09.03.1950
Sameinað þing: 32. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 344 í D-deild Alþingistíðinda. (3902)

126. mál, útflutningur veiðiskipa

Flm. (Finnur Jónsson) :

Herra forseti. Ég hef að ýmsu leyti viðurkennt sjónarmið hv. þm. Barð. varðandi réttindi og skyldur, en það jafngildir ekki því, að ég telji, að till. eigi ekki heima hér á hv. Alþingi. Ég hef rökstutt tilverurétt till. fyrst og fremst með því, að hér er um þýðingarmikið atvinnuspursmál að ræða fyrir mitt kjördæmi, og í öðru lagi tel ég, að hér hafi verið skapað hættulegt fordæmi, sem gefi Alþingi tilefni til þess að skerast í leikinn. Ég tók eftir því, að hv. þm. Barð. gat þess, að það gæti skeð, að hann greiddi atkv. með till. (GJ: Eftir því, hvernig hún er orðuð.), og gleður það mig að eiga e. t. v. von á stuðningi hans, en hann sagði, að með því tæki hann ekki á sig neina skuldbindingu um að sjá Ísafirði fyrir atvinnutækjum. Þetta er alveg rétt og einmitt mitt sjónarmið í málinu, því að ef till. er samþ., þá tekur Alþingi ekki á sig ábyrgð, að skipin verði flutt frá Ísafirði. Vænti ég því nokkurs stuðnings hv. þm. Barð., enda þótt hann andmælti ýmsum atriðum till. Ég geri ekki lítið úr þeim rétti, sem íslenzkir sjómenn hafa, en við verðum að gá að því, að hér er um að ræða félausa menn í framandi landi, sem flestir eru þar mállausir eða mállitlir, og þó að til sé íslenzkur ræðismaður einhvers staðar á Nýfundnalandi, þá höfðu sjómennirnir, þar sem þeir voru fyrst í frönsku nýlendunni St. Pierre, engan aðgang að honum, og þótt þeim hafi verið ljós sá réttur, sem þeir áttu, þá gátu þeir naumast notað hann, enda munu þeir hafa lagt trúnað á orð útgerðarmannsins um greiðslu, er heim kæmi, þegar hann sendi þá félausa til Íslands.

Hv. þm. N-Ísf. (SB) gerði að umtalsefni sölu togarans Skutuls frá Ísafirði og vildi bendla mig við það mál. Sannleikurinn er sá, að ég var hvorki í stjórn hlutafélagsins Skutuls né í bæjarstjórn Ísafjarðar á þeim tíma, en stjórn hlutafélagsins mun að meiri hluta hafa verið skipuð sjálfstæðismönnum og það meira að segja fremstu baráttumönnum flokksins, svo sem Jóni Auðuni Jónssyni, fyrrv. þm. Sjálfstfl., en sala togarans var í stjórn hlutafélagsins samþ. einróma, ekki síður af sjálfstæðismönnum en öðrum. Ég get því ekki tekið til mín, þótt sala Skutuls sé gagnrýnd; ég tók engan þátt í henni.

Hv. þm. N-Ísf. vildi láta líta svo út, að ég flytti þetta mál hér sem rógsmál. Það er misskilningur. Ég hef enga tilraun gert til þess, að hlutur Björgvins Bjarnasonar líti verr út en efni standa til. Hans starfsemi hefur enga pólitíska þýðingu á Ísafirði. Hitt er, að þetta er atvinnuspursmál fyrir mitt kjördæmi og mál, sem er hneykslismál, og þótt hv. þm. N-Ísf. hafi tekið að sér að verja það, er það ekki mín sök. Ef hv. þm. vill gera hneykslismál að máli síns eigin flokks, er það hans að velja. Ég gat ekki komizt hjá því að taka eftir því, að hv. þm. lagði nokkra sök á sjómennina fyrir að sigla til Nýfundnalands, en neita þar að stunda veiðar, og hefði það gert útgerðarmanninum ómögulegt að sigla með skipsfarm til Englands. Meinti hv. þm. ekki með þessu, að það væri sjómannanna sök, að skipunum var siglt til Nýfundnalands? Mér þykir vænt um, að hann hefur nú tekið þetta aftur, og er hann kannske maður að meiri fyrir.

Út af því, að hér hefur verið haldið fram, að útgerðarmaðurinn ætlaði ekki að selja skipin, þá verð ég að segja, að ég tel það sama og sölu að fá útflutningsleyfi fyrir skipunum, því að hvernig ætlar hann að fá 3.5 milljónir aðeins með því að flytja búferlum? (GJ: Hann getur fengið lán út á skipin.)

Þá skal ég að lokum taka það fram, að ég hef ekki komizt hjá því að þekkja útgerðarfyrirtæki, sem hafa lent í vanskilum, en ég hef ekki orðið var við það fyrr, að þau flyttu skip sín úr landi. Því flyt ég þessa till., að það fordæmi er hættulegt, og vil ég, að hv. Alþingi taki þar í taumana.