22.03.1950
Sameinað þing: 36. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 348 í D-deild Alþingistíðinda. (3920)

127. mál, innheimta á sölugjaldi bifreiða

Jóhann Jósefsson:

Herra forseti. Ég tek aðeins til máls vegna þess, að það var meðan ég var fjmrh., að lögtekið var að innheimta þetta sölugjald af bifreiðum, og var það einn af þeim tekjustofnum, sem verið var að basla við að ná í, þegar fiskábyrgðarlögin voru samþ. um áramótin 1948 og 1949.

Ég skal nú játa það, að hvað mig áhrærir persónulega, þá hafði ég, og mér skildist aðrir hv. þm. yfirleitt, fyrir augum, þegar verið var að ræða um söluskattinn af bifreiðum, sem gengju kaupum og sölum, notaðar bifreiðar, sem vitað var, að menn seldu oft, og skiptu mikið um eigendur í landinu. Þetta var að minni hyggju aðallega það, sem haft var fyrir augum þá. Hitt fyrirbærið, þetta nýja, sem komið hefur inn í málið, að menn skiptu um eigendur á bifreiðum nýjum og ósamsettum, sem væru innpakkaðar, þ. e. a. s. óuppteknar í kassanum, sem þær voru innfluttar i, það var, a. m. k. svo langt sem minn kunnugleiki náði í þeim efnum, fátitt. Ég hafði lítið heyrt um það, þegar þessi löggjöf var sett. En þetta mun hafa átt sér stað í nokkrum tilfellum á árinu 1949, og sérstaklega um áramótin 1949 og 1950, að svona sölur hafi farið fram á bifreiðum. Og stendur það víst að nokkuð miklu leyti í sambandi við svo kallaða sjómannabíla.

Framkvæmd þessarar skattinnheimtu var í höndum bifreiðaeftirlitsins og svo lögreglustjórans. Bifreiðaeftirlitið hefur haft eftirlit með því, þegar bifreiðar hafa verið skrásettar, að réttur eigandi væri skráður, og ef eigendaskipti væri um að ræða, þá skal það sjá um matið á bifreiðunum, því að þegar l. voru sett, var verið að hugsa um notaðar bifreiðar. Hitt gefur auga leið, að það er eðlilegt og sjálfsagt, að ef bílar eru seldir ónotaðir og þeir skipta um eiganda áður en þeir eru teknir í notkun, þá falli þeir undir þessi skattaákvæði laganna.

Nú var það í tíð fyrrv. stj., að orðrómur komst á um það, að þessi háttur væri nokkuð upptekinn, að menn seldu bíla jafnvel í umbúðum óupptekna, sem lítið hafði heyrzt um áður. Og þá var lögreglustjóra falið af hans yfirmanni í ráðuneytinu að rannsaka málið. Ég veit, að sú rannsókn hefur átt sér stað. Og það eru líklega milli 20 og 30 tilfelli, sem ég hef fengið að vita um frá tollendurskoðara ríkisins, sem getur verið hér um að ræða. En í sumum þessum tilfellum getur sjálfsagt verið um að ræða nokkurt álitamál, hvernig þessu er varið. T. d. þegar sjómaðurinn N. N. lætur annan mann, sem er ekki sjómaður, fá sitt leyfi, og bíllinn kemur svo adresseraður á eitthvert bílaumboð hér eða jafnvel á nafn sjómannsins og kaupandinn að réttindunum kemur svo og hirðir bílinn. Ég sá það við að líta í þessi rannsóknarskjöl, sem lögreglustjóri hefur afhent tollendurskoðuninni, að tilfelli voru til á þessa leið og aðrar leiðir og talsvert víxluð, eins og gerist og gengur. En eins og hæstv. viðskmrh. hefur upplýst, þá var þetta mál þá þegar sett í rannsókn, og verður náttúrlega af réttum tollyfirvöldum úrskurðað um þetta í hverju einstöku tilfelli, hvort beri að borga þetta sölugjald af þessum bifreiðum eða ekki. Ég fyrir mitt leyti álit t. d., að ef viðurkennt bílaumboð pantar bíl fyrir leyfishafa, sem sjálfur tekur við sínum bíl, þá eigi það ekki að falla undir svona skattaákvæði, sem hér hefur verið rætt um, ef þessi viðskipti fara ekki annarra á milli. En minn úrskurður í því er bara prívatmanns álit, og það kemur undir úrskurð réttra yfirvalda, hvernig farið verður með það mál. Það er líklegt, að bifreiðaeftirlitið hafi verið dálítið grandalaust gagnvart þessari sérstöku verzlun með bíla, sem ekkert var farið að nota og voru jafnvel seldir í umbúðum, af því að þetta var tiltölulega óþekkt fyrirbæri, þangað til fyrir stuttum tíma síðan. En að sjálfsögðu leiðréttist þetta allt við þá rannsókn og þá endurskoðun, sem fer í þessu sambandi fram hjá tolleftirliti ríkisins.