29.03.1950
Sameinað þing: 37. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 351 í D-deild Alþingistíðinda. (3924)

132. mál, ljósviti og skýli á Faxaskeri

Emil Jónsson:

Herra forseti. Hv. þm. Vestm. hefur lýst ýtarlega aðdraganda þessa máls og sögu vitanna í Vestmannaeyjum, og við þetta hef ég engu að bæta. Ég vil þó fara nokkrum orðum um eitt atriði til athugunar fyrir þá n., sem fær þetta mál til meðferðar.

Það er ekki alveg ljóst af till. sjálfri, hvort ætlazt er til, ef úr þessari vitabyggingu verður, að fé til hennar sé tekið af því fé, sem veitt er til nýbyggingar vita á fjárlögum, eða veita eigi sérstaklega fé til þessarar vitabyggingar, og skerða þá ekki þau fjárframlög, sem ætluð eru til hinna almennu vitabygginga. Ég álit, að þetta þyrfti að koma skýrt fram. — Ef ekki er hugmyndin að skerða hina almennu fjárveitingu til vitabygginga, hef ég ekki nema gott eitt um þetta að segja og væri ánægja að því að fá þarna nýjan vita. Hins vegar er það annað mál, ef ætlazt er til, að vitabyggingin verði framkvæmd á kostnað hinnar almennu fjárveitingar á 20. gr. fjárl. til vitabygginga.

Í l. um vitamál og vitabyggingar frá 1933 er gert ráð fyrir, að því fé, sem varið er í þessu skyni, sé skipt af sérstakri nefnd, og í henni eiga sæti: fiskimálastjóri, fulltrúi farmanna- og fiskimannasambands Íslands og vitamálastjóri. Þeir eiga að meta, hvar þörfin er mest, og gera till. til rn., hvar vitar skuli reistir. Þannig á að vera séð fyrir því, að vitar séu reistir þar, sem þörfin er brýnust. En ef sá háttur verður tekinn upp, að framkvæmd þessara mála verður ákveðin á Alþingi sjálfu án skoðunar eða athugunar þessara manna, er ég hræddur um, að þessi mál geti komizt á þann rekspöl, sem ekki verði heppilegur í öllum tilfellum. Ég vil benda á þetta, sérstaklega ef hið almenna fé til vitabygginga verður notað til þessara framkvæmda, hvort þá sé ekki eðlilegt, að þessi vitanefnd segði sitt álit á þessari vitabyggingu, og hvort eðlilegt sé að afgreiða þetta mál með þál. A. m. k. ætti fjvn. að fá umsögn vitanefndar um málið. Ég segi enn, að ég er ekki að segja þessi orð til þess að draga úr því, að byggður verði viti á Faxaskeri, heldur vil ég aðeins vekja athygli á þeirri málsmeðferð, sem hér er upp tekin, og leiða athygli Alþ. að því. — Vitabygging á Faxaskeri er einnig á vitalögunum, en þó hefur Þrídrangavitinn verið reistur fyrr, en af þessu er auðsætt, að það er fullkomlega leyfilegt að byggja vita á Faxaskeri án sérstakrar lagasetningar. — Ég vil vekja athygli n. á þessu sjónarmiði og vænti, að hún æski umsagnar vitanefndar um þetta mál. Það eru því miður margir staðir hér á landi, sem settir hafa verið á vitalögin, og þar á að byggja vita, en það hefur ekki verið gert enn. Og það getur ætíð verið viðkvæmt mál, hvar á að reisa vita og hvar á að fresta því. Það þarf því að vera fyrir hendi hlutlæg og ópersónuleg athugun á því, í hvaða röð vitarnir eru reistir. — Ég tek það enn fram, að þetta er ekki sagt til þess að sporna við vitabyggingu á Faxaskeri, heldur hef ég leyft mér að vekja athygli á þessari málsmeðferð.