08.03.1950
Sameinað þing: 31. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 325 í D-deild Alþingistíðinda. (3888)

118. mál, raforkudreifing

Flm. (Jörundur Brynjólfsson):

Herra forseti. Þetta verða aðeins örfá orð. Ég þakka þeim hv. þm., sem látið hafa til sín heyra: hv. 2. þm. Rang. og hv. 1. þm. N-M. Báðir hafa þeir tekið málinu vel. En það, sem ég vildi víkja að í ræðu hv. 2. þm. Rang., sem talaði þó vingjarnlega um þetta, er í sambandi við samanburð á Bandaríkjunum og hjá okkur. Þetta ber að athuga. Hér stendur öðruvísi á. Fyrst og fremst er það, að tækin, sem notuð eru í Ameríku, eru framleidd í því landi. Leiðslurnar þurfa ekki að vera eins öruggar þar og hjá okkur vegna veðráttunnar. Þar eru meiri staðviðri og ekki eins stormasamt og hér á landi. Aðstaða þess þjóðlands er svo allt önnur, að sjálfsagt er að taka allt til greina, svo að samanburður kemur varla til mála. Ég segi ekki, að eigi sé unnt að fá einfasa hreyfla í nágrannalöndum okkar, en framleiðslan á þeim er lítil hér í álfu, þótt hún sé mikil í Ameríku. En vitaskuld mundu verksmiðjur framleiða þá í Englandi skv. pöntun. Hitt er annað mál, að einfasa hreyflar eru dýrari, en hinir. Hef ég það úr opinberum skýrslum og frá kunnáttumönnum, og mun það nema um 30–40%. — Annað er það ekki, sem máli skiptir.

Ég vil svo mega vona varðandi tilhögunina á framkvæmd þessara hluta, að hún sé til frambúðar. Það er betra að bíða um stund, en framkvæmdinni verði svo flýtt, að endurbæta verði allt kerfið innan skamms, sem þá mun verða margfalt dýrara.