15.01.1950
Sameinað þing: 16. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 383 í D-deild Alþingistíðinda. (4003)

900. mál, lánveitingar til skipakaupa o.fl.

Fjmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Út af þessari fyrirspurn hv. þm. V-Húnv. vil ég geta þess, að henni mun verða svarað í tvennu lagi, nokkrum hluta hennar mun ég nú svara, en hæstv. atvmrh. mun síðan svara þeim hlutanum, er bátana varðar.

4. liður fyrirspurnarinnar er um það, hvenær ríkisstj. hafi fengið heimild til þessara lánveitinga.

Það mun vera rétt, að ekki mun hafa verið sérstök heimild fyrir hendi, þegar þetta var gert, en það er öllum kunnugt, að Alþingi hafði gert þær ráðstafanir, sem neytt hafa ríkisstj. til þess að gera þessar lánveitingar. (PZ: Nú, það var skrýtið. ) Mér skilst, að einn hv. þm. sé undrandi yfir þessu, en það er ljóst, að ríkissjóður hefur þarna ábyrgðir að bera á þessum togarakaupum og Svíþjóðarbátum og að það verður að taka afleiðingunum af því. Það er ekki hægt að draga þessa ábyrgð undan ríkissjóði, og það er enn fremur engum dulið, að fé það, sem stofnlánadeildinni var ætlað, hafði engan veginn dugað til þess að lána út á alla togarana, sem keyptir voru. Þá er það jafnframt öllum ljóst, að þegar að því kom, að ekki var hægt að veita meiri stofnlán, þá þurfti þó að gera einhverjar ráðstafanir í sambandi við þessi skip.

Að því er varðar 1. tölul. fyrirspurnarinnar skal þessu svarað:

Lán þau, sem hér mun vera átt við, eru til eftirtalinna skipa:

Bv. Skúli Magnússon, Reykjavík,

— Jón Þorláksson, Reykjavík,

— Hallveig Fróðadóttir, Reykjavík,

— Svalbakur, Akureyri,

— Úranus, Reykjavík,

— Jón forseti, Reykjavík,

— Jörundur, Akureyri.

Lánsupphæðin á hvert skip var upphaflega ca. 2,5 millj. kr., nema á togarann Jörund 1,5 millj. kr. Samtals var heimildarlánsfjárhæðin kr. 16.537.000.00, en lánin hafa nú greiðzt nokkuð niður, enda hefur þeim verið haldið í fullum skilum.

Í rauninni er ekki rétt að orða það svo, að ríkissjóður hafi veitt lán til kaupa á togurum, heldur var hér um að ræða bráðabirgðatilfærslu milli reikninga í bankanum. Ríkissjóður skuldaði Landsbankanum þessar fjárhæðir vegna væntanlegra kaupenda á byggingarreikningi skipanna, og voru því til bráðabirgða útbúin lánsskjöl á skipin fyrir fjárhæðunum, sem bankinn síðan hefur í sínum vörzlum. Gagnvart skipunum, eða kaupendum þeirra, má því segja, að þeim hafi einungis verið veittur gjaldfrestur á hluta byggingarkostnaðarins, sem svarar stofnlánum þeim, sem þeir hefðu átt að fá, ef stofnlánadeildina hefði ekki þrotið fé. Eiginlegar lánveitingar í venjulegum skilningi var ekki um að ræða, þar sem ekkert lánsfé var greitt út, enda hefur ríkissjóður ekki afsalað neinu þessara skipa. Auk þess var það beint tilskilið, að ráðstöfun þessi væri aðeins til bráðabirgða, eða þar til úr rættist um fjárreiður stofnlánadeildar, og skyldi deildin yfirtaka skuldabréfin til sín strax eða jafnharðan og hún hefði bolmagn til og skuld ríkissjóðs á byggingarreikningi skipanna þá lækka að sama skapi eða hverfa.

Orsakir þessarar fjárþurrðar stofnlánadeildar lágu aðallega í verðhækkunum nýsköpunartogaranna, sem aftur leiddu til þess, að þeir fengu, svo sem þeir áttu kröfu til, hærri stofnlán en upphaflega hafði verið áætlað í annan stað dró seðladeild Landsbankans inn strax á fyrsta ári, eða áður en stofnlánadeild hafði lokið útlánum til nýsköpunartogaranna, nokkuð af starfsfé deildarinnar, eða sem svaraði því, sem lántakendur stofnlánadeildar greiddu jafnóðum sem afborganir af lánum. Hefur seðlabankinn nú dregið inn ca. 12 millj. kr. af fé því, sem upphaflega var ætlað deildinni til ráðstöfunar.

Í 4. lið fyrirspurnarinnar er spurt um heimild ríkisstj. til þessara lánveitinga. Það er rétt, að bein formleg heimild er ekki fyrir hendi, heldur var ráðstöfun þessi byggð á óhjákvæmilegri nauðsyn, sem stafar af ráðstöfunum Alþingis varðandi skipakaupin. Þegar samningar voru gerðir við kaupendur togaranna á sínum tíma, var þeim heitið stofnlánum, ¾ og 2/3 hlutum byggingarkostnaðar, og stóð nýbyggingarráð fyrir hönd ríkisins að þessum samningum (sbr. bréf ráðuneytisins, dags. 7. okt. 1947). Þessi skuldbinding var greinileg ákvörðunarástæða fyrir kaupunum af hálfu kaupenda, enda hefðu þeir ekki ráðið við þau að öðrum kosti. Nú þegar síðustu skipin komu, var stofnlánadeildin þrotin að fé til útlána. Öll höfðu skip þessi greitt með fullum skilum þann hluta byggingarkostnaðar, sem þeim bar að leggja fram skv. samningum. Þegar nú ekki reyndist unnt að útvega skipunum stofnlán, svo sem tilskilið var, voru aðeins tveir kostir fyrir hendi: annaðhvort að leggja skipunum við landfestar um ófyrirsjáanlegan tíma — og þar væru þau enn, eða þá hitt, að veita þeim gjaldfrest, þar til aðrar ráðstafanir yrðu gerðar um lánsfjáröflun stofnlánadeildarinnar. Fyrri leiðin gat varla komið til greina, enda vafasamt, að kaupendur, sem alla samninga höfðu haldið af sinni hálfu, hefðu að lögum þurft að sætta sig við slíkt. Þótti þess vegna að öllu athuguðu rétt og óhjákvæmilegt að velja síðari kostinn. Var Landsbankanum (stofnlánadeild) því falið að ganga frá formlegum lánsskjölum og annast innheimtu vaxta og afborgana. Þess er áður getið, að ríkissjóður hefur ekki afsalað neinu þessara skipa og er þess vegna enn formlegur eigandi þeirra, nema Jörundar.

2. liður fyrirspurnarinnar er svo hljóðandi: „Hefur ríkisstj. veitt öll þau stofnlán til skipakaupa eða annarra framkvæmda, sem henni hafa borizt óskir um, og ef svo er ekki, hvaða reglum hefur hún þá fylgt við lánveitingarnar?“

Yfirleitt má segja, að ríkisstj. hefur ekki staðið í því að veita stofnlán, heldur hefur hún neyðzt til þess að lána til bráðabirgða, eins og áður er tekið fram.

3. liður fyrirspurnarinnar er þannig: „Hefur ríkisstj. gefið loforð um stofnlán eða útvegun stofnlána, sem ekki er enn búið að uppfylla, og ef svo er, hverjir hafa þá fengið slík fyrirheit, og hvað há stofnlán hefur verið lofað að veita þeim eða útvega, hverjum fyrir sig?“

Mér vitanlega hafa ekki verið gefin nein loforð um stofnlán, sem svo stendur á um, nema vera skyldi til nokkurra hraðfrystihúsa, en fyrir lánum til þeirra og til Svíþjóðarbáta og bátabygginga innanlands mun hæstv. atvmrh. gera grein síðar.