03.05.1950
Sameinað þing: 43. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 360 í D-deild Alþingistíðinda. (3951)

150. mál, austurvegur

Flm. (Eiríkur Einarsson):

Herra forseti. Ég geri ráð fyrir, að það verði annríki fram eftir deginum, þar sem fjárlfrv. er á dagskrá, og vil ég því stilla orðum mínum í hóf, þótt hér sé um að ræða mikilsvert málefni, þar sem er framkvæmd l. um Austurveg. Ég álít, að það sé langöruggast allri málafærslu með þessari þáltill., að málið er í sjálfu sér margþekkt hér á Alþ. og kunnugt flestum að því er undirbúning snertir, sem er framkvæmdur af fróðum mönnum og án flokkadeilna á Alþ., þar sem var séð um, að þessa rannsókn önnuðust menn sinn frá hverjum stjórnmálaflokki, og eftir nákvæma íhugun þessara þingkjörnu fræðimanna urðu þeir allir á eitt sáttir um, hvað, gera skyldi, og af þeirri rót eru runnin l. nr. 32 1946, um Austurveg. Eins og þau l. bera með sér, þá var áhugi fyrir þessu máli það mikill á þingi, að það þótti ástæða til að tímabinda þessa lagasetningu, hvenær þetta verk yrði framkvæmt. Það var ákveðið, að þessi vegur skyldi lagður og fullgerður á næstu 7 árum, og þetta er lögbundið, og það hefur í rauninni ekkert neikvætt komið fram um þetta, en það vantar bara einn hlekk í þetta, það hefur ekkert verið gert, l. hafa ekki verið framkvæmd. Þótt ekki þýði að sakast um orðinn hlut og engum sérstökum sé um að kenna, þá verð ég að segja, að þetta er einstök meðferð á stórmáli. Þegar rennt er augunum landshornanna á milli, þá er mönnum ljóst, að það eru margar þarfir, sem þarf að leysa, og sums staðar aðkallandi, en um hitt verður ekki deilt, að þetta er stærsta samgöngumál landsins. Þetta er fyrsta stóra samgöngumál Íslendinga, sem vakti athygli alþjóðar, og það er búið að standa í stappi um þessa framkvæmd marga áratugi og svo mjög um eitt skeið, að þeir, sem voru í broddi fylkingar, gerðu það að stjórnmálalegu heildarmáli og sérstöku áhugamáli, að í þessa framkvæmd yrði ráðizt. Það þarf ekki að minna á annað en það, þegar Jón Þorláksson barðist fyrir járnbrautarmálinu, enda þótt hann við nánari athugun kæmist að þeirri niðurstöðu, að þessi samgönguþörf yrði bezt leyst með vegagerð fremur en járnbraut, og sérfræðileg n., sem fengizt hefur við þá athugun, komst að sömu niðurstöðu. Um vegarstæði er heldur enginn ágreiningur að öllu athuguðu, það var Þrengslaleiðin, sem kom til ágreiningslausrar ákvörðunar.

Ég geri ráð fyrir, að sumum vaxi í augum framlögin, sem voru ætluð úr ríkissjóði til þessara 7 ára framkvæmda, að ljúka veginum alla leið milli Reykjavíkur og Selfoss, en það voru yfir 20 millj. kr., áætlað eftir verðlagi 1945–46, enda miðað við, að vegurinn yrði steinsteyptur alla leið. En það var gert ráð fyrir, að fyrsti meginkafli hans yrði gerður sem ofaníburðarvegur á venjulegan hátt, en síðar væri gengið frá honum endanlega.

Vegna þeirrar tregðu að tryggja framkvæmd þessarar mikilsverðu vegagerðar, þá höfum við flm. orðið til þess að bera þessa till. fram og reyna að fylgja málinu hófsamlega, án þess að binda ríkinu ósanngjarnar byrðar, því að hver skyldi neita því, að í mörg horn er að líta? Við höfum tekið það ráð að gera það að till. okkar, að notuð sé heimild til lántöku af hálfu ríkissjóðs til þessara aðgerða, sú heimild er fyrir hendi, og ríkisstj. gæti notað hana samkvæmt lagarétti. Við leggjum til, að lántökuheimildin verði notuð að nokkru, eða allt að 5 millj. kr., til þess að byrja á vegagerðinni, og er þar miðað við kaflann frá Svínahrauni austur um Þrengsli til þjóðvegar í Ölfusi, er fyrst verði gerður sem malborinn akvegur. Þetta er nauðsynlegasti kaflinn, og þegar hann er kominn, þá er gert ráð fyrir, að úr mikilli nauðsyn sé leyst og að þessi vegur komi að sjálfstæðum notum, þegar snjóalög eru og vetrarhörkur, til þess að forðast frekari kostnað og vandræði af þessum margumræddu samgöngumálum.

Það dylst ekki, að það er nær helmingur allra Íslendinga, sem ætti að þessu að búa með nauðsynjar sínar, sem reynir á þegar verst gegnir, þ. e. vetrarferðirnar. Þarna er höfuðstaðurinn annars vegar og Suðurlandsundirlendið hins vegar með samfelldar daglegar þarfir, þ. e. mjólkur- og mjólkurvöruflutninga, sem margir mundu segja að megi aldrei sleppa úr degi. En það varð nokkurt tog um það, sem ég vildi sízt nota til ýfinga, hvort það skyldi fyrst ljúka við varaleiðirnar, endurbætur á Þingvallaleiðinni og Krísuvíkurveginn, áður en hafizt yrði handa um lagningu þessa vegar. Það varð ofan á, að Krísuvíkurleiðinni yrði lokið áður, en byrjað væri á Austurvegi, og nú er komið að Austurvegi. — Það er ekki nema gott um það að segja, að Krísuvíkurveginum var lokið, en vegalengdarmunurinn á þeirri leið og Austurvegi er um 40 km. En það kennir ekki fyrr en kemur að hjartanu, og í snjóalögunum í fyrra, þegar Hellisheiðarvegurinn tepptist og farin var Krísuvíkurleiðin, þá var gerð þessi upphrópun í blaði: moka, moka, við gefumst upp á að fara svona langt, við skulum heldur moka. — En Sunnlendingar segja og Reykvíkingar segja: Það á ekki að moka, heldur gera þjóðveg, sem stendur upp úr snjónum.

Síðan 1946, þegar l. um Austurveg voru sett, veit ég ekki til að neitt hafi komið fram, sem afsanni réttmæti þessarar lagasetningar um Austurveg. Ég veit, að vegamálastjórnin hefur, þegar reynt hefur á snjóalög hvað mest, látið athuga þessa umræddu leið um Þrengslin, og sú athugun virðist benda til þess, að vel upp hlaðinn vegur á þessari leið muni standa af sér snjóalög. Ég þykist vita, að einhverjir þm. muni segja sem svo: Hvað þýðir að vera að samþ. þetta, fást nokkrar 5 millj. kr. til framkvæmdanna? Þessu verður ekki svarað fyrr en reynslan gerir það og fyrr en þessi till. er samþ. En ef það kæmi að því, þá efast ég ekki um, að það mundi nást mikið fé til þess, t. d. í Árnessýslu. Á hverju byggi ég þá skoðun? Ég byggi hana á því, að enn þá er á Íslandi margt manna, sem ekki stendur á sama, í hvað þeir leggja fé sitt, þeir hafa þörf, vilja og áhuga fyrir þessu máli. Ég veit t. d., að austanfjalls mundu margir vera fúsir til að ljá þessu máli lið, og ég ætla, að sama máli gegni um höfuðstaðinn. Þegar maður talar um að samþykkja í hendur ríkisstj. svona lántökuheimild, þá mundu sumir segja, að þetta sé ekki hægt fjárhagsins vegna. En því verr sem hagur þjóðarinnar er á vegi staddur, því nauðsynlegra er þetta, nema það eigi að leggja árar í bát, og það veit ég að ekki er meiningin. Það hefur verið talað um víðsýni og framfarahug landsmanna, og það hefur verið lögð áherzla á að fá fé til framræslu, ræktunar og bygginga nýbýla fyrir austan; framleiðslan er fyrir austan, en sölustaðurinn er Reykjavík. Hver getur deilt um það, að frumskilyrðið, ef á að undirbyggja þetta í réttri röð, það sé sæmileg samgöngumál milli þessara staða áður en nýbýli eru reist? Ég nefni þetta til athugunar, það hefur alltaf verið vanrækt, sem átti að vera búið að gera fyrir mörgum áratugum. Mþn. komst að þeirri niðurstöðu, að þetta væri í rauninni gróðafyrirtæki; ef hægt yrði að komast þessa beinu leið að vetrinum, þá sparaðist vegalengdin um Krísuvík eða Þingvöll. Þeir gera sér grein fyrir, hvað kostar þungur flutningabíll eða rútubíll þessar löngu leiðir. Svo er annað, sem kemur til greina í þessu sambandi; það er, hvað betri vegur fer betur með tækin, og á því sparast benzín, gúmmí og olía og þar með erlendur gjaldeyrir. Ég geri því ráð fyrir, að hv. þm. og aðrir, sem áhuga hafa á þessu máli, sjái, að þetta er mikil sparnaðarráðstöfun auk alls öryggis, sem það veitir. Því lengur sem það bíður, því verr. Af því stafar eyðsla og vandræði, því að það er ekkert annað, en þjóðareyðsla og öryggisleysi, þegar mikilsverðar aðgerðir dragast á langinn. Það mætti svo margt annað um þetta segja, sem ég læt ómælt nú, nál. frá mþn. er skýrt og greinilegt og hv. þm. hafa það í höndum, og það segir meira um þessar aðgerðir en hægt er að segja í einni stuttri ræðu. Það liggur í augum uppi, að þótt einhver vilji brosa í kamp, af því að lántökuheimildin er 5 millj., þá mundi enginn hlæja að því, sem á að því að búa og veit, hvað í húfi er, því að þetta mannvirki kemur í stað hafnarbóta og hafnargerða, og þessi vegur er þá eins konar stórhafnarmál eða hafnarbótamál Sunnlendinga milli höfuðstaðarins og Suðurlandsundirlendisins. Sá maður, sem þessu er kunnugastur, býst varla við að þessum kafla, úr Svínahrauni austur í Ölfus, verði lokið á einu sumri, hann býst við, að það mundi þurfa til þess tvö eða þrjú sumur, því að hann er varkár maður og segir eins og hann álítur, að þetta eigi að gera. Og hann mun ekki áætla, að þetta gangi örar, en tök eru á. En þó að hér sé í till. áætlað að taka 5 millj. kr. lán til þessa vegar, þá er með því ætlað að gera það, sem framkvæma skal fyrsta sumarið. Ég vil, að svo mæltu, ekki tefja þingið með lengri ræðu um þetta, því að málefnum hér er mörgum svo háttað — og eins er um þetta mál —, að framgangur þeirra fer eftir nauðsyn þeirra og eftir því, sem menn hafa kynnt sér málin, en ekki eftir ræðulengd um þau. Ég treysti því, að hv. þm. ljái þessu máli liðsinni sitt. Ég geri ráð fyrir, að því verði vísað til n., þó að það sé ekki sérstök ósk mín, og þá ætla ég, að það sé hv. fjvn., sem því eigi að vísa til. Treysti ég þeirri hv. n. til að hafa sem greiðust svör um málið, þar eð nú styttist þingtíminn, sem eftir er af þessu þingi.