09.03.1950
Sameinað þing: 32. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 327 í D-deild Alþingistíðinda. (3896)

126. mál, útflutningur veiðiskipa

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. Ástæðan til þess, að ég kveð mér hér hljóðs, er sú, að um þetta mál hafa átt sér stað mikil skrif í blöðunum og á þann veg, að þau gefa mjög skakka hugmynd um, hvað gerzt hefur í þessu máli. Í grg. þessarar till. getur einnig að líta atriði, sem eru mjög villandi og nauðsynlegt er, að leiðrétt séu í áheyrn allra hv. þm.

Það atriði, sem mest áherzla hefur verið lögð á, bæði í grg. till. og í þrálátum æsingaskrifum blaðanna, er það, að hér sé um að ræða flótta úr landinu með fjögur skip, eins og það er orðað í grg. Hv. þm. Ísaf., 1. flm. till., minntist á það alveg réttilega, að útgerðin á Ísafirði hefði átt í miklum þrengingum á undanförnum árum. Það er alveg rétt. Síldveiðibresturinn hefur á engum bitnað eins hart og einmitt á Ísfirðingum, því að þar er byggt meira á síldveiði en í öðrum útgerðarbæjum á landinu, og ég hygg, að það sé ekki orðum aukið, að Ísfirðingar hafi beint og óbeint tapað um 30 millj. kr. á þessum aflabresti undanfarinna ára. Það var af þeirri ástæðu, sem einn af dugmestu útvegsmönnum þar, Björgvin Bjarnason, hóf athugun um fiskveiðar á fjarlægari miðum. Hann átti í miklum þrengingum með að útvega ýmislegt, sem nauðsynlegt var til útbúnaðar skipanna á fjarlægum miðum, en með sérstökum dugnaði tókst þessum útgerðarmanni þetta, og fjögur skip lögðu vestur um haf til Grænlands. Ég skal ekki fjölyrða um dvölina við Grænland, en það eru þó viss atriði, sem skýringa þurfa við.

Leiðangurinn lagði af stað 5. júlí til Grænlands. Menn höfðu gert sér miklar og bjartar vonir um þennan leiðangur, sem og þann, sem ríkisstj. átti einhvern þátt í, að farinn yrði. Niðurstaðan varð hins vegar sú, að mikill brestur varð á veiði og tap á leiðangrinum, og þetta tap hlaut meðal annars að koma fram í vangreiddu mannakaupi, en til þess að reyna að koma í veg fyrir þetta og til að ræða önnur úrræði, hélt útgerðarmaðurinn ráðstefnu með skipstjórum sínum í Færeyingahöfn. Þá stakk útgerðarmaðurinn upp á því, að siglt yrði til Nýfundnalands og þar veitt um haustið. Bað hann þá skipstjóra sína að ræða þetta við skipshafnirnar. Tveimur klukkustundum síðar komu allir skipstjórarnir aftur um borð í það skip, sem viðræður höfðu farið fram í, og sögðu, að það hefði verið einróma samþykkt af öllum skipverjum, að eftir þennan misheppnaða Grænlandsleiðangur skyldi haldið á önnur mið til haustveiða, nefnilega Nýfundnalandsmið.

Þá er að rekja lítillega sögu þessa máls, auk þess, sem ég hef greint. — Áður en haldið var til Nýfundnalands, hafði Björgvin Bjarnason haft samband við hinn íslenzka ræðismann í St. Johns, til þess að fá upplýsingar um, hvort þeir gætu selt saltfisk þar eða greitt fyrir nauðsynjar til skipanna með fiski, og taldi ræðismaðurinn ekkert því til fyrirstöðu, en þegar til Nýfundnalands kom, reyndust þær upplýsingar alveg rangar. Þar í landi er hár tollur á aðkeyptum fiski frá erlendum fiskiskipum, og til þess að slík viðskipti gætu farið fram, þarf leyfi frá stjórninni í Ottawa. Var því haldið til frönsku nýlendunnar St. Pierre, í von um að geta selt afla þar og látið skipverja hafa peninga, sem þeir kröfðust. Þegar til St. Pierre kom, reyndist einnig þar ómögulegt að selja fiskinn, en skipamiðlari þar á staðnum var fús til þess að lána peninga og vistir, þar til tekizt hefði að fá söluleyfi í Kanada. Þar sem árangurslaust reyndist að hafa viðlegu í St. Pierre vegna fjárskorts og skipin þar raunverulega föst til tryggingar úttekt hjá skipamiðlaranum, þá fór Björgvin Bjarnason til St. Johns. Eftir nokkurt þóf tókst honum að selja fiskinn, sem í skipunum var, þannig að hann gat nú greitt skuld sína í St. Pierre og keypt nægilegar vistir til þess að halda á veiðar. En þá neituðu skipshafnirnar að fara á veiðar. Útgerðarmaðurinn reyndi þrásinnis að fá skipverja á skipum þessum til að fara út og fiska, en þeir neituðu. Hann útskýrði það þá fyrir þeim, að hann hefði enga peninga nema fyrir afla, en þeir sögðust eiga inni tryggingu, sem rétt var, en hana gat útgerðarmaðurinn ekki greitt. Þeir óskuðu þá að fara heim, og varð ekki um þokað. Að standsetja skipin og útbúa með olíu og vistum, og hafa þessar fjórar skipshafnir á kaupi á meðan, til þess hafði útgerðarmaðurinn ekki fé. Það ráð var því tekið að fá flugvélar frá Íslandi til þess að flytja 53 skipverjanna heim. Nokkrir skipverjar vildu vera áfram vestra og freista þess að halda áfram veiðum. Til viðbótar þessu vil ég segja það, að það hafði verið áform útgerðarmannsins að sigla skipunum til Englands að loknum veiðum við Nýfundnaland og frá Englandi síðan heim til Íslands. Sú ráðagerð varð að engu við hina skyndilegu heimför skipverjanna og neitun þeirra um það að fara á veiðar.

Það, sem ég hef með þessari frásögn sannað, er þetta, að útgerðarmaður inn hélt skipum sínum frá Grænlandi til Nýfundnalands með fullu samþykki skipverja sinna, fyrst að aflokinni ráðstefnu með öllum skipstjórum á skipunum og síðan að lokinni athugun á vilja skipshafnanna. Þetta liggur fyrir, sem og skipverjarnir eru fúsir til að staðfesta, að er satt og rétt. Í öðru lagi er sannað, að þegar til Nýfundnalands kom, vildu skipshafnirnar ekki halda veiðunum áfram, en óskuðu þess að fara heim. Ég skal ekki kveða upp neinn dóm yfir þessari ráðabreytni skipshafnanna. Það má vel vera, að hún hafi verið fyllilega eðlileg. En hún var engu að síður í mótsetningu við það, sem um hafði verið rætt, því að það hafði verið rætt um að stunda veiðar á Nýfundnalandsmiðum og fá þar fisk og sigla síðan til Englands og þaðan svo til Íslands. Þegar skipin gátu hins vegar ekki veitt, vegna þess að skipverjar vildu hætta veiðum, hafði útgerðarmaðurinn enga möguleika til þess að útbúa þau og sigla þeim til Íslands, þar sem hann hafði reiknað með að fá fisk til þess að greiða þann kostnað með. Það leiddi af þessu, að útgerðarmaðurinn hafði ekki heldur fé til þess að standsetja skipin og varð að kaupa skipverjum sínum flugfar til Íslands, en leggja skipum sínum í höfn á Nýfundnalandi. Þar sem ekkert hafði aflazt þarna við Nýfundnaland, hafði útgerðarmaðurinn ekki heldur fé til þess að greiða skipverjum laun þeirra. Það, sem er þess vegna kjarni þessa máls, er það, að það er aflabrestur við Grænland, sem veldur því, að útgerðarmaðurinn tekur þá ákvörðun í samráði við skipshafnir sínar og skipstjórana að sigla skipum sínum til Nýfundnalands. Það, sem veldur því, að skipin kyrrsetjast í Nýfundnalandi, en ekki verður úr því áformi að sigla þeim til Englands og Íslands, er það, að skipin geta ekki veitt vegna þeirra ástæðna, sem ég hef greint, að útgerðarmaðurinn fær ekkert fé til að greiða óumflýjanlegan kostnað við heimsiglingu þeirra, standsetningu og annan kostnað, sem óumflýjanlega hlýtur af því að verða.

Ég hef þá rakið söguna fram til þess, að skipverjarnir eru farnir heim og skipin föst í höfnum vestra. En við það skapast algerlega nýtt viðhorf fyrir útgerðarmanninn, hann stendur uppi með skipin mannlaus og er félaus. Hann hefur ekki möguleika á að sigla þeim heim, þar sem þau þurfa verulegra viðgerða við, vélaaðgerða og eftirlits o. s. frv., til þess að hægt sé að sigla þeim yfir hafið. Þá hefur útgerðarmaðurinn tilraunir til þess að bjarga sér út úr þessu öngþveiti þarna vestra. Og þá er það, sem hann kemst í samband við stjórnmálamenn vestra og fær loforð um einhvern stuðning. Er auðsætt, að útgerðarmaðurinn hefur komizt í gott samband við valdamenn þar og að þeir hafa haft áhuga fyrir fyrirtæki hans. í framhaldi af þessu sækir svo þessi íslenzki útgerðarmaður um leyfi til sjávarútvmrn. til búferlaflutnings skipa sinna, sem var skilyrði til þess, að hann fengi lán og stuðning vestur þar. Þessi umsókn mun vera dagsett 14. nóv. s. l., en hún hefur ekki fengizt samþykkt enn þá.

Í sambandi við þetta tel ég rétt, að hv. þm. fái vitneskju um það, hvað það raunverulega er, sem útgerðarmaðurinn hefur boðið til þess að fá þetta leyfi, sem er nauðsynlegt til þess að hann geti haldið áfram veiðum um skemmri eða lengri tíma við Nýfundnaland. Útgerðarmaðurinn hefur, ef hann fær leyfðan þennan búferlaflutning, möguleika til þess að greiða upp í skuldir sínar hér eftirtaldar upphæðir: Kaup skipverja, 360 þús. kr. Kauptryggingin, sem útgerð þessara skipa skuldar skipverjum, er 347 þús. kr. Mismunurinn á því og 360 þús. kr. mun vera innheimtulaun, er útgerðarmaðurinn neyðist til að greiða, ásamt kaupi skipverja, vegna þess að þetta greiðist út í íslenzkum bönkum, er fá það í kanadiskum dollurum, Í öðru lagi býðst útgerðarmaðurinn til að greiða Samábyrgð Íslands 160 þús. kr., fiskveiðasjóði 720 þús. kr., Útvegsbanka Íslands 430 þús. kr., framkvæmdasjóðslán 200 þús. kr. Svo gerir útgerðarmaðurinn ráð fyrir að semja um greiðslu á lausaskuldum, sem eru samtals um 900 þús. kr. Óhjákvæmilegar eftirgjafir af lánum til þess að gera þessar greiðslur mögulegar er eftirgjöf af síldarkreppuláni, sem er að upphæð 480 þús. kr. Auk ofangreindra skulda, skulda félög þessa útgerðarmanns fiskimálasjóði 220 þús. kr. með vöxtum, en þetta lán er tryggt með eignum félaganna á Ísafirði og því í fullkomnum skilum. — Þetta er um að segja það greiðslutilboð, sem útgerðarmaðurinn hefur gert. Hann býðst m. ö. o. til að greiða eða koma á hreinan grundvöll svo að segja öllum sínum skuldum við íslenzkar lánsstofnanir og meira að segja lausaskuldum við einstaklinga.

Ég vil í þessu sambandi minnast á annað atriði. Því hefur verið haldið fram í blöðum, að stórfelld gjaldeyrissvik hafi átt sér stað í sambandi við þennan leiðangur. Ég bendi á, að um leið og þessi maður skilaði 40 þús. dollurum upp í kaupgreiðslur skipshafna sinna heima, þá eru fullkomlega gerð skil á gjaldeyri hans í sambandi við Grænlandsútgerð hans. Það atriði er þess vegna ekki hægt að telja honum til áfellis, ef hann að öðru leyti fengi tækifæri til þess að koma málum sínum á þann grundvöll, sem um ræðir í þessu greiðslutilboði.

Ég skal nú ekki fjölyrða miklu frekar um þetta mál. En í sambandi við þáltill., sem hér liggur fyrir, vil ég geta þess, að kostnaðurinn — og það er rétt, að menn athugi það — við heimsendingu skipanna, verður samkv. lauslegri kostnaðaráætlun, sem gerð hefur verið um það og lögð hefur verið fyrir skilanefnd sjávarútvegsins í sambandi við síldarkreppurnar, — það er gert þar ráð fyrir, að hann mundi verða 600–700 þús. kr., trúlega þó ekki undir 700 þús. kr., þar af um hálf milljón í kanadískum dollurum, sem sprettur af því, að á skipunum þarf að fara fram mjög mikil viðgerð, til þess að hægt sé að sigla þeim yfir hafið. Það þarf einnig að greiða töluvert af kaupi skipshafnanna í kanadískum dollurum. Það þarf að standsetja vélar þeirra. Það þarf að borga ferðakostnað skipshafna, sem út yrðu sendar, og greiða þeim laun í erlendum gjaldeyri. Að sjálfsögðu þarf svo að kaupa vistir og olíu, greiða hafnargjöld o. s. frv. í sambandi við heimsiglinguna. Ég held, eftir því sem mér hefur verið skýrt frá, að það sé ekki óvarlegt að áætla, að kostnaður við heimsendingu skipanna í erlendum gjaldeyri mundi verða um hálf milljón kr., og náttúrlega er mjög mikill hluti af því kostnaður við nauðsynlega viðgerð á skipunum sjálfum og vélum þeirra, því að þó að þetta séu góð skip, þá eru vélar þeirra í þannig ástandi, að það væri fráleitt að sigla þeim þessa löngu leið yfir hafið án þess að láta fara fram mjög rækilega viðgerð og endurskoðun á vélum a. m. k. sumra þeirra. Sjálfur hefur útgerðarm. ekki fé til þess að gera þetta, að útbúa skipin og sigla þeim heim, og ég vil upplýsa, að eftir að augljóst vax orðið, að mikil tregða var á því hjá ríkisstj. að veita leyfi til búferlaflutnings fyrir skipin, þá sneri útgerðarmaðurinn sér til n., sem hefur með kreppulánin að gera, og óskaði aðstoðar hennar til þess að koma skipunum heim. Útgerðarmaðurinn sá, að þetta hvorki gekk né rak, og hann sneri sér til þess íslenzka aðila, sem mest hefur haft með þessi mál sjávarútvegsins að gera, og óskaði aðstoðar til þess að koma skipunum heim. En ég veit, að hv. þm. undrar það ekki neitt, þó að þessi skilanefnd yrði að hafna slíkri ósk um fyrirgreiðslu. Víð vitum, að það hefur ekki verið einu sinni greitt af höndum allt það fé, sem Alþ. hefur samþ. að greiða til einstakra útgerðarmanna til þess að losa sjóveðin af skipunum frá síðasta sumri. Og það er þess vegna varla með sanngirni hægt að ætlast til þess, að skilanefndin hafi orðið við þessari ósk útgerðarmannsins, sem í neyð sinni hefur snúið sér til hennar og óskað þessarar aðstoðar og gert henni fyllilega ljóst, hvernig hans mál standa og hverjir möguleikar hans eru til þess að koma skipum sínum heim, þó að hann feginn vildi.

En ég vil svo aðeins lítillega ræða það viðhorf, sem skapaðist við það, ef útgerðarmanni þessum væri nú neitað um þetta leyfi til búferlaflutnings. Við það væru allir möguleikar hans til þess að greiða skuldir sínar hér heima, þar á meðal mannakaup, að engu orðnir. Við honum blasti þá ekkert nema gjaldþrot. Niðurstaðan yrði því sú, að útgerðarmaðurinn gæti ekki greitt neinar af skuldum sínum til þessara umræddu lánsstofnana. Hann gæti ekki heldur greitt sjómönnunum, sem voru á skipum hans á s. l. sumri. Ég veit, að hv. þm. eru það kunnugir ástæðunum í útvegsmálum okkar nú, að þeir gera sér ekki miklar vonir um, að verð þessara skipa, eftir að þau t. d. væru komin hingað heim, hrykki langt til þess að greiða þessar skuldir, til þess að borga þennan háa skuldalista, sem ég las upp áðan og útgerðarmaðurinn hefur boðizt til að greiða að töluverðu leyti. Ég veit, að afleiðingin af því yrði stórfellt tap lánsstofnananna og sjómannanna, sem á skipunum voru, því miður.

Ég verð svo að segja það að lokum, að Björgvin Bjarnason hefur ekki með glöðu geði orðið að freista þessara úrræða í þrengingum sínum. Honum er það áreiðanlega ekki geðfellt að neyðast til þess að yfirgefa byggðarlag sitt og land með þessum hætti. Ég veit líka, að hann hefur fullan hug á því að koma heim til sinna ættarbyggða aftur, annaðhvort með þessi skip eða önnur ný, ef honum tækist að rétta hag sinn við. Þeir, sem þekkja Björgvin Bjarnason, hljóta að hafa trú á því, að honum með dugnaði sínum og harðfengi takist að rétta hag sinn, því að það vita allir, sem til hans þekkja, ekki sízt Ísfirðingar, að harðduglegri mann, en hann, getur varla.

Ég hef viljað gefa þessar upplýsingar hér til þess að hv. þm. ættu þess kost að heyra þetta mál flutt nokkuð á annan veg, en gert hefur verið í blöðum undanfarið. Ég vil vænta þess, að hv. n., sem fær þetta mál til athugunar, sem mér skilst, að verði hv. allshn., leiti umsagnar lánsstofnana, sem hlut eiga að máli, um þessa þáltill., og enn fremur Alþýðusambands Íslands, sem hefur komið fram sem aðili skipshafnanna á skipunum. Ég álít að vísu, að flutningur till. sem þessarar hér á Alþ. sé eiginlega heldur hæpinn. Ríkisstj. verður á hverjum tíma að ákveða, hvað gera skuli í slíkum málum. Og ég veit, að hv. þm. vita það, að á undanförnum árum hafa fjöldamörg skip verið flutt úr landi og aldrei komið til greina að leita álits Alþ. um það, hvort einstaklingar ættu að fá að selja gömul skip úr landi eða ekki. — Ég vil svo segja það, að það er að sjálfsögðu hnekkir fyrir Ísafjörð, að þannig hefur farið með þessi skip, að þau eru nú föst í skuldum í fjarlægu landi. En ég vil segja hæstv. Alþ. það, að ég held, að almenningur á Ísafirði geri sér það ljóst, að til grundvallar þessari staðreynd, að þessi fjögur skip eru föst í fjarlægu landi, liggur ekki það, sem megináherzla hefur verið lögð á í umræðum um þetta mál á opinberum vettvangi, þ. e. a. s. fyrir fram hugsaður flótti og sviksamlegur tilgangur. Ég get fullvissað hv. þm. um það, að almenningur á Ísafirði lítur ekki svo á þetta mál. Ég hef leitt rök að því, hverjar hinar raunverulegu ástæður eru. Ég býst við, að ég sé sammála hv. flm. till., hv. þm. Ísaf., um það, að það sé mjög miður, að þessi útgerð skuli vera þannig á vegi stödd eins og raun ber vitni um, að hún getur ekki komið skipum sínum heim, og þannig á vegi stödd, að líkur séu fyrir því, að ísfirzkt atvinnulíf missi af þessum myndarlegu framleiðslutækjum. Um þetta erum við áreiðanlega sammála. En ég hef aðeins viljað leiða sannleikann í ljós í þessu máli, því að ég hygg, að hann sé jafnan sagna beztur, einnig að þessu sinni.