. mál, raforkudreifing

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Mér hefur skilizt á því, sem ég hef heyrt, að hér sé um það að ræða í þessu máli, hvort eigi heldur að hraða því, að rafmagn komist heim á sem flesta bæi, með því að nota einfasa línur eða þrífasa, þótt stofnkostnaðurinn verði þá hærri. Orsök þess, að ég tek nú til máls, er sú, að ég vil beina því til hv. n., hvort hún vilji ekki afla sér nákvæmrar áætlunar um það, hvað tæki til heimilisþarfa kosti með einfasa kerfinu og hvað með þrífasa kerfinu, varðandi stofnkostnað. Þennan samanburð er auðvelt að fá. Maður þarf að vita verðmismuninn til þess að geta gert samanburðinn. Svo er annað: á hve marga bæi má koma einfasa kerfi og hve marga þrífasa, eða á hvað marga bæi má t. d. koma rafmagni fyrir 100.000 kr. með hvoru fasa kerfinu fyrir sig. Ég óska eftir, að n. útvegi samanburð á þessu tvennu. Það er búið að senda menn til Ameríku og Englands til að athuga þetta. Eru þeir komnir heim, og getur n. fengið þennan samanburð hjá þeim.