30.11.1949
Sameinað þing: 6. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 378 í D-deild Alþingistíðinda. (3986)

31. mál, Sogsvirkjun og Laxárvirkjun

Fyrirspyrjandi (Steingrímur Aðalsteinsson) :

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir þau svör, sem hann hefur hér gefið, og þær upplýsingar, sem hann hefur flutt hér í sambandi við þetta mál. Það er náttúrlega út af fyrir sig ágætt, að slík áætlun skuli þegar liggja fyrir um þessar framkvæmdir. En hins vegar er það náttúrlega engan veginn nóg, því að um framkvæmdirnar fer fyrst og fremst eftir því, hvernig tekst að láta þær áætlanir, sem þarna hafa verið gerðar af hálfu ríkisstj., standast. Og mér skilst, að þessar áætlanir séu nú einkanlega fólgnar í því að viðurkenna, hvað erlendi kostnaðurinn muni verða af þessum framkvæmdum, og þá fyrst og fremst að geta þeirrar ákvörðunar ríkisstj. að verja nokkru af svo kölluðu Marshallfé til þessara fyrirtækja, en að því er innlenda kostnaðinn snertir, sé ætlazt til þess, að innlendir aðilar, og þá sérstaklega að því er snertir Laxárvirkjunina, Akureyrarbær, útvegi sjálfir að verulegu leyti það fé, sem til þessara framkvæmda þarf.

Mér skilst, af þeim kunnugleika, sem ég hef af möguleikum Akureyrarkaupstaðar um að afla fjár í þessu skyni, að það verði tæplega gert, svo að nokkru nemi, nema með lánsfé. Og ég held, að það hafi vakað fyrir þeim, sem stjórna bæjarmálum á Akureyri, að treysta því, að ríkið og hæstv. ríkisstj. mundi greiða fyrir því að útvega lánsfé. En mér virtist af þeirri áætlun, sem hæstv. atvmrh. lýsti, en hún var raunar svo margir liðir, að ég náði þeim ekki vel, að ætlazt væri til, að Akureyri útvegaði sjálf mikinn hluta þess fjármagns, sem hún þarf. En ég veit ekki, hvort með þessu er leystur sá vandi af hæstv. ríkisstj. að hafa með höndum forgöngu um útvegun þessa fjár. Um hina beinu aðstoð af hendi ríkisins er komið undir Alþ. með fjárveitingar. Mér skilst, að ætlazt sé til, að þær 15 millj., sem ríkið leggur fram sem lánsfé í þessu skyni, verði á fjárl. næstu ára. Ég veit ekki, hvort gert er ráð fyrir slíku í því fjárlagafrv., sem lagt var hér fram í gær, þar sem ég hef haft svo nauman tíma til að athuga það, en ég hef ekki komið auga á það. Ég vil því beina þeirri spurningu til hæstv. ráðh., hvort gert sé ráð fyrir slíku framlagi á fjárl. fyrir 1950. Að sjálfsögðu er hægt að leggja slíkt fram í fjvn., en það hefði óneitanlega borið vott um meiri áhuga hjá hæstv. ríkisstj., ef hún hefði lagt slíkt til í sjálfu fjárlfrv. — Ég þakka svo hæstv. ráðh. fyrir þær upplýsingar, sem hann hefur gefið, og vona, að unnið verði að því af alvöru af Alþ. og ríkisstj. og þeim bæjarfélögum, sem þetta varðar, að hrinda þessum málum áfram án dráttar.