29.03.1950
Sameinað þing: 37. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 352 í D-deild Alþingistíðinda. (3925)

132. mál, ljósviti og skýli á Faxaskeri

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Vegna ræðu hv. þm. Hafnf. vil ég lýsa því yfir, að ef till. þessi fer til fjvn., verður hún send til umsagnar vitamálastjóra og vitamálanefndar. Fyrir hönd fjvn. vil ég lofa því að taka málið eins fljótt fyrir og auðið verður og láta leita umsagnar hlutaðeigandi aðila. — Vegna ummæla hv. þm. Hafnf. um það, hvort hér sé ætlazt til sérstakrar fjárveitingar til að reisa þennan vita, þá skilst mér, að svo sé ekki, heldur sé þetta bein viljayfirlýsing Alþingis að láta þessa vitabyggingu ganga fyrir öðrum og til hennar sé varið fé af þeirri upphæð, sem veitt sé til vitabygginga almennt. Þessi skilningur hlýtur að vera réttur, því að annars þyrfti að taka það skýrt og greinilega fram í till., að hér væri um sérstaka fjárveitingu að ræða. — En hvort sem heldur er, þá held ég ekki að hægt sé að ganga fram hjá tillögum vitamálanefndar. Í henni eru menn, sem munu vera dómbærastir á það, hvar hættan er mest og því nauðsynlegast að reisa vita. Ef þeirra álit hneigist að því, að reisa eigi vita á öðrum stöðum á undan Faxaskersvitanum, sýnist mér, að ekki komi til mála að byggja þá þar vita nú, heldur þegar röðin er komin þangað. Ég sé svo ekki ástæðu til að ræða þessa till. frekar að sinni.