14.12.1949
Sameinað þing: 10. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 379 í D-deild Alþingistíðinda. (3991)

57. mál, hlutatryggingasjóður bátaútvegsins

Atvmrh. (Jóhann Jósefsson) :

Herra forseti. Út af fyrirspurn á þskj. 76 vil ég hér með gefa eftirfarandi upplýsingar:

Eftir að Alþingi hafði samþykkt lögin, gerði ráðuneytið þegar ráðstafanir til þess, að innheimta útflutningsgjalda skv. 9. gr. laganna yrði hafin. Jafnframt ritaði ráðuneytið Alþýðusambandi Íslands og Landssambandi íslenzkra útvegsmanna og bað þessa aðila hvorn um sig að tilnefna mann í stjórn sjóðsins samkv. ákvæðum 7. gr., og hefur ráðuneytinu nú fyrir skömmu borizt tilnefning frá Landssambandinu, er varð seinna til að svara, og hefur stjórn sjóðsins þegar verið skipuð, og eiga sæti í henni Davíð Ólafsson fiskimálastjóri, formaður, Sigurjón Á. Ólafsson fyrrv. alþm. og Ingvar Vilhjálmsson útgerðarmaður.

Ráðuneytið telur að svo komnu máli ekki ástæðu til annars en að ætla, að sjóðurinn geti hafið bátagreiðslur á tilteknum tíma, að svo miklu leyti sem tekjur hans hrökkva til að standa undir bótum. Þar sem lögin komu ekki til framkvæmda fyrr en komið var undir mitt ár og skilagreinar hafa enn ekki borizt úr flestum landshlutum, er ekki enn hægt að segja með neinni vissu, hverjar tekjur sjóðsins muni verða á þessu ári, en þær eru samkv. ákvæðum 9. gr. laganna ½% útflutningsgjald af öllum útfluttum sjávarafurðum, öðrum en þeim, sem koma frá botnvörpuskipum, hvalveiðum og selveiðum, og framlag ríkissjóðs á móti útflutningsgjaldinu, auk vaxta af eignum sjóðsins. Árið 1948 nam verðmæti þeirra sjávarafurða, er lögin taka til, um 260 millj. kr., og hefðu þá tekjur sjóðsins orðið kr. 1.300.000 það ár, auk framlags ríkissjóðs, en nú er allt útlit fyrir, að verðmæti útflutningsvaranna verði verulega lægra á þessu ári, og mun óvarlegt að áætla tekjur sjóðsins af útflutningsgjaldi hálft þetta ár yfir 450.000 kr. og svo framlag ríkissjóðs að jöfnu á móti þeim tekjum. — Eins og spurningar liggja fyrir, ætla ég, að þessar upplýsingar nægi til þess að leysa úr því, sem fyrir hv. fyrirspyrjanda virðist vaka.