29.03.1950
Sameinað þing: 37. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 350 í D-deild Alþingistíðinda. (3923)

132. mál, ljósviti og skýli á Faxaskeri

Flm. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Þegar ég kom hér fyrst á þing sem fulltrúi Vestmannaeyinga, var vitamálum þar þannig háttað, að einungis einn viti var þar, Stórhöfðavitinn, og var hann lýstur upp með olíulömpum eins og þá tíðkaðist, enda var ekki um önnur ljós að ræða á þeim tíma. Ég hef síðan leitazt við, að haldið væri eðlilegri þróun í sambandi við vitamál Vestmannaeyja, og skal við þetta tækifæri játa með þakklæti, að skilningur Alþingis á þeim málum hefur verið góður og eðlilegur, ef litið er með sanngirni á allar aðstæður. Næsta sporið í vitamálum Vestmannaeyja var það, að Urðaviti var reistur fyrir forgöngu mína. Hann er austan til á eyjunum og hefur komið í mjög góðar þarfir, því að Stórhöfðavitinn nægði ekki fyrir þau skip, sem komu austan að, einkum ef dimmt var og illt í sjóinn, enda mátti rekja slys til vitaskortsins á þessum stað. Urðavitinn hefur síðan verið starfræktur með mjög góðum árangri fyrir Eyjabúa og aðra, sem þessa leið hafa notað. Sökum reynslu þeirrar, sem ég aflaði mér, þegar ég var búsettur í Eyjum og hafði afgreiðslu skipa með höndum, varð mér ljóst, að marka þurfti skýrt siglingaleiðina hjá Þrídröngum, og hafði þá einkum í huga þau skip, sem kæmu vestan að fyrir Reykjanes og stefndu á Vestmannaeyjar í myrkri, því að þau hafa ekki annað leiðarljós en hið tiltölulega daufa ljós á Stórhöfðavita. Ég man líka eftir, að Jóhann P. Jónsson skipherra sagði mér frá einkennilegum segultruflunum í Eyrarbakkabugtinni, sem gerðu það að verkum, að mjög erfitt væri að vita, hvort skip, sem setti strikið innan við Þrídranga, héldi því, en slíkt væri mjög hættulegt, því að innan við Þrídranga er sjór hreinn, en aftur á móti óhreinn sjór, blindsker og boðar, sunnan við. Og í sambandi við þetta kom mér og fleiri Eyjabúum í hug, að ljósviti á Faxaskeri mundi geta bætt úr þessu, því að hann gæti vísað leiðina fram hjá Þrídröngum og auk þess lýst bátum, sem sökum veðurs þyrftu að hafna sig norðan við Heimaklett eða undir Kambinum svonefnda. Hins vegar vildi þáverandi vitamálastjóri, Thorvald Krabbe, ekki fallast á þessa hugmynd um vita á Faxaskeri. Hann taldi ekki mögulegt að reisa vita á skerinu sökum brims, og sitthvað fleira tíndi hann til, sem ég held, að varla hafi allt verið á rökum reist, en hafði þess í stað hugmyndir um að setja vita vestan við Stóra-Klif eða jafnvel á Elliðaey, þó að ekkert yrði úr framkvæmdum, enda ekkert samkomulag um staðsetninguna. Málið var svo á döfinni í nokkur ár, án þess að frekar væri að gert, og oft var ég uggandi á þeim tíma um gömlu Esju, sem þá var í strandferðum til Eyja, þegar hún átti að taka land í vondum veðrum. Svo bar það við eitt sinn, að ég var á ferð til Eyja með strandferðaskipi ásamt Jóni Þorlákssyni fyrrv. forsætis- og fjmrh., og þá barst þetta vitamál í tal á milli okkar. Ég klifaði á því, að heppi1egt mundi að reisa vita á Faxaskeri til að forðast hættuna í kringum Þrídranga, en þá verður Jóni Þorlákssyni að orði: „Hvers vegna ekki að setja vita á Þrídranga?“ Ég verð að játa, að það hafði mér aldrei dottið í hug, en vissi aftur á móti, að hæpið væri að setja vita norðan á Klifið eða á Elliðaey, því að slíkur viti mundi oft falinn í þoku, þegar hans væri mest þörf.

Skömmu eftir þetta urðu mannaskipti í embætti vitamálastjóra, og tók þá við núverandi vitamálastjóri háttv. Hann sýndi strax mikinn vaskleik í starfi sínu og í sambandi við þetta mál sérstakan áhuga og kleif meðal annars sjálfur upp á dranginn til þess að ganga úr skugga um, hvort hægt væri að reisa þar vita. Nú er sá viti fullgerður fyrir nokkru og hefur verið starfræktur með mjög góðum árangri, og var því í bili vikið til hliðar hugmyndinni um vita á Faxaskeri. En nú hefur því máli skotið upp á ný, og er það, eins og áður hefur verið bent á, vegna þess, að fyrir margra hluta sakir er mikil þörf á slíkum vita, bæði vegna báta, sem þurfa að leita skjóls norðan við Heimaey í veðrum og myrkri, og svo líka vegna innsiglingar. Við þetta bætist svo sú hörmulega reynsla, þegar „Helgi“ fórst í vetur, sem sýnir betur en áður hina miklu þörf, sem þarna er fyrir bæði vita og skýli, og vakti upp aftur hugmyndina um vita á Faxaskeri.

Í sambandi við þetta mál vil ég geta þess, að slysavarnadeildin í Vestmannaeyjum hefur sent flm. þessarar þáltill. fundarsamþykkt um sama efni, og verði reist skýli fyrir skipbrotsmenn á skerinu, er það áform slysavarnadeildarinnar að leggja til útbúnað allan innanstokks í slíkt skýli.

Ég geri ráð fyrir, að till. þessari verði vísað til hv. fjvn., þar sem hún hefur kostnað í för með sér, ef framkvæmd verður. Þar sem ákveðnar hafa verið tvær umr. um till. þessa, mælist ég til þess, að málinu verði vísað til 2. umr. að þessari umr. lokinni og til hv. fjvn.