11.01.1950
Sameinað þing: 16. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 381 í D-deild Alþingistíðinda. (3997)

78. mál, skipun læknishéraða

Atvmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Fyrirspurnin á þskj. 162 frá hv. þm. Barð. er í fjórum liðum, og mun ég leitast við að svara stuttlega í einu lagi því, sem að er spurt, en binda mig ekki við einstaka liði, og vænti þess, að það verði talið fullnægjandi. — Nefnd sú, sem hér ræðir um, var skipuð samkv. ósk í þál. 11. marz 1944, um skipun læknishéraða. Í fsp. stendur nú 1945, en mér er tjáð, að það hafi verið 1944. Nefndin var skipuð 5. apríl s. á., og voru skipaðir í hana: landlæknir án tilnefningar, Gunnar Thoroddsen prófessor skv. tilnefningu heilbr.- og félmn. Alþ. og Magnús Pétursson héraðslæknir skv. tilnefningu Læknafélags Íslands. Landlæknir var formaður nefndarinnar. Nefndin hefur borið fram eitt frv., í árslok 1944, um stofnun Staðarhéraðs á Snæfellsnesi og um frestun á stofnun Borðeyrarhéraðs, og varð það að l. Kostnaður við störf nefndarinnar varð á árinu 1944 kr. 2.271.18, þar af kr. 2.263,18 þóknun til hinna tilnefndu meðlima nefndarinnar. Síðan hefur enginn kostnaður verið greiddur vegna nefndarinnar.

Ráðuneytið ritaði nefndinni 27. okt. 1947 og óskaði þess, að hún skilaði áliti hið allra fyrsta, en svar hefur eigi borizt við því bréfi.

Ég hef ekki að svo komnu máli meira um þetta að segja.