30.11.1949
Sameinað þing: 6. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 374 í D-deild Alþingistíðinda. (3985)

31. mál, Sogsvirkjun og Laxárvirkjun

Atvmrh. (Bjarni Ásgeirsson):

Herra forseti. Hv. frsm. þessa máls og flm. fyrirspurnarinnar ræddi nokkuð um, að langur dráttur væri orðinn á framkvæmd þessara mála og sérstaklega á framkvæmd Laxárvirkjunarinnar, sem hann einkum talaði um. Og má segja, að hann sé langur og ekki langur, þó að liðið sé hátt á þriðja ár frá því, að þessu máli var hreyft hér á Alþ., því að framkvæmdir eins og þessar, bæði virkjun Sogsins og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu, eru svo stór mannvirki og dýr, að það er ekki að undra, þó að þau taki alllangan tíma, þótt ekki sé talað um nema undirbúninginn undir slík mál. Og auk annars þarf fyrir þessi fyrirtæki að afla gjaldeyris og fjárframlaga til þess að framkvæma þessi stórkostlegu virkjunarmál, og er það ekki að undra, þó að það taki nokkurn tíma líka, eins og fjárhagsmálum og gjaldeyrismálum þjóðarinnar er nú komið.

En allan þann tíma, sem liðinn er síðan samþykkt sú var gerð, sem hv. 4. landsk. þm. minntist á, hefur verið unnið stöðugt að þessu máli af hálfu þeirra manna, sem ríkisstj. hefur falið að gegna fyrir hana sérfræðingastarfi á þessu sviði, sem er fyrst og fremst raforkumálastjórn ríkisins. Það hefur verið haldið þannig á þessu máli af ríkisstj., að reynt hefur verið að láta fylgjast að undirbúning og fyrirhugaðar framkvæmdir beggja þessara mála, bæði Sogsvirkjunarinnar og Laxárvirkjunarinnar. Þó er það svo, að eins og nú er komið, þá er Sogsvirkjunin og framkvæmd hennar orðið mál sjálfs ríkisins ásamt Reykjavíkurbæ, vegna þess að nú eru komnir á samningar, bæði af hálfu ríkisins og Reykjavíkurbæjar, um það fyrirtæki, þannig að þetta er orðið að nokkru leyti framkvæmd ríkisins sjálfs. Nokkuð öðru máli er að gegna um Laxárvirkjunina, vegna þess að Akureyrarbær hefur haldið mjög fast í það að vera einn eigandi þessarar virkjunar og ekki viljað ganga inn á samninga hliðstæða því, sem Reykjavíkurbær hefur gengið inn á gagnvart ríkinu viðkomandi Sogsvirkjuninni. Þrátt fyrir það hefur ríkisstj. gert það, sem í hennar valdi hefur staðið, til þess að hrinda áfram þessu máli fyrir Akureyrarbæ, bæði viðkomandi tæknilegum undirbúningi og sömuleiðis fjáröflun, á allan hátt, þó að segja megi, að það hefði átt að hvíla meira á Akureyrarbæ undirbúningur undir þessar framkvæmdir í sambandi við Laxárvirkjunina, sem hann vill einn eiga og ráðstafa. En það hefur ekki verið gert, heldur hefur þessu tvennu verið fylgt jafnt fram af ríkisins hálfu, undirbúningi Sogsvirkjunarinnar og undirbúningi Laxárvirkjunarinnar.

Steingrímur Jónsson framkvæmdastjóri Sogsvirkjunarinnar hefur haft mest með höndum tæknilegan undirbúning Sogsvirkjunarinnar, þó að hann hafi þar ráðgazt um við raforkumálastjórn ríkisins. Hins vegar hefur raforkumálastjórnin haft allan undirbúning viðkomandi Laxárvirkjuninni með höndum. Og nú nýskeð fóru þeir vestur um haf til þess að ganga frá samningum um tilboð um vélar, framkvæmdastjórinn, Steingrímur Jónsson, fyrir Sogsvirkjunina, og lét atvmrh. Eirík Briem fara vestur um leið til þess að hafa með höndum sams konar undirbúning vegna Laxárvirkjunarinnar. Eiríkur Briem er kominn heim aftur, og segir hann, að þessum málum sé nú það komið áleiðis, að hann geti vænzt þess, að hann geti fengið endanleg tilboð um vélar nú fyrir jólin, og þá mun vera hægt að fá þær fljótlega smíðaðar, þannig að framkvæmdir í þessum efnum geti orðið bráðlega. Gat hann þess, — sem ég reyndar vissi, — að tilboð væri hægt að fá bæði í Evrópu og Ameríku. Þessi tilboð hafa verið athuguð undanfarið. Og það mun koma á daginn, að þrátt fyrir gengisbreyt., sem orðið hefur á síðasta hausti, muni það reynast ódýrara að fá vélarnar vestan um haf, og þó afgreiðslutíminn á þeim styttri en frá Evrópu. — Það hefur sem sagt verið haldið áfram með þeim hraða, sem verkfræðingarnir hafa haft yfir að ráða, til þess að undirbúa þessi mál. Og nú liggur þetta þannig lagað fyrir, að líkur eru til, að fljótlega verði hægt að byrja framkvæmdir á báðum þessum fyrirtækjum.

Í framhaldi af því, sem ég hef nú sagt, skal ég geta þess, að gerð hefur verið áætlun af hálfu ríkisstj., eða þeirra manna, sem hún hefur falið það verk fyrir sína hönd, og hún samþykkt, um það, hvernig að skyldi farið um kostnaðinn við þessar framkvæmdir. Ég skal geta þess í höfuðdráttum.

Samkvæmt þeim áætlunum, sem gerðar hafa verið um hinar fyrirhuguðu virkjanir í Sogi og Laxá í Suður-Þingeyjarsýslu, er heildarkostnaður talinn verða af Sogsvirkjuninni 74 millj. kr., þar af innlendur kostnaður 38 millj. kr. og erlendur kostnaður 36 millj. kr., en af Laxárvirkjuninni 25,2 millj. kr. alls, innlendur kostnaður þar af 14,1 millj. kr., en erlendur kostnaður 11,1 millj. kr., eða heildarkostnaður beggja virkjananna samtals 99,2 millj. kr. Þannig er áætlað, að heildarkostnaðurinn alls við þessi mannvirki skiptist þannig, að innlendi kostnaðurinn við þau verði 52,4%, en erlendi kostnaðurinn 47,6%.

Áætlanir þessar voru gerðar áður en gengi ísl. krónunnar gagnvart dollarnum breyttist nú nýlega. Dollaraverðhæðin er sama eftir sem áður gagnvart þessari áætlun, en í ísl. krónum breytist þetta að sama skapi og gengisbreyt. segir til um, sem orðið hefur. En það hefur ekki verið reiknað út sérstaklega, hverju sú breyt. nemur.

Að tilhlutan ríkisstj. hafa verið athuguð skilyrði til öflunar fjár til þessara framkvæmda, og hafa niðurstöður þeirra athugana orðið þær, að gerðar eru þær tillögur til fjáröflunar, sem nú skal greina:

Að allur erlendur kostnaður vegna þessara framkvæmda verði greiddur af ECA-láni, en hann er samtals 47,1 millj. kr. Áætlað er, að erlendi kostnaðurinn skiptist þannig niður á Marshallárin: 1949/50 1,9 millj. doll., 1950/51 2,9 millj. doll., 1951/52 2,45 millj. doll. Er þá reiknað með fyrra gengi dollars. Nú er að vísu ekki að fullu vitað um, hver áhrif gengisbreytingin muni hafa á stofnkostnað mannvirkjanna, en telja má líklegt, að hinn erlendi kostnaður verði jafnhár í dollurum reiknað eftir breytinguna sem fyrir hana.

Um innlenda kostnaðinn er þetta áætlað: Til greiðslu þess kostnaðar verði fjárins aflað á þann hátt, sem hér segir:

1. Að ríkissjóður leggi fram sem lánsfé 5 millj. kr. á ári árin 1950–52, alls 15 millj. kr. 2. Að bæjarsjóður Reykjavíkur leggi fram sem lánsfé 3 millj. kr. á ári árin 1949–52, alls 12 millj. kr.

3. Að bæjarsjóður Akureyrar leggi fram sem lán alls 3 millj. kr.

4. Að gefin verði út skuldabréf og seld almenningi fyrir milligöngu lánsstofnana, og er áætlað, að á þann hátt fáist 5 millj. kr.

5. Að það fé, sem þá vantar á, að nægi fyrir innlendum kostnaði við virkjunina, verði fengið að láni úr jafnvirðissjóði. En sú upphæð áætlast skv. framanskráðu 17,1 millj. kr.

Skipting hins innlenda kostnaðar á ár og fyrirtæki samkv. þessari till. er sem hér segir í millj. kr.:

Sogið.

 

Annað

Jafnv.-

 

Ár

Ríkissjóður

Rvík

innl.

sjóður

Samt.

 

1948

1,5

1,5

1949

1,5

1,5

1950

4,0

3,0

1

4

12,0

1951

4,0

3,0

1

6

14

1952

4,0

3,0

1

1

9

12,0

12,0

3

11

38,0

Laxá.

Akureyri

Annað innl.

Jafnv. sjóður

Ár

Ríkissjóður

Samt.

1948

0,3

0,3

1949

0,5

2,0

2,5

1950

1

0,7

0,7

1,3

3,7

1951

1

0,8

0,6

1,5

3,9

1952

1

0,7

0,7

1,3

3,7

3,0

3,0

2,0

6,1

14,1

Geta verður þess, að áætlanir þær um kostnað mannvirkjanna, sem þessar tölur eru byggðar á, eru nú rúmlega ársgamlar, og hafa á þeim tíma orðið verðlagsbreytingar hér innanlands, sem hafa munu nokkra hækkun kostnaðar í för með sér, en þess er ekki kostur að gera grein fyrir því hér, hve miklu sú hækkun muni nema.

Þetta yfirlit, sem ég hér hef komið með, eru þær till., sem raforkumálastjórnin gerir í þessum málum. En þær till. eiga vitanlega eftir að leggjast fyrir Alþ., hvað Sogið snertir, og sömuleiðis fyrir Alþ. og Akureyrarbæ, hvað Laxá snertir. Reykjavíkurbær mun hafa fallizt á það í þessum till., sem tekur til Reykjavíkurbæjar að standa undir. En þessar till. hafa verið sendar Akureyrarbæ viðkomandi þessu, en þar hafa engar ákvarðanir verið teknar. Og till. um þátt ríkisins í þessum framkvæmdum verða sendar hy. fjvn. til athugunar, og hún tekur sínar ákvarðanir um þetta. En þetta eru þær till., sem ríkisstj. hefur hugsað sér um fjáröflun til þessara framkvæmda. Og kemur það til kasta viðkomandi aðila að taka ákvarðanir, þegar till. liggja fyrir.

Um hið erlenda fé get ég sagt það, að það hefur að vísu ekki komið um þann þátt formleg samþykkt þessu viðkomandi, en þó þannig, að telja má víst, að Marshallstofnunin samþykki þessar framkvæmdir fyrir sitt leyti, bæði að því er snertir Sogið og Laxá, og má telja víst, eða miklar líkur til, eftir þeim undirtektum, sem þegar hafa fengizt undir þessa málaleitun, að sú hliðin á fjáröfluninni, sem veit að erlendum gjaldeyri, verði samþykkt. En þá kemur til kasta Reykjavíkurbæjar og Akureyrarbæjar og ríkisins með að afla þeirra fjármuna, sem þarf til þessa innanlands.

Þetta eru þær till., sem ríkisstj. getur nú þegar lagt fram fyrir þingið.