11.01.1950
Sameinað þing: 16. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 382 í D-deild Alþingistíðinda. (4002)

900. mál, lánveitingar til skipakaupa o.fl.

Fyrirspyrjandi (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Í l. nr. 109 frá 31. des. 1945 var ríkisstj. heimilað að láta smíða eða kaupa 30 nýja togara og taka til þess að láni allt að 60 millj. kr., og segir í l., að lánið eigi að greiðast upp, þegar skipin hafi verið seld. Í l. nr. 54 frá 1946 var ríkisstj. einnig heimilað að kaupa eða láta smíða fiskiskip, erlendis eða innanlands, með það fyrir augum, að þau verði seld einstaklingum, félagssamtökum eða bæjar- og sveitarfélögum, og taka til þess allt að 30 millj. kr. lán, og segir síðan, að lánið eigi að greiðast upp, þegar skipin hafa verið seld. Nú er það kunnugt öllum, að þessar framkvæmdir hafa verið gerðar. En í ræðu hæstv. fjmrh. við 1. umr. fjárl. komu fram athyglisverðar upplýsingar varðandi þetta mál. Ráðherrann sagði í þeirri ræðu, sem birt var í Morgunblaðinu tveim dögum síðar, að sjö togarar hefðu ekki getað fengið lán úr stofnlánadeildinni, og hefði ríkissjóður þess vegna orðið að taka að sér þessi lán til skipanna, sem næmu nú 17,5 millj. kr., og kom það einnig fram hjá hæstv. ráðh., að vaxtabyrði ríkissjóðs af þessu næmi 600–700 þús. kr. á ári, og hvað við kemur Svíþjóðarbátunum, þá væru það 13 bátar, sem ekki hefðu getað fengið lán úr stofnlánadeildinni, og hefði ríkissjóður vegna þeirra neyðzt til þess að lána tæplega 7½ millj. kr.

Um þetta er fyrsti liður í fyrirspurn minni, hverjir hafi fengið lán hjá ríkissjóði til kaupa á togurum og bátum, samtals um það bil 25 millj. kr., og hve hátt lán hver lántakandi hafi fengið.

Þá er enn fremur um það spurt, hvort ríkisstj. hafi veitt öll þau stofnlán til skipakaupa eða annarra framkvæmda, sem henni hafa borizt óskir um, og ef ekki, hvaða reglum hún hefur þá fylgt við lánveitingarnar.

Í þriðja lagi er spurt um það, hvort ríkisstj. hafi gefið loforð um stofnlán eða útvegun stofnlána, sem ekki er enn þá búið að uppfylla, og ef svo er, hverjir hafi þá fengið slík fyrirheit og hvað há stofnlán hefur verið lofað að veita þeim eða útvega, hverjum fyrir sig.

Loks er í fjórða lagi spurt um það, hvenær ríkisstj. hafi fengið heimild til þessara lánveitinga. Ég hef ekki getað séð þessa heimild neins staðar í lögum og veit ekki til þess, að hún hafi verið veitt. — Um þetta óska ég upplýsinga.