12.01.1950
Neðri deild: 28. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 181 í B-deild Alþingistíðinda. (397)

81. mál, ríkisábyrgð á útflutningsvörum bátaútvegsins o.fl.

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Hæstv. atvmrh. sagði, að útvegsmenn óskuðu ekki eftir ábyrgðarverði á lýsi, og færði það sem aðalrökin fyrir sinni skriflegu brtt., sem hann nú hefur lagt fram. Það er að vísu rétt, að útvegsmenn hafa ekki gert kröfu til ábyrgðarverðs á lýsi, en hins vegar vilja þeir fá því bætt á hinn svo kallaða frílista. Þó munu margir þeirra heldur vilja fá ákveðnar verðuppbætur, og er ég þeirrar skoðunar, að heppilegra sé fyrir alla aðila, að lýsið verði verðuppbætt, en því verði bætt á frílistann. Hæstv. ráðh. mælti á móti till. minni og vildi heldur, að lýsið yrði sett á frílista. Í því sambandi vil ég benda á, að til þess þarf að afla heimildar Alþingis. Ríkisstj. hefur ekki heimild til að ákveða slíkt, því að hvort sem í því tilfelli er um að ræða gjaldeyrisskatt eða tollahækkun, þarf lagafyrirmæli. Hæstv. ráðh. talaði um, að það væri mjög óeðlilegt að verðbæta alla lifur jafnt, hvað sem gæðunum liði. Ég vil benda á, að ekki hefur neinn greinarmunur verið gerður á fiskábyrgðinni, þó að um mismunandi gæði væri að ræða. Ábyrgðin hefur alltaf verið miðuð við ákveðið verð á hvert kg. án tillits til gæða. Ég vil líka benda á, að gæði lifrarinnar fara ekki eingöngu eftir lýsismagni, eftir því sem fræðimenn segja, heldur kemur líka til greina bætiefnainnihald, eins og hæstv. ráðh. gat um, en oft mun sú lifur, sem minna lýsismagn inniheldur, hafa meira af bætiefnum, svo að verðgildið getur orðið líkt. Auk þess er hér miðað við ábyrgð á lifur, sem aflast kann á vetrarvertíð, og á henni ætti ekki að verða svo mjög mikill munur. Þess vegna held ég, að ábyrgð á lifur eftir máli ætti ekki að vera neitt óréttlátari, en fiskábyrgðin eins og hún hefur verið framkvæmd. Í sambandi við eftirlit með ábyrgð á lýsi, þá er það alveg hliðstætt við fiskábyrgðina. Það er ekkert hægara að fylgjast með, hver aflar fisksins en lifrarinnar. Framkvæmdin á þessari ábyrgð er því hvorki erfiðari né auðveldari, en fiskábyrgðin. Ágreining. urinn er um það, hvort heppilegra sé að verðbæta lýsið eða bæta því á frílista. Ég tel fyrri leiðina heppilegri, því að hin auki á glundroðann í verzlunarmálunum.

Ég sé svo ekki ástæðu til fleiri orða um þetta, en leyfi mér að leggja fram brtt. við 1. gr.